Í Coronafaraldri með tilheyrandi takmörkunum á allri samveru, ætla Öldrunaráð Íslands og Landssamband eldri borgara að efna til fræðslufundar í samvinnu við Sjónvarpið í beinni útsendingu í dag 9.febrúar kl. 13:00 til 15:00. Fundurinn ber yfirskriftina Velferð eldri borgara en þar munu nokkrir aðilar sem sinnt hafa málefnum eldra fólks með ýmsum hætti, flytja erindi. Fundinum lýkur svo með pallborðsumræðu, þar sem farið verður yfir helstu málefni sem brenna á eldra fólki.
Þessi sjónvarpsútsending nær auðvitað til landsins alls og kemur í stað árlegrar ráðstefnu sem Öldrunarráð Íslands hefur gengist fyrir. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, mun flytja opnunarávarp og fundarstjóri verður Jórunn Frímannsdóttir, formaður Öldrunarráðs.
Á fundinum verður m.a. fjallað um þjónstu við eldra fólk, – þjónustukeðjuna, um velferðartækni og möguleika hennar, atvinnuþátttöku eldra fólks og aldursfordóma, spurt hvort elli sé innri maður, um heilsufar á efri árum, mat og hreyfingu og loks nauðsyn þess að lifa lífinu lifandi.