Halldóra Sigurdórsdóttir fjallar um jólabækurnar
Við Aðalgötuna á Siglufirði finnst lík ungrar konu fyrir framan þriggja hæða hús aðfaranótt skírdags. Ekki löngu síðar skrifar gamall maður, íbúi hjúkrunarheimilisins, Hún var drepin á vegg í herberginu sínu með sterkum rauðum lit.
Þessar aðstæður bíða Ara Þórs Arasonar lögreglumanns til að vinna úr þessa páskahelgi. Hvað gerðist? Var stúlkan myrt? Ef svo var af hverju? Hverjum er um að kenna?
Vetrarmein er fimmta bók Ragnars Jónassonar sem gerist á Siglufirði en hann hefur gefið út samtals tólf bækur. Í Siglufjarðarbókunum er Ari Þór lögreglumaður aðalpersóna sagnanna. Hér þarf hann að takast á við óhugnanlegt mál sem er flóknara en sýnist í fyrstu og leiðir lesandann víða og á spennandi slóðir. Á sama tíma og hann þarf að leysa ráðgátuna um látnu stúlkuna tekst hann á við sín flóknu persónulegu mál sem eru alltaf fyrirferðamikil en áhugaverð í bókunum um Ara.
Aðdáendur Ragnars verða ekki fyrir vonbrigðum með bókina Vetrarmein frekar en fyrri bækur hans. Ragnar ef afar skemmtilegur rithöfundur og hefur einstakt lag á að halda lesandanum límdum við efnið. Textinn er lipur og rennur vel. Persónur sögunnar eru áhugaverðar. Þetta er bók sem lesandinn á að byrja á þegar ekkert brýnt liggur fyrir því hann leggur hana ógjarnan frá sér eftir að byrjað er á henni. Spennandi og skemmtileg frásögn frá fyrstu síðu.
Hér er á eftir má lesa upphaf fyrsta kafla bókarinnar Vetrarmein sem og lok kaflans.
,,Þá eru bætt öll vetrarmein.“
Þ. Ragnar Jónasson (1913-2003)
Aftur kemur vor í dal
(Siglfirskir söguþættir)
SKÍRDAGUR
I
,,Lögreglan. Ari Þór Arason.“
Í símanum var fulltrúi frá neyðarlínunni.
,,Það barst símtal til okkar rétt í þessu frá Siglufirði, ert þú á vakt?
Á sumrin rann nóttin saman við daginn á Siglufirði, næturnar höfðu hvorki upphaf né endi. Þá leið Ara best, eins og ekkert gæti haldið aftur af honum.
Og svo komu löngu vetrarnæturnar og snjórinn.
Ari hafði reynt allt til þess að sofna, en ekkert gekk.
Hann notaði enn stóra svefnherbergið í húsinu við Eyrargötu. Því herbergi hafði hann deild með Kristínu og Stefni litla áður en þau fluttu út, alla leið til Svíþjóðar.
Á sínum tíma hafði fannfergið farið illa í Ara, en öllu mátti venjast, og nú fann hann sjaldnar fyrir innilokunarkennd. Og heimþráin var eiginlega horfin. Fyrir sunnan var nýtt góðæri í uppsigling og Siglufjörður fór raunar ekki varhluta af því, aldrei þessu vant. Ferðamenn, innlendir sem erlendir, streymdu í bæinn á sumrin og fjöldi gesta, aðallega Íslendingar, lagði leið sína þangað á veturna til að fara á skíði. Páskarnir voru sérlega vinsælir og nú stefndi í góða helgi í brekkunum.
—-
Ari var kominn á vettvang á sömu stundu og sjúkrabíllinn og þegar hann gekk fyrir hornið, inn á Aðalgötu, blasti hin skelfilega sjón við honum.
Við gangstéttarbrúnina lá ung stúlka í blóði sínu, í sérkennilegri stellingu, svo augljóst var að hún hafði fallið úr töluverðri hæð. Það þurfti heldur engan sérfræðing til þess að kveða upp úr með það að hún var látin. Blóðið virtist hafa streymt úr höfðinu, höfuðkúpan eflaust brotin. Ari færði sig nær, virti hana betur fyrir sér og veitti því athygli að hún var sennilega enn yngri en hann hafði haldið í fyrstu. Ef til vill bara unglingur. Hann greip andann á lofti.
Andskotinn.
Augun voru galopin, líkt og stúlkan væri að stara út í tómið, augnaráðið fjarrænt.
Og Ari vissi að þessi sýn ætti eftir að fylgja honum lengi.