Tilfinningagreind tryggir velgengni

Þegar vísindamenn höfðu þróað greindarpróf töldu margir að þar með væri komið tæki til að spá fyrir um velgengni og hæfni barna í framtíðinni. Í Bandaríkjunum og Bretlandi voru þau um tíma notuð til að ákvarða hvort börn fengju að velja námsbrautir sem beindu þeim síðar í háskólanám. Rétt fyrir miðja síðustu öld komu hins vegar fram upplýsingar sem sýndu að til eru fleiri en ein tegund greindar og hin hefðbundnu greindarpróf mældu alls ekki þá mikilvægustu.

Tilfinningagreind var ein þessara vanræktu gáfna og rannsóknir hafa sýnt að þeir sem hafa hana í ríkum mæina ara vanræktu gökvæli eru mun líklegri til að ná árangri í því sem þeir kjósa að taka sér fyrir hendur en þeir sem hafa háa greindarvísitölu. Fólk með meðalgreind er nefnilega oftast nær með mun betri tilfinningagreind en snillingar og þeim tekst mun betur að höndla verkefni daglegs lífs, samvinnu við aðra og leiða aðra en þeir sem hafa hæsta greindarvísitölu. Nú hafa vísindamenn rannsakað þessa og aðrar tegundir greinda um áratuga skeið og niðurstöðurnar benda allar í sömu átt. Því auðveldara sem þú átt með að lesa í hegðun annarra, skilja þá og umgangast því líklegri ertu til að ná árangri í lífinu. Bestu fréttirnar eru svo þær að allir geta þjálfað þessa greind og aukið hana allt sitt líf.

Tilfinningagreind er að sumu leyti erfitt að skilgreina. Við þekkjum öll fólk sem hefur eitthvað óskilgreint við sig sem gerir það að verkum að öllum líður vel í návist þeirra. Sá einstaklingur hefur líklega mjög góða tilfinningagreind. Þessi skilningur og hlýja hefur einnig áhrif á hvernig þetta fólk tekur ákvarðanir og kemur fram við aðra. Hægt er að skipta henni upp í nokkra þætti alla jafnmiklvæga.

Persónuleg hæfni lýtur að skilningi þínum á sjálfri þér og hvernig þú stjórnar eigin tilfinningalífi. Því betur sem þú þekkir sjálfa þig því líklegri ertu til að sýna öðrum umburðarlyndi og láta þá ekki hafa áhrif á tilfinningar þínar og líðan. Þú ert einnig líklegri til að þekkja eigin tilfinningar og beina þeim í jákvæðan farveg.

Meðvitund um eigin líðan er hæfnin til að skilgreina rétt eigin líðan í tilteknum aðstæðum og vera meðvituð um hvað er að gerast í tilfinningalífi þínu þegar það gerist.

Sjálfstjórn snýst um að rækta með sér sveigjanleika og vinna úr tilfinningum áður en þær hafa neikvæð áhrif á hugsanir þínar og hegðun

Félagsfærni snýst um meðvitund þína um umhverfi þitt, sambönd fólks og leiðtogahæfileika þína. Hér er einnig um að ræða góða hæfni í að skilgreina líðan annarra, skilja hegðun þeirra og hvatir og svara á þann hátt að líklegt sé til að leysa mál eða skila árangri.

Félagsleg meðvitund lýsir hæfileika þínum til að skynja hvað er í gangi í samskiptum milli fólks, þ.e. meta ástandið og skilja það rétt.

Stjórn á samskiptum er hæfileiki þinn til að skilja og vera meðvituð um eigin tilfinningar og annarra og ná stjórn á þeim þannig að samskiptin batni, dýpki sambönd þín og gefi þér eitthvað í stað þess að skapa aukin vanda.

Þrátt fyrir að tilfinningagreind sé þetta mikilvæg er sjaldgæft að hún sé markvisst þjálfuð meðal manna. Meðal þess sem sérfræðingar telja að hollt sé að rækta með sér til að þjálfa tilfinningagreind sína eru:

Aukin jákvæðni. Oftast er eitthvað að í heiminum, samfélaginu, í vinnunni og á heimilinu. Tilfinningagreint fólk lætur slíka hluti ekki valda sér áhyggjum til lengri tíma. Það einbeitir sér að þeim þáttum sem það getur stjórnað, nefnilega eigin hegðun og líðan.

Elfdu orðaforða þinn, einkum þau orð sem lýsa líðan. Allir upplifa margvíslegar tilfinningar á einum degi en rannsóknir sýna að aðeins um 36% mannkyns getur nefnt og skilið á valdi hvaða tilfinningar það er frá einum tíma til annars. Lærðu þess vegna að þekkja orð og hugtök sem geta hjálpað þér að skilgreina það sem er í gangi.

Vertu ákveðinn. Fólk með góða tilfinningagreind segir skýrt og ákveðið vilja sinn og setur öðrum mörk. Það er sömuleiðis tillitssamt, opið fyrir rökum, tilbúið að setja sig í annarra spor og sýna hlýju þegar það á við. Þessir eiginleikar koma ævinlega að góðum notum þegar leysa þarf úr ágreiningi og ólíklegra er að fólk bregðist við með ofsafengnum tilfinningaviðbrögðum.

Vertu forvitinn um annað fólk. Fólk með góða tilfinningagreind hefur áhuga á öðrum. Það skiptir ekki máli hvort það er opið tilfinningalega eða lokað það á sameiginlega löngun til að skilja aðra heyra um líf þeirra og líðan. Forvitnin sprettur nefnilega ekki af illkvittni heldur samlíðan og löngun til að hjálpa.

Geymt en ekki gleymt. Tilfinningagreint fólk á auðvelt með að fyrirgefa misgerðir en það gleymir ekki því sem gert er því í mót. Sá sem brugðist hefur trausti eða komið illa fram getur ekki vænst þess að vera treyst eða að sambandið verði eins náið. Hinn tilfinningagreindi heldur hins vegar ekki í reiðina og veltir sér ekki upp úr gremjunni. Þeir læra af því sem er þeim mótdrægt í samskiptum.


Leyfðu þér að upplifa gleðina. Gleði og fullnægja í lífinu er nokkuð sem hver og einn finnur innra með sér. Hinir tilfinningagreindu vita þetta og eru því ekki að stöðugt að bera sig og aðstæður sínar saman við það sem aðrir hafa eða upplifa. Í hvert sinn sem árangur næst eða eitthvað ánægjulegt gerist leyfðu þér að upplifa gleðina óritskoðaða. Það kann að vera að einhver annar hafi gert betur eða komist auðveldar að markinu en þú ert þar núna og átt skilið klapp á bakið. Láttu einnig skoðanir annarra á áfanga þínum sem vind um eyru þjóta. Þú einn metur hvort um afrek er að ræða eður ei.

Gerðu hlutina skemmtilega. Tilfinningagreint fólk veit hvað veitir því ánægju og ástunda þess vegna vinnu, áhugamál eða afþreyingu sem veitir þeim gleði og það leggur sig fram um að leyfa öðrum að taka þátt í ánægjunni með því. En allir þurfa að gera fleira en gott þykir og lexía Mary Poppins um að gera starfið að leik er góð og allir geta búið sér til skemmtilegan leik úr leiðinlegu rútínu skyldustörfunum.

Það er ekki auðvelt að móðga tilfinningagreinda. Ef þú þekkir sjálfan þig vel og veist hvert þú vilt fara er mjög erfitt að móðga þig. Tilfinningagreint fólk hefur gott sjálfstraust og tekur því ekki nærri sér skoðanir annarra á sér.

Þaggaðu niðri í neikvæðu röddinni í huganum. Flestir þekkja neikvæðu röddina í höfðinu sem stöðugt skammar og setur út á allt sem þeir gera. Fyrsta skrefið í átt að tilfinningagreind er að einfaldlega þagga niður í henni og viðurkenna sjálfan sig sem breyska manneskju sem gerir mistök en bætir einnig fyrir þau. Hrósaðu sjálfri þér fyrir velunnin verkefni og ef þú gerir yfirsjónir fyndu þá út hvað læra má af henni og hvernig hægt er að gera betur.

Með þessu móti getur hver og einn aukið tilfinningagreind sína allt lífið og í kjölfarið bætt eigin líðan og notið aukinnar velgengni. Smátt og smátt munu nefnilega hugsanaferlarnir breytast og hugurinn tileikna sér ný hegðunarmynstur sem eru jákvæðari og betri fyrir þig sem manneskju.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn september 11, 2024 07:00