Vil sjá fleiri konur keppa á mótum

Kolbrún

Kolbrún Stefánsdóttir

„Það er tilhlökkun í loftinu enda sumarið framundan. Golf er eitt það besta sem ég get hugsað mér enda er allt skemmtilegasta fólkið þar,“ segir Kolbrún Stefánsdóttir, formaður Landssambands eldri kylfinga, LEK. Eftir óvenju langan, vindasaman og úrkomumikinn vetur er loks vor í lofti.„Það er allt að fara í gang. Við höldum níu mót í sumar og það er að skýrast hvar þau verða haldin. Við stefnum að því að halda veglegt afmælismót síðsumars,“ segir Kolbrún og brýnir konur til þátttöku. „Ég vil gjarnan sjá fleiri konur í mótum hjá okkur.“ Hægt er að fara inn á heimasíðu LEK, LEK.is en þar verður innan skamms birtur listi yfir mótin og allar tímasetningar. Á hverju móti eru vegleg verðlaun boði fyrir átta bestu skor með punktum.

Landssamband eldri kylfinga

Landssamband eldri kylfinga var stofnað fyrir þrjátíu árum,  starfsemin hefur vaxið og dafnað á tímabilinu. Stofnárið 1985 voru um 200 eldri kylfingar í öllum golfklúbbum landsins og er þá átt við karla 55 ára og eldri og konur 50 ára og eldri, en í dag eru eldri kylfingar í klúbbum landsins á sjöunda þúsund .Það þarf enginn að ganga sérstaklega í LEK, heldur er það þannig að þeir kylfingar, sem eru í einhverjum golfklúbbi og eru orðnir 55 ára teljast sjálfkrafa til hóps eldri kylfinga. Það greiðir enginn sérstakt gjald til LEK. Hinsvegar hefur LEK sent eldri kylfingum árlega Fréttabréf ásamt gíróseðli og stofnað valkvæða kröfu í heimabanka viðkomandi. Hér er um að ræða frjáls framlög til LEK og enginn er skyldugur að greiða gíróseðilinn eða valkröfuna. Það er rétt að leggja áherslu á að hér er um styrk að ræða til starfsemi LEK og hverjum er í sjálfsvald sett hvort hann greiðir hann eða ekki.

Fulltrúi miðlungskylfinga

Kolbrún var kjörin formaður LEK á síðasta aðalfundi og er hún fyrsta konan frá upphafi sem kosin er formaður samtakanna. „Ég gat ekki sagt nei þegar ég var beðin um gefa kost á mér sem formaður samtakanna. Maður er búinn að eiga svo magar ómetanlegar ánægjustundir á golfellinum.Mér fannst komin tími til að gefa eitthvað til baka,“ segir Kolbrún. Þegar Kolbrún er spurð hvort hún sé góður kylfingur fer hún að hlæja og segir: „Ég er fulltrúi miðlungskylfingsins. Það eru hins vegar margir góðir kylfingar innan okkar vébanda. Við erum með fjögur landslið, skipuð sex kylfingum hvert. Tvö liðanna eru skipuð 55 ára kylfingum með og án forgjafar. Þriðja liðið skipa þeir sem orðnir eru 70 ára og  fjórða liðið er skipað konum.„Keppendum frá okkur hefur gengið vel á mótum erlendis og hafa staðið sig með sóma,“ segir Kolbrún.

 

 

Ritstjórn apríl 16, 2015 12:53