Einn lykillinn að því að lifa betur eftir fimmtugt er að sýta ekki orðinn hlut. Sættu þig við afleiðingar fyrri ákvarðana en gerðu þér ljóst að það gæti verið kominn tími til að breyta því hvernig þú lifir lífi þínu héðan af.
Barbara Hannah Grufferman hjá AARP-vefnum (American Association of Retired Persons) hefur tekið saman eftirfarandi ráð handa þeim sem komnir eru yfir miðjan aldur.
Horfðu fram á við og veltu fyrir þér hvernig þú vilt hafa framtíðina. Ef þú ert ekki viss um hvar þú átt að byrja skaltu spyrja þig þessara fimm spurninga:
- Er ég í góðu sambandi við umheiminn og fólkið sem mér þykir vænt um?
- Hugsa ég um líkamann, hugann og andann?
- Er ég sjálfur á forgangslistanum mínum?
- Hef ég stjórn á fjárreiðum mínum?
- Kann ég að gera mér glaðan dag?
Hér að neðan eru 10 ráð sem hjálpa þér að svara öllum ofangreindum spurningum játandi:
1. Vertu í tengslum
Hvort sem þú ert í vinnu, á eftirlaunum eða að hugsa um að fara aftur út á vinnumarkaðinn, þá er tengslanet nauðsynlegt. Með því að tengjast fólki á Facebook, Twitter eða LinkedIn og jafnframt í eigin persónu heldurðu þér í sambandi. Uppfærðu einnig ferilskrána þína.
2. Veldu vini í stjórnina með þér
Lífið eftir fimmtugt er breytingum undirorpið og getur verið flókið. Hvort sem þú ert að leita þér að nýjum starfsvettvangi, nýju sambandi (eða að reyna að ljúka sambandi) eða að kaupa fasteign, þá skiptir máli að hafa trausta vini sem hjálpa þér að svara mikilvægustu spurningunum. Veldu nokkra fordómalausa vini til að setjast í stjórn með þér, vini sem hvetja þig og leiðbeina þér. Og gerðu eins við þá.
3. Ekki reykja
Þetta er ekki flókið. Það er átakanlegt að við skulum enn sjá fólk reykja á götum úti. Reykingar eru aðalorsök sjúkdóma sem unnt er að koma í veg fyrir samkvæmt bandarísku lungnasamtökunum. Ef þú ert yfir fimmtugu og reykir enn skaltu leita þér hjálpar til að hætta.
4. Stundaðu öruggt kynlíf
Ekki halda að þú sért ónæmur fyrir kynsjúkdómum af því að þú ert kominn yfir fimmtugt. Það ertu ekki. Vertu viss um að þekkja rekkjunaut þinn áður en þú lætur til skarar skríða, jafnvel þótt þú sért í föstu sambandi. Notaðu smokka. Ræddu áhættuþætti þína við lækni og láttu skima fyrir algengum kynsjúkdómum, sérstaklega þegar þú byrjar í sambandi. Krefstu þess að félagi þinn geri það sama.
5. Hreyfðu þig
Gefðu líkama þínum að gjöf daglega hreyfingu. Hugurinn og andinn fylgja með. Jafnvel rösk ganga í skamma stund fleytir þér langt. Þetta snýst ekki um að vera grannur. Þetta snýst um að vera hraustur og eins vel á sig kominn og unnt er.
6. Styrktu beinin
Beinþynning er sjúkdómur sem við tengjum því að eldast og það með réttu. Mikilvægt er að innbyrða ráðlagðan dagskammt af kalsíni og D-vítamíni (sem hjálpar líkamanum að taka upp kalsín). Jafnmikilvægt er að gera styrktaræfingar til að byggja upp vöðvamassa og beinþéttleika. Ávinningurinn? Líkami þinn verður stinnur og hraustur.
7. Sparaðu meira, eyddu minna
Því meira sem þú sparar eftir fimmtugt, því minni streitu finnurðu fyrir. Fólk sem er komið yfir miðjan aldur kvíðir því að hafa of lítið á milli handanna til að lifa áhyggjulaust ævikvöld. (Útreikningur lífeyrissjóðsins hjálpar þér að sjá hvernig þér gengur.) Því fyrr sem þú byrjar að leggja fyrir, því betur stendurðu þegar fram í sækir. Þiggðu ráð hjá peningasérfræðingum.
8. Leggðu góðu málefni lið
Við erum öll upptekin af fjölskyldum okkar, vinnu og vinum, en ekki nota það sem afsökun fyrir því að hætta að berjast fyrir góðum málstað. Við búum yfir visku og hugmyndaauðgi. Þó að þú sért kominn á miðjan aldur, ekki láta næstu kynslóð taka við keflinu, bara sisona. Haltu á því með henni svo að við getum í sameiningu leyst vandamál heimsins.
9. Fagnaðu barninu innra með þér
Vertu brosgjarn, leiktu á als oddi, rektu upp skellihlátur, gerðu þér glaðan dag með fjölskyldu og vinum. Finndu þér nýja tómstundaiðju, kannski með þeim sem láta sér annt um þig.
10. Fagnaðu ævidögunum
Ekki verjast nýju æviskeiði. Slepptu takinu á yngra sjálfi þínu og taktu eldra sjálfi þínu opnum örmum. Komdu fram við sjálfan þig af virðingu og sýndu þér góðvild. Annastu sjálfan þig — anda, sál og líkama — á sama hátt og börnin þín, fjölskyldu og vini.