Aldraðir spennufíklar

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar.

Spenna er eitt af því sem gefur lífi fólks gildi – sama á hvaða aldri það er. Eftir því sem fólk eldist verður að vissu leyti minna framboð á því sem vekur spennu. Ástalífið er ekki eins álitlegt í þessum efnum og þegar fólk er yngra og tækifærin til þess að taka þátt í áhættuhegðun er líka minni að öllu jöfnu. Lestur spennandi bóka og áhorf á spennumyndir er þó möguleiki sem margir aldraðir nýta sér.

Vilji aldraður einstaklingur taka áhættu sem fær hjartað til að slá hraðar og blóðið til að þjóta um æðarnar þá er til kostur sem er þó fjarri því gallalaus. Þarna er verið að vísa til fjárhættuspila af ýmsu tagi.

Vitað er að aldrað fólk, ekki síður en hinir yngri, er á stundum veikt fyrir spilakössum. Sé komið inn í sjoppur og aðra staði þar sem spilakassar eru má sjá í hópnum aldrað fólk sem spilar upp á peninga sér til skemmtunar og í von um ágóða. Í ýmsum sakamála- og spennumyndum má gjarnan sjá atriði þar sem aðalsöguhetjan kemur inn í spilasal þar sem rúllettan fer hring eftir hring. Í kringum hana stendur svo hópur fólks. Margt af því er aldrað og virðist forríkt. En sjaldnast hefur aðalhetjan mikinn áhuga á því, varla bregst að meðal spilafólksins er ein manneskja sem vekur sérstaka athygli – ung kona í glæsilegum og flegnum kjól með ögrandi augnaráð og sem tekur „kúlið“ á aðstæðurnar.

Samkvæmt rannsóknum þá hefur fjárhættuspil þann eiginleika að taka yfir hugsanir fólks meðan það spilar. Þarna er því komin augljós leið til þess að gleyma andstreymi á borð við lök kjör og missi af ýmsu tagi.

En sú stundarfró varir ekki lengi. Fólk hefur tilhneigingu til að taka áhættu með fjármuni sína og fyrr en varir hefur það tapað peningum sem það má illa vera án. Þetta er því dýrkeypt áhættuhegðun.

Miklu fleiri aldraðir setja þó spennufíkn sinni þau mörk að kaupa bara miða í happdrætti eða í lottó. En slíkt gefur, samkvæmt rannsóknum, ekki sömu spennu og spilakassarnir og rúllettan gefa, það er vinning eða tap á skammri stundu. Jafnvel skafmiðarnir gefa meiri spennu en happdrætti eða lottó þótt sjaldnast sé þar „feitan gölt að flá“ eins og þar segir.

Ótalið er þá bingó sem er vinsæl afþreying eldra fólk og á sér sömu uppsprettu og það sem fyrr er talið. Líklega er það þó nær spilakössunum en happdrætti, vinningur kemur það fljótt að blóðið tekur að ólga skamma stund.

Er þetta þá allt saman af hinu illa? Varla fyrir þá sem ráða við sig. En fyrir lítinn hóp eru spilakassar þó stórhættulegir.

Stundum er fólki sama. Eitt sinn hitti ég mann í sjoppu sem var fíkinn í spila í spilakössum. Ég spurði hann hvort þetta borgaði sig. Hann yppti öxlum.

„Ég spilaði ekki meðan konan mín lifði, henni var illa við það. Nú er hún dáin og þá er mér sama. Ég hef misst það sem var mér dýrmætast í lífinu og kassarnir veita mér stundargleymsku,“ svaraði maðurinn og brosti nokkuð beisklega.

Fremur sjaldan spilar eldra fólk á netinu að því er kannanir segja. Hér á landi er heldur ekki veðmálahefð svo neinu nemi. Miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja um spilahegðun fólks á Íslandi væri sennilega fengur að því, bæði fyrir þá eldri sem yngri, að koma á svipuðu kerfi og nágrannar okkar á Norðurlöndum hafa tekið upp. Það er að nota svokölluð spilakort. Þá verður fólk að skrá sig og leggja inn peninga og getur jafnvel ekki spilað nema fyrir ákveðna upphæð í hverjum mánuði. Einnig getur fólk þá séð hverju það hefur eytt í spilamennskuna og haft þannig meiri yfirsýn yfir spilahegðun sína.

Í landi þar sem eftirlaun eru lág og harðlega gengið eftir að skerða þær tekjur sem aldrað fólk getur komið höndum yfir er auðvitað freistandi von að geta unnið í happdrætti, spilakössum eða eftir öðrum fjárhættuspilaleiðum. Spennan við þessa viðleitni er svo toppurinn á öllu saman. Því miður heppnast þetta sjaldan og því hætta vafalaust flestir fljótlega að reyna. Fáir ræða mikið um þetta málefni en þetta er samt ein hlið á veruleika eldra fólks sem sækist eftir spennu í líf sitt.

 

Guðrún Guðlaugsdóttir febrúar 19, 2020 09:14