Tónlistin tekur völdin  

Í fyrsta hluta viðtalsins við Reyni, sem birtist á Lifðu núna 27. desember síðastliðinn ræddi hann um uppvöxtinn á Helgastöðum í Reykjadal, tónlistina og menntaskólaárin á Akureyri. Nú eru þau ár að baki og nýr kapítuli hafinn.

Bræðurnir Eydal og Helena

„Eftir stúdentsprófið ákvað ég að láta gamlan draum rætast og fara til Noregs að læra dýralækningar. Ég hafði lengi ætlað mér að verða dýralæknir í Þingeyjarsýslu og byggja hús við Vestmannsvatn. Það dróst í nokkur ár að ég fengi inngöngu. Það var á þeim tíma sem ég kynntist Eydals-bræðrunum á Akureyri, þeim Ingimari og Finni, og það var gaman að spila með þeim; þetta voru yndislegir strákar. Ég var eitt ár á Akureyri á þessu tímabili, spilaði með þeim bræðrum í Alþýðuhúsinu og var reyndar hljómsveitarstjórinn og vann svo hjá KEA á daginn sem bókari og þénaði nokkuð vel. Ég var alltaf að safna fyrir Noregsferðinni. Ég man eftir barnastjörnunni Helenu Eyjólfs sem var stundum þarna í Alþýðuhúsinu; seinna giftist hún Finni Eydal. Þetta var sumarið 1956.“

Frá Noregi til Parísar og til baka

„Ég fór svo til Noregs um haustið og fékk inni á stúdentagarði. En námið varð mjög endasleppt. Það tók sinn tíma að komast inn í norskuna og ég sá fram á að það mundi taka ein sex ár að ljúka þessu námi. Ég fann líka að það mundi ekki eiga við mig að lækna dýr.

Undir jól fékk Jóhann Axelsson, mikill bóhem, mig til að fara með sér til Parísar. Ég hafði kynnst honum á Akureyri. Hann hafði nýlokið prófi í Ósló og fékk himinháan styrk. „Við kaupum bíl í Stokkhólmi og þú verður bílstjóri,“ sagði Jóhann. Þetta var Ford með 8 sýlendra mótor, og við ókum til Kaupmannahafnar og lentum þar á Þorláksmessufundi hjá Íslendingafélaginu. Ég hitti þar Valgerði föðursystur mína sem var bóndakona á Sjálandi, hafði kynnst dönskum fjósamanni sem kom til Íslands og gifst honum og eingast með honum tvö börn, yndisleg kona. Ég var hjá henni á aðfangadagskvöld en ég gisti hjá dr. Guðmundi Eggertssyni og svaf þar undir eldhúsborðinu hjá honum í viku. Sveinn Jónsson bættist í hópinn, Akureyringur og mikill dúx og kallaður Denni; hann var að læra hagfræði og varð seinna aðstoðarseðlabankastjóri. Við Denni vorum fjóra daga í París og gengum um borgina. Við urðum blankir, og ég fór í sendiráðið og þar var mér bjargað um 300 norskar krónur. Svo tókum við lest til baka og sátum í henni í 23 tíma á leiðinni til Kaupmannahafnar því við tímdum ekki að kaupa okkur svefnpláss. Og við átum bara appelsínur og hnetur á leiðinni. Fengum okkur síðan eftirminnilega máltíð í Kaupmannahöfn daginn eftir og brugðum okkur svo á Den Røde Pimpernel um kvöldið.“

Sjónvarpsþátturinn „Það kemur í ljós“. 1989. Árni Elfar teiknaði meðan hann horfði á þáttinn.Efri röð frá vinstri: Reynir Jónasson, Högni Jónsson, Helgi Pétursson.
Neðri röð frá vinstri: Gylfi Ægisson, Gunnar Þórðarson, Ólafur Þórðarson

Tónlistin tekur völdin

„Ég hélt svo til Óslóar, og þar fór ég strax að skoða harmónikur. Í einni versluninni rakst ég á mann sem reyndsit vera einn þekktasti harmónikuleikari Noregs, Henri Hågenrud. Hann leyfði mér að prófa göfugar harmónikur og lét mig hafa herbergi inn af búðinni þar sem ég gæti æft mig. Svo útvegaði hann mér ýmis spilaverkefni. Ég man sérstaklega eftir einni brúðkaupsveislu sem haldin var úti í skógi utan borgarinnar og það var farið þangað á tveimur rútum. Þar lék ég með gömlum gítarista sem var frægur fyrir að hafa fengið að spila með hinum heimsfræga fiðluleikara Svend Asmundsen. Og hann spilaði sem sagt líka með mér!

Í Ósló hefði ég getað lifað ágætu lífi fram á vor því verkefnin voru næg. Ég var t.d. farinn að spila í Holmens Restaurant þrisvar í viku. En ég kunni ekki við að vera með herbergi á stúdentaheimilinu og vera ekki í námi. Svo ég fór bara heim í febrúar þennan vetur.“

„Ég var sem sagt kominn heim eftir rúman hálfan vetur. Ég vissi að ég gæti alltaf fengið eitthvað að gera. Ég fór inn á skrifstofu dagblaðsins Vísis og setti inn auglýsingu um að reglusaman mann vantaði herbergi. Þá hitti ég Svavar Gests í annað sinn; hann var þá auglýsingastjóri á Vísi. Og hann segir við mig: „Heyrðu, þú spilar á saxófón, er það ekki?“ Þá var hann að byrja með hljómsveit í Sjálfstæðishúsinu. Hann réð mig þarna strax í hljómsveitina. Þar voru Kristján Hjálmarsson sem spilaði á saxófón og klarinett, Baldur Kristjánsson á píanó (bróðir Einars söngvara), Jón Páll á gítar og Hrafn Pálsson á bassa. Ég seldi altsaxófóninn og keypti tenórsaxófón í staðinn.

Ég var með Svavari Gests í fjögur ár í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll. Það var mikill völlur á honum á þessum árum, hann var með afar vinsæla útvarpsþætti, Sunnudagskvöld með Svavari Gests; og svo spiluðum við í revíum í Sjálfstæðishúsinu og síðan á böllum á eftir. Mér þótti revíurnar ekkert fyndnar en fólk snobbaði fyrir þessu og allir hlógu. Haraldur Á. Sigurðsson og Hjálmar Gíslason voru áberandi í þessum revíum og léku meðal annars hjálpræðishersfundi við mikinn fögnuð. Við í hljómsveitinni lærðum þessi hjálpræðishers-samtöl þeirra utanað. Seinna kom Gunnar Eyjólfsson og vildi „endurvekja revíuna“ með dagskrá sem hann kallaði „Eitt lauf“. Næst áttu að verða „Tveir tiglar“. En það varð aldrei nema þetta eina lauf.“

Reynir ásamt konu sinni, Agnesi Löve píanóleikara.

Pípuorgelið í Hafnarfirði

„Það var lítið að gera á sumrin. Ég réð mig því sumarið 1959 til að spila á hótel KEA í þrjá mánuði og fór Hrafn Pálsson með mér. En tveimur árum fyrr hafði Hrafn kynnt mig fyrir föður sínum, Páli Kr. Pálssyni, organista í Hafnarfirði. Í kirkjunni þar var ársgamalt pípuorgel, og ég hafði orð á því við Pál organista að ég hefði viljað læra á það því mér fannst þetta ævintýri líkast. „Það er aldrei of seint að byrja,“ sagði Páll. Hann lét mig hafa lykil að kirkjunni og bauðst til að taka mig í tíma. Hann reyndist mér mjög vel. Og þennan fyrsta vetur í Reykjavík tók ég strætisvagn daglega til Hafnarfjarðar og æfði mig á orgelið frá klukkan 9 til 12.

Ég stundaði þetta orgelspil í fjögur ár, en haustið 1961 brá ég mér til Kaupmannahafnar; ætlaði reyndar til Stokkhólms til náms hjá mætum organista. En í Stokkhólmi gat ég ekki fengið herbergi þar sem ég gæti æft mig á píanó og því fór ég aftur til Kaupmannahafnar. Þar var ég svo heppinn að fá herbergi uppi á 6. hæð með aðgangi að eldhúsi. Það bjó þarna ekkja sem var aldrei heima á daginn og því gat ég leigt mér píanó og æft mig allan daginn; en á 5. hæð var einhver fataverksmiðja. Mér er minnisstætt þegar þrír þaulvanir menn höfðu borið stórt píanóið upp 96 tröppur í snarbröttum og þröngum stigagangi í eldgömlu húsi. Þeir birtust bara á stigapallinum og höfðu ekki einu sinni haft fyrir því að athuga fyrst hvort ég væri heima. – Þetta var Hindsberg píanó, en það voru nú milli 20 og 30 píanóverksmiðjur í Kaupmannahöfn á þessum tíma.“

Reynir og Agnes hafa bæði ástríðu fyrir tónlist.

Hjá Axeli  Arnfjörð 

„Þetta var ágætur vetur. Ég sótti tíma hjá Axeli Arnfjörð, hámenntuðum tónlistarmanni vestan úr Arnarfirði sem leigði hjá Steinunni Jónsson. Hann hafði lokið prófi bæði í orgel- og píanóleik við Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn. Hann hafði sótt um organistastöðu við Fríkirkjuna í Reykjavík. En Sigurður Ísólfsson, bróðir Páls, fékk auðvitað stöðuna þótt hann hefði ekkert lært nema af sjálfum sér. Arnfjörð kom aldrei til Íslands eftir það. Hann var einhleypur og sjálfsagt hommi; hann ferðaðist víða og tók ljósmyndir, m.a. í Færeyjum, og litaði þær. Það var gott að vera hjá honum í tímum. Ég sótti einnig tíma þennan vetur í Holmens kirke, beint á móti konungshöllinni, hjá frægum organista, einum þeim besta í Danmörku.

Svo er það í maíbyrjun 1962 að síminn hringir. Það er Eyþór Þorláksson sem hafði spilað með Svavari Gests en var nú með tríói í Þjóðleikhúskjallaranum; hann hafði ákveðið að fara til Spánar og vildi fá mig til að koma í sinn stað. Ég kvaddi vini mína og dreif mig heim og spilaði þarna um sumarið með Sigurði Guðmundssyni (Sigga kanslara) og Trausta Thorberg, sem var mjög fínn gítaristi og spilaði líka á rafmagnsbassa.

En um haustið kom Svavar Gests til mín og vildi fá mig aftur í hljómsveitina sína. Ég spilaði með honum, fyrst í Lídó og svo eftir áramót á Hótel Sögu sem þá var verið að opna. Þar var ég þangað til ég fluttist til Húsavíkur um haustið og var þá nýkvæntur fyrri konunni minni.“

Tónlist á Húsavík

„Á Húsavík bjuggum við í átta ár. Ég var skólastjóri tónlistarskólans og organisti í Húsavíkurkirkju. Svo urðu þetta víst ein sex jobb því ég stjórnaði líka kirkjukórnum og lúðrasveitinni; spilaði með karlakórnum og líka með leikfélaginu og svo fyrir dansi með góðum músíköntum, m.a. Sigurði Hallmarssyni sem lék á harmóniku og var leikari af guðs náð; og Ingimundi Jónssyni sem var eldklár líka. Við spiluðum víða á böllum og þorrablótum. Ég spilaði líka eitt ár með hljómsveit sem hét Víbrar og þá mest á rafmagnsbassa. Á þessum tíma var séra Friðrik A. Friðriksson að hætta sem sóknarprestur og séra Björn Helgi Jónsson, ættaður úr Skagafirði, tók við, indælismaður. Sr. Björn tengdist fjölskyldu minni við erfiðar aðstæður því að um þetta leyti dó systir mín á Helgastöðum, 34 ára gömul, frá sjö börnum.

Í kirkjukórnum sungu m.a. fjórir menn sem urðu þekktir sem meðlimir Tónakvartettsins, bræðurnir Ingvar og Stefán Þórarinssynir, Eysteinn frændi minn Sigurjónsson af Hraunkotsætt og Stefán Sörensen, feiknagóður bassi.

Á Húsavík fæddust tvær dætur mínar, en eina dóttur átti ég fyrir á Akureyri; móðir hennar var úr Mývatnssveit.“

Lokakafli viðtalsins við Reyni verður birtur á Lifðu núna á morgun.

Baldur Hafstað skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn desember 28, 2023 07:00