Úr hitanum í Peking í rigninguna á Íslandi

„Ég er að stíga á land eftir að hafa verið 8 daga í Kína“, sagði Vilhjálmur Bjarnason viðskiptafræðingur og fyrrverandi alþingismaður þegar Lifðu núna náði tali af honum í gær, til að forvitnast um hvað hann gerir um helgar.  Hann sagðist vera búinn að vera á ferðalagi í 16 tíma og bjóst ekki við að hann myndi standa í miklum stórræðum um helgina. Vilhjámur sem fór sem gestur með Rotaryklúbbi Reykjavíkur til Kína, sagði það ferskt og fínt að vera kominn heim í rigninguna. „Það var orðið ansi heitt í Pekíng þegar við fórum þaðan í morgun“. Hann átti afmæli fyrir skömmu er orðinn 67 ára, sem er löglegur eftirlaunaaldur á Íslandi, en hann ætlar ekki að setjast í helgan stein. „Ég hef aldrei samþykkt þessi aldursmörk. Það var maður með mér í ferðinni sem er 78 ára og hann er enn að vinna á fullu. Ég ætla að hafa þetta svona“ sagði Vilhjálmur, sem er einn umsækjenda um starf Seðlabankastjóra. Fái hann það verður hann að hætta að vinna sjötugur. „Þá fer ég að gera eitthvað annað, ég ætla ekki að hætta neitt í bráð“, sagði hann.

„Ég fer oft á íþróttaleiki um helgar, er stundum tímavörður í handbolta fyrir Stjörnuna í Garðabæ, þetta tekur svona tvo til þrjá tíma í hvert skipti“ segir Vilhjálmur um það sem hann geri um helgar. En hann fer líka mikið á málverkasýningar „Við köllum það að fara í leiðangur og þá tökum við 2-3 sýningar í einu. Það er öðruvísi ef það eru opnanir, þær taka lengri tíma. Það eru margir sem vilja tala við mig þegar ég kem innanum fólk. Menn halda að ég hafi eitthvað að segja“, segir Vilhjálmur sem gerði garðinn frægan hér um árið í Útsvari í Sjónvarpinu.  Hann segist svo fara og hlusta á Kammermúsíkklúbbinn í Norðurljósasalnum fimm sunnudaga á vetri. Það hefur hann gert í 20 ár.

„Stundum þarf ég að horfa á íþróttaleiki heima um helgar, ef ég er þá ekki að þvo bílinn og sjá um aðrar snyrtingar“, segir hann, en hann er sannarlega enginn sófaíþróttamaður. Hann hleypur helst á hverjum degi á sumrin, en minna á veturna. „Ég nenni ekki út í slabb og skít“ segir hann og  fer þá frekar um helgar í tækjasal Stjörnunnar í Ásgarði. „Ég tek á þar hjóla og geng 7,5 kílómetra á bretti og svo lyfti ég líka“ segir hann, en þegar komið er sumar er það golfið. „Ég fer oft í golf klukkan 6 á morgnana og er búinn klukkan 10“.  Vilhjálmur og eiginkona hans Auður María Aðalsteinsdóttir eiga tvíburadætur og hann segir að þær hafi ofbosðlegan áhuga á íþróttum, þær hofri á alla kvennaleiki og sjái allar beinar útsendingar frá leikjum í Sjónvarpinu.

„Svo fer tími í það að lesa sér til, við undirbúning greina sem ég skrifa í Morgunblaðið og birtast annan hvern föstudag. Helgarnar fara í það. Það er agi að skrifa læsilegan og birtingarhæfan texta“, segir hann.

Þegar kemur að myndlistinni segist Vilhjálmur hafa mestan áhuga á íslenskum frumherjum og svo formbyltingunni í kringum 1950. Hann hefur áhuga á listamönnum eins og Karli Kvaran og Guðmundu Andrésdóttur. Hann segist ekki vera listaverkasafnari „En ég kaupi eina og eina mynd“, segir hann.

Hann segist ekki elda mikið á veturna, þegar hann er spurður hvort hann eigi einhvern uppáhalds helgarmat. Hann eldi meira á sumrin. En hann nefnir þó einn rétt sem hann hefur dálæti á. Það er 400 gramma nautasteik, sem hann fær sér eftir Reykjavíkurmaraþonið. „Þá rek ég alla út og sit einn og borða nautasteikina eftir að hafa hlaupið 21 kílómetra“.

Ritstjórn maí 3, 2019 11:27