Vel samin og spennandi frá upphafi til enda

Eitur eftir Jón Atla Jónasson er fantafín glæpasaga. Hún er þétt og vel skrifuð og fléttan frábærlega vel unnin. Helsti styrkur Jóns Atla er hins vegar þær persónur sem hann hefur skapað. Dóra og Rado eru bæði áhugaverð og einstaklega viðfelldin. Þau eru ekki fullkomin, gera sín mistök en hafa réttlætiskennd og vilja gera vel. Dóra glímir við erfiðar afleiðingar voðskots og áverka sem hún hefur orðið fyrir en lætur það ekki buga sig og Rado á að baki erfið áföll. Hann er hins vegar einstaklega góður pabbi og réttsýnn maður.

Að þessu sinni hefst sagan á umferðarslysi. Flutningabíll hefur farið á hliðina og bílstjórinn er látinn. Dóra kemur á staðinn, hittir þar fyrir umferðalöggur, tvíbura og finnur pillur í hanskahólfinu. Þegar sambýlismaður Elliða, yfirmanns þeirra, finnst látinn í leikmynd sjónvarpsþátta sem verið er að taka upp í Gufunesi og hann reynist hafa sama efni og er í pillunum sem hún fann í blóðinu hefst leit að samviskulausum óþokkum sem hika ekki við að setja stórhættulegt efni á markaðinn.

Þessi hörkuflotta saga er spennandi frá upphafi til enda og af ýmsum ástæðum sem ekki má upplýsa getur maður varla beðið eftir næstu bók.

Ritstjórn desember 4, 2023 17:43