Máltíðin á 1.200 krónur á mann

Sumir sem eru búnir að elda mat í 40 ár eða lengur, eru til í að sleppa því að elda annað slagið og kaupa sér mat. Það er fágætt að fá rétti á veitingastöðum sem kosta undir 2000 krónum, en það er mögulegt ef ódýrasti staður er valinn. Ein leið er svo að fá hráefnið í matinn tilbúið og sent alla leið heim að dyrum. Þá þarf ekki að brjóta heilann um hvað á að hafa í matinn. Nokkrir sem hafa haft samband við Lifðu núna, láta vel af þessu, en þeir hafa keypt matinn hjá fyrirtæki í Kópavogi sem heitir Eldum rétt.

Valur Hermannsson

Valur Hermannsson

Hægt að velja tvenns konar mat

Þar er hægt að kaupa annars vegar sígildan pakka, eða svokallaðan paleo pakka sem hafa að geyma efni í þrjár máltíðir nákvæmlega mælt og vigtað, ýmist fyrir tvo eða fyrir fjóra. Eldum rétt er lítið fjölskyldufyrirtæki og Valur Hermannsson er einn eigenda. Hann segir að í sígilda pakkanum sé venjulegur matur, eða „klassískur matur með lúxusívafi“. En í paleo pakkanum sé heilsumatur, í honum séu ekki kornvörur, ekki mjólkurvörur eða hveiti og engar unnar matvörur eða sterkja. „Þetta er hreinn matur, kjöt og grænmeti“, segir Valur.

Velja grænmetið eins og þú myndir gera

Menn þurfa hins vegar að hafa góðan fyrirvara þegar þeir panta matinn. Því biðin eftir hráefninu getur verið allt að 8 dagar. Valur segir að það taki tíma að útvega matinn og birgjarnir þurfi að vita tímanlega hversu miklu á að pakka. „Við leggjum allt í það að útvega bestu hráefnin“, segir Valur. „Við veljum grænmeti eins og þú myndir gera sjálf og tínum úr það sem er ekki í lagi. Við leggjum mikið á okkur til að tryggja að maturinn sé pottþéttur og hráefnið og þjónustan sömuleiðis“.

Dæmi um máltíðir í matarpökkunum

Sem dæmi um innihald sígilda pakkans, þá eru eftirfarandi réttir í næstu þriggja daga skömmtum.

  1. Hunangs-sesam lax.
  2. Portobello lambaborgari.
  3. Spicy kjúklingur með núðlusalati.

Í Paleo pakkanum eru hins vegar þessi réttir.

  1. Sótaður lax með grænmetis- og ávaxtasalati, en það er lax sem er kryddleginn og steiktur án olíu þannig að á honum myndast stökkur hjúpur.
  2. Hakkabuff og egg.
  3. Indverskur kjúklingaréttur.

Hráefnið í þrjár máltíðir fyrir tvo kostar 7.290 krónur, eða 1.215 krónur á manninn og gerist ekki mikið lægra. Ef keypt er fyrir fjóra, kostar pakkinn 11.790 eða 982 krónur á mann, sem er enn betra. Gert er ráð fyrir að menn eigi mjólk, hveiti, smjör, salt, pipar, olíu og sykur heima í eldhúsi þannig að það fylgir ekki með. Eldum rétt var stofnað árið 2014 og Valur segir að viðskiptavinunum hafi fjölgað jafnt og þétt síðan þá.

 

 

 

 

Ritstjórn september 17, 2015 10:29