Verið að hafa af manni hverja krónu

Eysteinn H. Nikulásson.

Eysteinn H. Nikulásson og eiginkona hans seldu sumarbústað í Öndverðarnesi í Grímsnesi fyrr á þessu ári. Við söluna falla niður allar greiðslur Tryggingastofnunar til hans og konu hans í eitt ár og fasteignagjöld af húsi þeirra hjóna í Reykjavík margfaldast.

„Maður er í hálfgerðu áfalli eftir að maður fór að rýna í þetta. Við vorum ekkert að pæla í þessu fyrr en við vorum búin að ákveða að selja og bústaðurinn farinn. Þá kom í ljós að það eru ekki bara greiðslur til okkar hjónanna frá Tryggingastofnun sem falla niður í ár heldur margfaldast fasteignagjöld af einbýlishúsinu á sama tíma. Um leið og við urðum eldri borgarar og vorum hætt að vinna fengum við niðurfellingu á fasteignagjöldum líkt og allir eldri borgarar fá. Gjöldin lækkuðu úr um 30 þúsund krónum á mánuði í 6 til 7 þúsund. En við söluna á bústaðnum hækka fasteignagjöldin aftur upp í það sama og þau voru áður en við hættum að vinna.“

Eysteinn segir að honum þyki þetta ansi blóðugt. Hann sé búinn að greiða skatta og skyldur af þeim peningum sem hann hafi eytt í bústaðinn. „Við bjuggumst aldrei við því að ríki og borg myndu verðulauna okkur með þessum hætti. Það eina sem ég gæti fengið til baka er endurgreiðsla á litlum hluta þeirra fjármuna sem ég hef lagt í endurbætur á bústaðnum. Við stækkuðum hann eftir aldamótin og aftur fyrir nokkrum misserum. Ef við finnum nótur fyrir efniskostnaði vegna þessara framkvæmda fáum við endurgreidd um 20 prósent af honum. Það er bara einn hængur á þessu, það er ekki skylda að geyma nótur nema í sjö ár og því eru elstu nóturnar tapaðar. Mín vinnulaun eru hins vegar einskis virði.“

Eysteinn segir að það hefði verið betra að vera búinn að selja áður en hann fór á eftirlaun. Þau hjón hafi hins vegar ekki gert sér grein fyrir hvað það yrði kostnaðarsamt fyrir þau að selja eftir að þau hófu töku lífeyris. „Það vantar alla umræðu um þessi mál. Mér finnst að ráðherrar sem bera ábyrgð á þessari vitleysu eigi að svara fyrir það í fjölmiðlum. Mér finnst eins og hið opinbera sé að reyna að hafa af manni hverja einustu krónu. Við ætluðum nota peninga sem við fengum fyrir bústaðinn til að gera eitthvað skemmtilegt, eitthvað fyrir okkur sjálf. Það er nú kannski ekki langt eftir, maður veit aldrei hvort maður vaknar hérna megin eða hinum megin þegar maður fer að sofa á kvöldin,“ segir Eysteinn að lokum.

Smelltu hér til að sjá aðra grein um sama efni, Seldu bústaðinn áður en þú ferð á eftirlaun.

Vinsamlegast athugið: Þessi grein var birt árið 2017 og upplýsingarnar í henni voru réttar þá.

Skattalögum vegna sölu sumarbústaða og annars íbúðarhúsnæðis var breytt frá og með 1. janúar 2021.

Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði og frístundarhúsnæði 

Hagnaður manns af sölu íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis telst almennt að fullu til skattskyldra tekna á söluári. Hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis telst þó ekki til skattskyldra tekna hafi maður átt hið selda í tvö ár eða lengur og aðeins að því marki sem heildarrúmmál íbúðarhúsnæðis seljanda fer ekki fram úr 600 m3  á söludegi ef um einstakling er að ræða (1200 m3  ef hjón), nema um sé að ræða íbúðarhúsnæði til eigin nota. Við álagningu á árinu 2021 (vegna tekna 2020) tók gildi sú breyting að hagnaður af sölu frístundarshúsnæðis getur einnig fallið undir fyrrgreinda undanþágu frá skattskyldu, að teknu tilliti til framangreindra stærðarmarka, ef frístundarhúsnæði hefur verið nýtt af eigendum og ekki verið til útleigu gegn endurgjaldi, enda hafi eignarhald varað að lágmarki 7 ár.

 

Ritstjórn ágúst 23, 2017 11:37