„Ertu memm? Er ekki nema sjötíuogfemm“

Gleðigjafinn góðkunni Þórhallur Sigurðsson, betur þekktur sem Laddi, varð 75 ára þann 20. janúar. Í tilefni af afmælinu hefur hann gefið út nýtt lag sem hann semur og syngur sjálfur. Bragi Valdimar Skúlason úr Baggalút samdi textann, en þar segir frá manni sem kaupir sér Hondu-mótorhjól og „æðir út úr bænum“ í leðurdressi sem „passaði sirka“. Í viðlaginu er kyrjað: „Ertu memm? Ég er ekki nema sjötíu-og-femm!“

Lagið má nálgast á Spotify, en í tilefni af afmælinu var Laddi í löngu viðtali við Ólaf Pál Gunnarsson í Rokklandi á Rás 2 á sunnudaginn var.

„Mér líður eins og ég sé þrítugur“

Um aldurinn segir Laddi í viðtalinu: „Mér líður eins og ég sé þrítugur. Ég er mjög hress, er í krossfitt í tvisvar til þrisvar í viku. Ég hef alltaf verið í líkamsrækt, áður en ég fór í ræktina var ég alltaf í sundi og þegar ég var yngri var ég alltaf í íþróttum, í frjálsum

Þórhallur Sigurðsson, Laddi

íþróttum, þrístökki, hástökki og stangarstökki. Ég veit ekki hvað og hvað.“

Hann er sem sagt í fullu fjöri, á þeim aldri þar sem flestir hafa sest í helgan stein aldursins vegna. „Mér finnst það alveg ferlegt. Ég er að sjá að hinir og þessir eru að hætta hérna og er næstum hent út því þeir vilja halda áfram. Mér finnst þetta glatað. Ég þekki fullt af fólki sem ég vann með hér í sjónvarpinu þegar ég var að vinna hérna, eins og Rögnu Fossberg, Egil Eðvarðsson, Bjössa Emils og fleiri. Að láta þetta fólk fara út af því að það er sjötugt, þetta er enginn aldur í dag.“

Afmælissýning vonandi í mars

Laddi er enn að og ætlaði að halda afmælissýningu á deginum sjálfum, 20. janúar, en henni hefur verið frestað vegna sóttvarnareglna. Hann tjáði Óla Palla að vonir stæðu til að af sýningunni geti orðið í mars.

Ritstjórn janúar 26, 2022 07:00