Upphafning illskunnar

Um þessar mundir njóta raunveruleikaþættir sem fyrst og fremst ganga út á að fólk blekki og svíki hvert annað mikilla vinsælda. Nefna má Survivor, Traitor, Mole, Cheat og House of Villains. Þessir þættir eiga að sameiginlegt að til þess að vinna háar peningaupphæðir þurfa menn að ráðskast með og villa um fyrir hinum keppendunum. Því betur sem þeim tekst að beita brögðum og notfæra sér hina því líklegri eru þeir til að vinna.

Allir þessir þættir njóta gríðarlegra vinsælda og eiga það sameiginlegt að vera teknir upp í mörgum löndum. Traitor byrjaði í Bretlandi en eru núna framleiddir í Kanada, Bandaríkjunum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Í stuttu máli snúast þeir um að hópi venjulegs fólks er safnað saman á einhverjum stað. Þrír fá það hlutverk að vera svikarar og þeir myrða síðan einn af öðrum af hinum. Á hverju kvöldi hittist fólkið við hringborð og greiðir atkvæði um hvern úr hópnum eigi að gera brottrækan.

Allir vona að sjálfsögðu að þeir nái að útskúfa svikara því ef þeim tekst að fletta ofan af þeim skipist verðlaunaféð milli allra leikenda sem eftir standa þegar síðasti svikarinn er farinn en ef ekki hirðir sá svikari eða þeir svikarar sem eftir standa pottinn. Eitt það óréttlátasta er svo að keppendur verða allir að safna fénu í pottinn með því að keppa í alls konar þrautum Fólkið hefur því lagt á sig alls konar píslir til þess eins að fóðra vasa þess sem lýgur að því vikum saman.

Tryggðarbönd bundin og svikin

Survivor á hinn bóginn er upprunnið í Svíþjóð árið 1997 þar hétu þeir Expedition Robinson. Bandaríkjamenn stukku á vagninn og fyrstu þættirnir þar í landi voru sendir út árið 2000. Þar er hópi fólks komið fyrir að afskekktum stað og það á finna leiðir til að bjarga sér, afla matar, búa til skjól og skapa sér lífvænlegar aðstæður. Hópnum er skipt í tvo eða fleiri ættbálka og saman þurfa þeir sem tilheyra tilteknum ættbálki að leysa þrautir og sá hópur sem nær því fyrst sigrar, sá næsti er öruggur og svo koll af kolli þar til eitt lið situr eftir sem taplið. Einn úr hópi ættbálksins sem tapar er svo sendur heim á hverju kvöldi. Allt veltur því á að fólk nái að bindast tryggðarböndum og haldast þannig inni sem lengst. En engu er að treysta enginn er í raun vinur neins.

Cheat er spurningaleikur en í stað þess að reyni á þekkingu fólks eru þátttakendur hvattir til að svindla. Sá sem sigrar nýtur því verðlaunanna mjög óverðskuldað. House of Villains og Mole snúast um svipaða hluti eða blekkja og svíkja þar til einn stendur eftir og hirðir nokkuð stóra summu af peningum.

Eiginlega er óskiljanlegt hvers vegna þessir þættir njóta svo mikilla vinsælda. Almennt stríðir það gegn siðferði flestra að svikahrappar og loddarar njóti ávaxta þess að koma illa fram við aðra. Við viljum að þeir sem vinna, hvaða keppni sem er, hafi verðskuldað sigurinn. Auðvitað er þetta sjónvarpsefni og allt gert til að gera keppnina sem mest spennandi en verðlaunaféð er raunverulegt og viljum við virkilega verðlauna fólk fyrir að vera undirförult og andstyggilegt? Það er engu líkara en svo sé því ekkert lát er á vinsældum þessara þátta og bresku svikararnir, The Traitors, eru mættir á Sýn og Survivor hafa verið sýndir í Sjónvarpi Símans. En er kannski ástæða til að spyrja sig hvers konar siðferðisboðskap þetta sjónvarpsefni sendir? Og þá í framhaldinu hvenær koma sjónvarpsþættir þar sem fólk er verðlaunað fyrir heiðarleika, hlýju og samlíðan?

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna.