Leikstjóri í eigin lífi

Örn í mótorhjólaferð með félögum sínum um Blue Ridge Mountains fjallgarðinn í Bandaríkjunum nýlega.

Örn Svavarsson í Heilsuhúsinu hefur ekki alltaf verið leikstjóri í eigin lífi. Þegar saga hans er skoðuð má finna augljósar ástæður fyrir því. Hann ólst upp hjá móður sem hluta lífsins hafði átt óblíða ævi og féll síðan fyrir boðskap Votta Jehóva. Hún fann sitt haldreipi í trú Vottanna sem Örn aftur á móti hafnaði. Hann var í því trúfélagi þangað til hann yfirgaf það hálfþrítugur með tilheyrandi vandlætingu meðlimanna og útskúfun. Örn hefur verið farsæll í viðskiptum í gegnum tíðina og hefur á einhvern hátt alltaf verið til í íslensku samfélagi. Hann er alinn upp með þá vissu að leiðarljósi að trú Vottanna væri hin eina og sanna, Sannleikurinn með stóru essi. Það var ekki fyrr en hann var kominn nokkuð á þrítugsaldurinn að hann áttaði sig á að SANNLEIKUR þessara harðlínu trúarbragða var nokkuð götóttur. Hann sleit sig þá frá Vottunum og var útskúfaður þar með. Og þá hófst nýtt líf hjá Erni þar sem hann var sjálfur við stjórnvölinn og nú þegar þriðja aldursskeiðið er hafið hefur hann í hyggju að halda áfram að leikstýra sjálfur sinni tilveru.

Elfriede með Snorra, Ósk, Teiti, Hjördísi, Bjarka. og Erni.

Móðir Arnar upplifði hörmungar stríðsins

Örn er fæddur í Reykjavík 1952. Móðir hans, Elfriede, var þýsk og faðir hans íslenskur, Svavar Jóhannsson. Móðir Arnar var alin upp í Prússahéruðum  Þýskalands og að sögn Arnar var hún nokkuð dæmigerður strangur Prússi í sér. Það var hún sem upphaflega vakti áhuga Arnar á heilsuvörum en Elfriede hafði lesið sér mikið til um jurtir og lækningamátt þeirra og pantaði þessar vörur frá útlöndum í gegnum tíðina. Örn man glöggt að þegar eitthvað amaði að þeim systkinunum hafi móðir þeirra gefið þeim beiska jurtadropa sem gagnast höfðu fólki kynslóð fram af kynslóð. Elfriede átti ekki auðvelda ævi og má skýra hvernig líf hennar æxlaðist með því að skoða sögu hennar. Sú saga býr síðan áfram í börnum hennar og líf þeirra markaðist af því eins og oft verður.

Tilviljanir réðu

Elfriede var ung kona þegar stríðið skall á með öllum þeim hörmungum sem því fylgdu. Faðir hennar og bróðir hurfu á austurvígstöðvunum og í stríðslok stóð hún ein uppi með fársjúka fullorðna móður auk þess sem hún hafði tvisvar misst allar sínar eigur í loftárásum. Hún leitaði ásjár hjá fólki sem hún hélt að hún gæti treyst en allir voru svo brenndir af stríðinu að þar var enga hjálp að fá. Elfriede sagði Erni frá því þegar hún sat á tröppum brautarstöðvarinnar í Halle með móður sína fársjúka og grét þar sem henni voru allar bjargir bannaðar. Þar hafi þá komið aðvífandi kona sem spurði hvað amaði að og þegar Elfriede sagði henni raunir þeirra mæðgna sagði konan að hún hefði yfir að ráða lítilli íbúð í grenndinni þar sem væru tvær fjölskyldur fyrir en það munaði ekkert um tvær manneskjur í viðbót. Þarna fékk Elfriede að vera í nokkrar vikur eða þar til móðir hennar lést. Þá voru Rússarnir búnir að hertaka svæðið og Elfriede ákvað að þarna vildi hún ekki vera lengur. Henni tókst samt að halda sambandi við þessa hjartahlýju konu og fjölskyldu hennar eftir að hún flúði vestur fyrir hernámssvæði Sovétmanna. Vinátta hennar við þetta fólk hélst alla tíð og hún kom því þannig fyrir að þegar hún var sjálf búin að eignast börn lét hún Örn og systur hans skrifast á við þau til að efla börnin í að skrifa tungumál sitt sem hún kenndi þeim sjálf að tala. Þannig náði Elfriede að mennta börnin sín svolítið þótt trúin hafi komið í veg fyrir að þau gætu haldið áfram skólagöngu eftir barnaskólann.

Flug villigæsanna

Elfriede fékk vinnu á vinnumiðlunarskrifstofu í Kiel eftir að hún hafði komið sér fyrir í vesturhluta Þýskalands. Þar bauðst henni að fara til starfa á Íslandi í eitt ár. Barn að aldri hafði hún lesið bók sem hét Flug villigæsanna og gæsirnar flugu til Íslands á sumrin. Eftir lestur þessarar bókar átti hún þann draum að komast til þessa framandi ævintýralands og nú gafst tækifærið. Hún var ráðin sem húshjálp á heimili í Reykjavík og hafði unnið hjá tveimur eða þremur fjölskyldum þegar hún kynntist Svavari Jóhannssyni, föður Arnar. Hann var heilmikill “sjarmör” að sögn Arnar og með honum eignaðist Elfriede  tvö börn. Örn segir að Svavar hafi bæði verið spilafíkill og drykkjumaður og hefur slík blanda ekki góð áhrif á hjónaband. Örn man fyrst eftir sér um 5 ára gömlum þegar fjölskyldan bjó í Kamp Knox G5, þar sem foreldrar hans skildu. Sumarið 1959 flutti móðir hans síðan með börn sín austur í Landsveit þar sem henni bauðst ráðskonustarf. Fór svo að hún giftist Stefáni bónda og bjó þar alla tíð síðan.  Þessari tveggja barna einstæðu móður var mjög umhugað að komast úr Kamp knox bragganum og tók nýju lífi í sveitinni fegins hendi. Örn bjó þar með móður sinni, systur og stjúpföður til 17 ára aldurs þegar hann flutti til Reykjavíkur og gerðist gluggahreinsari. Hann segist hafa haft ágætar tekjur af þeirri vinnu, næg verkefni og 10 tíma vinnudagar skiluðu bara vel í budduna. Samkeppni var lítil, ekki búið að finna upp virðisaukaskattinn og þrif hvers konar undanþegin söluskatti.

Með Dennis þjóðgarðsverði í Murchison Falls þjóðgarði í Uganda.

Vottar Jehova koma til sögunnar

Þegar Elfriede bjó með börnum sínum í Kamp knox fékk hún heimsókn frá trúboðum Votta Jehóva og segir Örn móður sína hafa verið afar móttækilega fyrir boðskapþeirra um betra líf, já jafnvel eilífa paradís á jörð. Segja má að fólk með hennar lífsreynslu sé nokkuð auðvelda bráð fyrir svona hugmyndafræði. Eftir ótrúlega erfitt líf fór Elfriede af miklum þunga inn í söfnuð Vottanna. Boðskapurinn er fyrirheit um eilífa paradís á jörð í kjölfar Harmageddons, orrustunnar miklu þar sem guð biblíunnar, faðir frelsarans, hinn sanni guð Jehóva mun tortíma illsku og öllu óguðlegu fólki og góða fólkið – Vottarnir – munu lifa til eilífðar í friði og hamingju. Örn er því alinn upp frá blautu barnsbeini með þá vissu að Harmageddon myndi koma fljótlega. “Ég áttaði mig ekki á því fyrr en eftir svona 20 ár að allt það sem Vottarnir boðuðu var eintóm steypa,” segir Örn. Í dag getur hann hlegið að því sem fyrstu tvo áratugi af ævi hans var “stóri sannleikur”.  Heilaþvottur segir hann að þetta hafi verið en hann skilur samt hvers vegna móðir hans greip þetta haldreipi, vildi trúa þessari óstjórnlegu rökleysu og áfellist hana ekki. Þessi trú hafi bara ekki verið fyrir hann.

Fór aldrei í neitt nám

Úsýnið úr bústaðnum yfir Steingrímsfjörðinn er engu líkt.

Örn segir að eitt af því sem trú vottanna boði sé að það taki því ekki að mennta sig því það verði nægur tími til þess eftir Harmageddon. Þessi trú var svo sterk að Örn fékk ekki að fara í  nám nema barnaskólann, lauk skyldunni en fékk ekki að klára gagnfræðaprófið. Fyrir tilviljun þróuðust mál þannig að fólk úr samfélagi Vottanna átti þátt í því að Örn stofnaði Heilsuhúsið sem síðan varð leiðandi á sínu sviði.

Heilsuhúsið verður til

Elfriede hafði fengið í arf úr æsku að hugsa vel um heilsuna. Hún kunni vel að yrkja jörðina og var alltaf með stóran matjurtagarð heima fyrir eftir að þau fluttu í sveitina. Svo datt hún um svissneskt fyrirtæki, Bioforce, sem seldi sólhattinn, Herbamare og fleiri heilsuvörur. Stofnandi þess fyrirtækis, Dr. Vogel, var Vottur og hafði skrifað nokkrar bækur sem Elfriede drakk í sig. Einn af vinum þeirra í Vottunum var danskur maður sem hafði verið sendur hingað í trúboðastörf. “Þetta var merkilegur maður, eldklár, talaði lýtalausa íslensku og stýrði starfsemi Vottanna hérlendis um árabil. Seinna yfirgaf hann reyndar söfnuðinn og var útskúfaður. Hann menntaði sig og varð að lokum mikilsmetinn íslensku/norrænufræðingur við háskóla í Danmörku.” Þessi maður, sem hét Lauritz Rendboe, segir Örn að hafi fengið þá hugmynd að flytja inn heilsuvörur til Íslands frá Bioforce fyrirtækinu. Þótt menn séu greindir og klárir sé ekki þar með sagt að þeir hafi viðskiptavit og það segir Örn að þennan ágæta mann hafi skort tilfinnanlega. Lauritz pantaði samt vörusendingu sem hann lenti svo í vandræðum með að leysa úr tolli.

Fékk lán hjá móður Arnar og stjúpföður

Einhverra hluta vegna datt Lauritz í hug að leita til Elfriede og Stefáns og falast eftir láni til að leysa út vörurnar. Þetta var eftir að sláturhússpeningarnir voru komnir í

Með Stínu í Biarritz við Biskajaflóa í Frakklandi

hús þetta haust svo Stefán sagði honum að ef hann greiddi skuldina fyrir næsta vor væri þetta í lagi en þá þyrfti hann peninginn til áburðarkaupa. „Nú var það þannig að fóstri minn hafði frekar ýmigust á þessari trú mömmu, en lynti svo sem vel við fólkið sem heimsótti okkur. Alla vega fullvissaði Lauritz fóstra minn um að greiðslan kæmi fyrir vorið því þá yrði kominn góður gangur í reksturinn.

En hann var enginn sölumaður og greind hans og geta var á öðrum sviðum en viðskipta. Áður en til þess kom að Lauritz átti að endurgreiða lánið varð fóstri minn bráðkvaddur og mamma ein eftir með búskapinn.” Örn  hafði stundaði gluggaþvottinn í Reykjavík í nokkur ár og var þarna orðinn tvítugur. Hann flutti á þessum tímapunkti aftur í sveitina til að hjálpa móður sinni eftir dauða Stefáns. Hann vissi  ekki um þetta lán sem Stefán hafði veitt Lauritz en sá skuldaviðurkenninguna þegar hann var að fara í gegnum pappíra varðandi búreksturinn. Þá var sumarið liðið og Örn segir að þetta hafi verið mjög leiðinlegt mál því það hafi eðlilega verið mjög erfitt fyrir Lauritz að skulda þessa peninga sem hann gat augljóslega ekki greitt. Hann hafi setið uppi með stóran lager sem hann kunni ekki að selja.

Vildu fara ólíkar leiðir

Örn og móðir hans ráku búið saman til að byrja með en höfðu mjög ólíkar hugmyndir um framhaldið. “Mamma vildi fækka  skepnum og vera svo bara í trúboðastarfi. Ég vildi aftur á móti losa okkur við sauðféð og setja upp 100 kúa fjós sem var nánast óþekkt þá.” Um þessar mundir voru komin rörmjaltakerfi sem einfölduðu mjaltir og Örn vildi byggja og nútímavæða búið. Hann segist hafa verið undir áhrifum frá Karli Kortssyni dýralækni á Hellu sem ræddi stundum við hann um kosti þess að vera með stórt bú og halda sig við eina framleiðslu.

Langaði að verða bóndi en endaði í viðskiptum og bjó til Heilsuhúsið

Örn er alinn upp í sveit og nýtur útreiða í fallegri íslenskri náttúru.

“Ég hefði alveg verið til í að snúa mér alfarið að bústörfunum og veit núna að það hefði verið tiltölulega auðvelt því landbúnaðurinn naut svo mikilla styrkja í þá daga. Menn gátu jafnvel komið út í gróða við að grafa skurði,” segir Örn brosandi og bætir við að það séu sömu skurðirnir og eigi nú að fara að moka ofan í. Örn flutti í bæinn aftur, þar sem þau mæðginin náðu ekki saman um búreksturinn, en hann hélt áfram að aðstoða hana við að reyna að ná inn skuldinni hjá trúbróðurnum.  “Það mál endaði með því að Lauritz sagði: “Heyrðu, vilt þú ekki bara taka við lagernum” og það varð úr,” segir Örn og það varð upphafið að Heilsuhúsinu. Svona segir Örn að tilviljanir hafi stundum ráðið því hvernig líf hans hafi þróast.

Kunni ekki að fylla út víxil

Þetta var 10. maí 1973, þá var Örn tvítugur og nú kominn með fyrirtæki í fangið. Til að byrja með rak hann það sem heildverslun og þá voru reikningar greiddir með víxlum. “Ég kunni ekki einu sinni að fylla út víxil,” segir Örn hlæjandi. Hann var á þessum tíma í ágætis sambandi við föður sinn, sem var endurskoðandi að mennt, og Örn drakk í sig það sem hann þurfti nauðsynlega að kunna til að geta rekið fyrirtækið.

Jói í Bónus var strax mjög framsýnn

Stærstu fyrirtækin sem voru í viðskiptum við Heilsuhúsið til að byrja með voru Náttúrulækningabúðin og Sláturfélagið en þá var þar verslunarstjóri í Austurveri Jóhannes Jónsson sem seinna stofnaði Bónus. “Jói var strax þá geysilega framsýnn maður og ákvað að veðja á heilsuvörurnar sem gengu fljótlega mjög vel. Náttúrulækningabúðin var góður viðskiptavinur þar til þangað kom verslunarstjóri sem var illa við að greiða skuldir sínar. “Ég seldi ekki víxlana heldur geymdi og rukkaði þá svo sjálfur á eindaga. Þessi verslunarstjóri þráaðist alltaf við að borga og þegar ég gekk á hann var ævinlega sama viðkvæðið: “Ef þetta á að vera svona, þá er okkar viðskiptum lokið. Mér þótti þetta leiðigjarnt svona síendurtekið og einn daginn sagði ég bara: “Við skulum þá bara hafa það þannig og þar með lauk viðskiptum okkar.”

Hélt gluggaþvottinum áfra

Örn segir að líklega sé það spurning um að nenna þegar kemur að því að byggja upp fyirtæki. Hann hafði að minnsta kosti ekki menntunina en tókst það samt.

Örn hélt gluggaþvottinum áfram eftir að hann hóf að reka heildverslunina og á meðan hann var að byggja fyrirtækið upp. Hann þreif m.a. gluggana hjá verslun Pfaff sem þá var á Skólavörðustíg 1 en þá stóð fyrir dyrum að flytja verslunina. Örn spurði eigandann hvort hann væri ekki til í að leigja sér plássið á Skólavörðustígnum og þar opnaði Heilsuhúsið fyrst verslun 1979. Þar var fyrirtækið í 10 ár áður en Örn flutti það í steinhúsið á móti. Örn opnaði síðar útibú í Kringlunni þegar hún hóf starfsemi, en árið 2005 seldi hann Lyfju fyrirtækið allt saman, skömmu fyrir efnahagshrun okkar Íslendinga.

Þetta var spurningin um að nenna

Þegar Örn er spurður að því hvaða galdur það hafi verið að algerlega ómenntaður maðurinn hafi náð að gera lítið fyrirtæki leiðandi á sínu sviði svarar hann að líklega hafi þetta verið spurningin um að nenna. “Ég var alltaf með hugann við reksturinn, hvort sem ég var við gluggaþvott, á ferðalögum og jafnvel á sinfóníutónleikum stóð ég mig oft að því að vera kominn með hugann við einhver úrlausnarefni fyrirtækisins. Maður var  einhvern veginn alltaf að leggja drög að einhverju, skipuleggja og velta fyrir sér. Áhuginn var ómældur og ég hafði óstjórnlega gaman af þessu. Og ekki skemmdi fyrir þekkingin á  heilsuvörum sem mamma hafði miðlað mér.”

Mamma kenndi mér að klára verkefnin

Elfriede hafði ekki margt veraldlegt að gefa börnunum sínum en það sem hún gaf þeim í veganesti segir Örn að hafi komið þeim vel í lífinu. “Hún innprentaði mér að ef ég tæki að mér verkefni ætti ég skilyrðislaust að klára það og gera það vel. Ég á til dæmis ennþá erfitt með að hætta við bók sem ég er ekki búin að klára eða ganga út af vondri mynd eða leiðinlegu leikriti,” segir Örn og hlær.

Hitti ástina fyrst tvítugur í Ísrael

Í framhaldi af uppgjöri Arnar við móður sína varðandi búið 1972, þá tvítugur að aldri, fór hann í ferðalag til Ísrael. Þar kynntist hann sænskri stelpu sem líka var Vottur. Hún flutti með honum til Íslands, þau giftust og eignuðust þrjú börn sem öll eru uppkomin. Þau fluttu með móður sinni til Svíþjóðar þegar þau Örn skildu en hafa alla tíð verið í mjög góðu sambandi við föður sinn. Síðan eignaðist hann tvö börn til viðbótar sem hann er líka mjög stoltur af.

Lífsins lystisemda notið á pallinum í sumarbúsaðnum.

Kona Arnar er Kristín Ólafsdóttir og eiga þau saman 8 barnabörn sem hann segir að þau njóti að umgangast og hafa hjá sér og að sjálfsögðu að hlaupa undir bagga með ef þarf. Kristín starfaði lengi í utanríkisráðuneytinu og bjuggu þau um skeið erlendis, fyrst í Kína og síðan í Belgíu. Þar sem bæði eru nú hætt að vinna, hafa þau komið sér upp tilveru sem þau njóta ríkulega saman. Þau ferðast mikið, eru bæði í golfi og Kristín tekur einnig smá þátt í veiðinni sem er helsta iðja Arnar á sumrin. Þau eiga gott íbúðarhús á Ströndum, sem stendur í grjótborgum á fjörukambi nokkru sunnan Hólmavíkur, með glimrandi útsýni yfir Steingrímsfjörð og æðurin og teistan synda fyrir utan stofugluggann í félagi við aðra sjófugla. Selurinn svamlar af og til þar fram og til baka og hnúfubakar og aðrir hvalir blása úti á firði. Þetta er þeirra paradís og margra vina þeirra sem dvelja þar gjarnan með þeim. Erni hlýnaði t.d. um hjartarætur þegar hann heyrði af ritgerð sem barnungur sonur vinar hans skrifaði í skólanum. Þá átti hann að segja frá eftirminnilegu ferðalagi sem hann hefði farið um sumarið og skrifaði um helgardvölina á Ströndum þó hann hafði verið í miklum reisum erlendis þá um sumarið. “Okkur finnst svo skemmtilegt þegar unga fólkið nýtur þess að vera þarna með okkur,” segir Örn.

Hjálpar börnum sínum að mennta sig

Það varð aldrei neitt úr draumnum um frekari skólagöngu hjá Erni en hann hefur haldið því að börnum sínum að mennta sig. “Ég hef sagt þeim að ég aðstoði þau við nám á meðan þau séu í skóla en þar fyrir utan verða þau að bjarga sér sjálf, sem þau hafa gert. En ég er hér alltaf fyrir þau ef þau þurfa á mér að halda og þau treysta því. Ég er hins vegar búinn að sjá svo marga sóa tímanum og lífinu í rugl að ég vil ekki sjá þau í þeim sporum. Þeim vegnar vel, þau eru sæl hvert á sínum stað, þannig að ég vakna glaður og áhyggjulaus á hverjum morgni. Sá yngsti er 23 ára og er auðvitað dekurbarn eins og yngstu börn eiga að vera en í honum er töggur og honum farnast vel í námi sínu og starfi í tónlistinni.”

Örn með börnum og banabarni.

Lífið er skemmtilegt

Eftir 66 ár er niðurstaða Arnar Svavarssonar að lífið sé skemmtilegt. Hann segir að í kringum hann hafi einhvern veginn valist einstaklega gott og skemmtilegt fólk, hann nýtur lífsins með “Stínu sinni” og börnum þeirra og barnabörnum og þakkar fyrir að allur sá hópur er í góðu lagi og veit að í þeim er framhaldslífið.

 

 

 

 

 

Ritstjórn nóvember 16, 2018 09:48