Ekki gleyma öldruðum

Ellert B. Schram

Ellert B. Schram, formaður félags eldri borgara í Reykjavík skrifar.

Ég fékk í jólagjöf bókina Sapiens, sem er “mannskyns saga í stuttu máli“. Það er verðugur lestur og á í rauninni erindi til okkar allra. Þar er verið að lýsa upphafi mannverunnar, homo sapiens, hvernig stóð á því að mótaðar voru hugmyndir um guði, þjóðerni, mannréttindi, lög og kenningar sem við treystum. Allt fram á okkar daga.

Í bókinni er dregin fram  vegferð mannskepnunnar í gegnum aldirnar, og meðal annars margt sem við sjálf, sem komin erum til ára okkar, höfum upplifað eða næstum því munum eftir. Landbúnaðarbyltingar, heimsstyrjaldir með einræðisherrum á borð við Hitler í Þýskalandi og Stalín í Rússlandi svo einhverjir séu nefndir, vísindabyltingar, þrælahald og framleiðsla og notkun kjarnorkuvopna til eyðingar heilla þjóðvelda og mannskepna.  Það var barist um völd og einræði. Sem dæmi um einræðisstjórn er sú ákvörðun kínverskra stjórnvalda að banna hjónum að eignast nema eitt barn.

Við Íslendingar erum svo lánsamir að hafa ekki búið við einræðisherra og hrottalegan yfirgang þess konar stjórnvalda. Gleymum ekki að landnemar á Íslandi voru á flótta  frá miskunnarlausum yfirvöldum í heimaríki sínu. Og eru enn.

Á Íslandi búum við við lýðræði og höfum stjórnvöld sem eiga að hlusta á þegna sína og stjórna í þágu þeirra. Lífaldur Íslendinga er hár og við ættum að geta búið öldruðum, sem öðrum,  þannig samfélag að sem flestir/allir njóti sín svo lengi sem þeir lifa. Ég efast ekki um að það sé vilji og viðleitni stjórnvalda að greiða götu þeirra sem eldast. Vandinn er bara sá, að það gleymist stundum að sinna þeirri leið.

Við erum heppin með land og þjóð, sem hefur efni og tök á þeim lausnum, sem geta komið í veg fyrir fátækt, einangrun og heilsuleysi.  Samfélagsleg skylda okkar er að veita fullnægjandi aðstoð til allra samfélagsþegna án tillits til þjóðernis, kyns eða aldurs og stuðla þannig að farsælu langlífi.  Það er skylda stjórnvalda ríkisins gagnvart þjóðfélaginu og öldruðu fólki. Lífið er dýrmætasta eign okkar allra.

Við lifum aðeins einu sinni.

 

 

 

 

Ellert B. Schram janúar 13, 2020 10:58