Kommúnur í sveit gætu verið spennandi kostur fyrir eftirlaunaþega

Árni Gunnarsson

Árni Gunnarsson eftirlaunamaður úr Skagafirði hefur áhuga á að stofnaðar verði kommúnur í sveit  fyrir gamalt fólk, sem enn hefur ekki orðið sjúkdómum að bráð.  Hann segir að fólk eigi kannski íbúðir í þéttbýli, sé búið að missa makann og sé einmana. Honum finnst ástæðulaust að eldra fólk láti „ráðstafa“ sér og vill að það taki málin í eigin hendur. „Fólk sem er orðið sextugt og eldra. Það er komið með reynslu og getur gert allt mögulegt“, segir hann og bendir á uppbygginguna á Sólheimum í Grímsnesi. „Þetta gæti eldra fólk líka gert“ bætir hann við.

Ríkisjarðir tilvaldar í þetta

„Ég sé fyrir mér að hægt sé að fá ríkið til að leggja til jarðir fyrir slíkar kommúnur, en ríkið á jarðir út um allt land. Þetta geta verið litlar eða stórar bújarðir með húsnæði fyrir 7-10 einstaklinga sem gætu – eftir atvikum – rekið afþreyingarbúskap með hesta, hunda, hænsni og aðstöðu til garðyrkju“, segir hann. „Fólk hefði eitthvað fyrir stafni og fyndist það hafa tilgang í lífinu“.  Hann segir að það sé eldra fólk úti um allt land, sem hafi tengsl út í sveitirnar og sé alið þar upp.  Þar sé víða að finna heitt vatn og alstaðar sé hægt að útbúa afþreyingu sem hverjum og einum hentar „Ég er alveg viss um að það er fjöldi fólks með ágæta hreyfigetu og kollinn í lagi sem gæti gert góða hluti og  til dæmis tekið vandræðaunglinga úr Reykjavík undir sinn verndarvæng. Fólk gæti lifað ljómandi góðu lífi. Sumir eru einmana og líður illa allan daginn. Þess eru dæmi að fólk þurfi ekki annað en hvolp eða kettling til að bjarga sálartetrinu “, segir Árni.

Framkvæmd fer eftir hugarfarinu

Hann telur að karlar og konur geti búið saman í sveitakommúnunni. Það sé hægt að kaupa litlar húseiningar, sem líklega séu fáanlegar í dag til að mynda hjá IKEA. Fólk geti skipt með sér verkum og gert alla yfirstjórn óþarfa til að spara og geti jafnvel keypt sig inn í kommúnuna. Hann minnir á að allt sé hægt ef viljinn sé fyrir hendi. Jón í Möðrudal hafi byggt kirkju, kostað hana sjálfur og ekki séð nein vandkvæði á því. „Þetta yrði erfiðara í dag,“ segir Árni.  „Ef ég færi inná fund ríkisstofnunar með hugmyndina um kommúnur í sveit, yrðu líklega taldir miklir annmarkar á henni. En það er líka hægt að framkvæma hana, það fer allt eftir hugarfarinu. Menn þurfa að spyrja sig, ætla þeir að gera þetta? Ef svarið er já gengur þetta, en ef menn telja sig vita að þetta gangi ekki, þá gerist það ekki“.

Þarf að stofna hóp um málið

Árni sér fyrir sér að kommúnurnar yrðu jafnvel reknar með algera sjálfbærni að leiðarljósi og nefnir í því sambandi sjálfbærniverkefni sem Pálmi Einarsson iðnhönnuður í Kópavogi hefur hannað og verið með prófun á í jallara íbúðarhúss. Og í ylræktarstöð á Laugamýri í Steinstaðahverfi í Skagafirði er komin í gang starfsemi með bleikjueldi þar sem úrgangur frá fiskunum er nýttur til áburðar fyrir matjurtir og blóm.  Hægt væri að leita samstarfs við Pálma og byggja reksturinn á hugmyndum hans um altæka sjálfbærni. Sjálfur hefur Árni áhuga á að vinna að þessu verkefni með því að:

  1. Vekja athygli fólks á því að þetta sé leið til úrbóta. Hugmyndin sé hrá, en það sé hægt að útfæra hana á marga vegu.
  2. Það þurfi að stofna hóp um hugmyndina, því það sé ekki á færi einstaklinga að hrinda þessu í framkvæmd.
  3. Það eigi að ganga í að hafa samband við ríki og sveitarfélög um stuðning við hugmyndina. Það sé skylda þessara aðila að sjá til þess að eldra fólk njóti framfærslu og þjónustu og því sé það beinlínis þeirra hagur að hafa forgöngu um málið.

Hundrað ára úti að gefa hænsnunum

Árni segist líta yfir minningargreinarnar í Morgunblaðinu og annar hver maður sem deyji sé fæddur í kringum 1920.  „Fólk streymir yfir 100 ára markið næstum daglega“, segir hann og sér fyrir sér að menn verði 100 ára að gefa hænsnunum út í sveit eða í reiðtúrum. „Ég myndi vilja halda fund og sjá hvort það er einhver grundvöllur fyrir þessari hugmynd, eða hvort hún fæðist og deyr í kollinum á mér. Maður hefur nú lent í öðru eins“, segir hann.

Umhugsunarefni fyrir þá kynslóð sem nú er að komast á eftirlaun og dreymdi eitt sinn um að búa

í sveitinni við blóma-og töðuilm; lóusöng og hnegg í graðhesti. Kannski sá draumur eigi loks eftir að rætast á efri árunum.

Árni hefur stofnað Facebook síðu um þessa hugmynd og þar er tilvalið fyrir þá sem hafa áhuga, að hafa samband við hann. Smellið hér.

 

Ritstjórn desember 19, 2017 10:18