Við erum allir hluti af karlamenningunni

Tímarnir breytast og mennirnir með segir máltækið. Það hljómar ósköp áreynslulaust en allir sem lifað hafa tímana tvenna vita að engin breyting verður án átaka og allra síst hugarfarsbreyting. Það á sannarlega við um jafnréttisbaráttu kvenna en undanfarið hefur mikið verið talað um bakslag á þeirri vegferð og skautun eða meiri skiptingu í fylkingar en nokkru sinni áður. Rúnar Helgi Vignisson, rithöfundur og prófessor, blandaði sér umræðuna fyrir jólin með bókinni Þú ringlaði karlmaður: Tilraun til kerfisuppfærslu. Sumir töldu að prófessorinn hefði hætt sér út á jarðsprengjusvæði með skrifum sínum en Lifðu núna lék forvitni á að vita hvort hann hefði upplifað óstöðuga jörð undir fótum eftir að bókin kom út.

Kom þér á óvart hvernig viðbrögð við bókinni urðu eða voru þau nokkuð eins og þú hafðir búist við?

„Viðbrögð við bókum manns eru sjaldnast eins og maður býst við, alveg sama hversu mjög maður reynir að búa sig undir þau,“ segir Rúnar Helgi og brosir. „Ég renndi nokkuð blint í sjóinn hvað þessa bók varðaði og var svolítið samanherptur fyrst eftir að hún kom út. Sumir vina minna voru líka nokkuð áhyggjufullir fyrir mína hönd þegar þeir vissu um hvað ég var að skrifa en síður þeir sem höfðu lesið handritið. Svo er bókin varla komin út þegar fara að streyma til mín viðbrögð. Það var varla liðin vika þegar tölvupóstar og skilaboð tóku að berast í stríðum straumi og enn fæ ég mikil viðbrögð frá lesendum. Ég átti ekki von á þessu.“

Ekki kennslubók og ekki áróðursbók

Hvernig eru þessi viðbrögð almennt, er fólk þakklátt eða finnst því þú vera á villigötum í því sem þú skrifar?

„Fólk segir aldrei allt við höfundinn. En það sem ég heyri er 99% jákvætt og lesendur mjög þakklátir fyrir að ég skyldi leggja í þetta. Ekkert síður konurnar en karlarnir. Þeir eru reyndar sumir svolítið feimnir við þetta og óttast kannski að ég sé að skamma þá. Nokkrir bregðast við á þann veg að þeim finnist þeir ekki þurfa á þessu að halda. Eins og þeir séu feimnir við að viðurkenna að enn geti þeir á sig blómum bætt í þessum efnum. En þetta er ekki kennslubók, ekki handbók og ekki áróðursbók. Þetta er það sem á ensku er kallað memoir en það er ein tegund af endurminningabók sem tekur fyrir sneið af lífi manns, eins og ég geri í Þú ringlaði karlmaður. Ég tek fyrir þessa kynjasneið úr lífi mínu og leyfi lesandanum að fylgjast með mér fara í gegnum þetta.

Ég reyni að vera ekki dómharður en held samt að enginn geti verið algjörlega sammála öllu sem stendur í þessari bók, enda væri það ekki heppilegt. Henni er fyrst og fremst ætlað að opna umræðu, vonandi upplýsta umræðu, með því að skoða kynjamálin frá sjónarhorni karlmanns. Eigi að síður virðast konur líka finna sig í ákveðnum hlutum hennar. Líklega vegna þess að Guðrún konan mín leikur stórt hlutverk í bókinni. Það kom mér svolítið á óvart að konurnar væru svona jákvæðar og opnar fyrir þessu.“

Rúnar Helgi Vignisson

Rúnar Helgi og kona hans, Guðrún, eru mikið útivistarfólk og ganga gjarnan á fjöll á sumrin.

Ýtarleg heimildaöflun

Líkt og Rúnar Helgi bendir á hefur hann aflað sér og er enn að bæta við sig þekkingu um sögu kvennabaráttunnar, kynjafræði og félagslega stöðu kynjanna. Hann hefur lagt upp í mikla og víðtæka heimildaöflun. Það hlýtur að hafa tekið umtalsverðan tíma eða er ekki svo?

„Jú, ég hef stundum grínast með að þetta sé ígildi BA-gráðu,“ segir hann og kímir, „af því að þetta var þriggja til fjögurra ára ferli, reyndar meðfram fullri vinnu. Ég fékk eitt rannsóknarleyfi á ritunartímanum sem ég nýtti að mestu í bókina. Ég setti bara undir mig hausinn, enda fann ég knýjandi þörf fyrir að fara inn á þetta svæði í kjölfar #metoo. Það er ábyggilega eitthvað í mér sem sækir í svona heit svæði. Ég hafði áður skrifað umdeilda grein um slaufun sem er næsti bær við enda tengist hún oft kynjamálunum. Ég veit ekki hvað það er, einhver þorsti í að fylgjast með, átta sig á nýjungum og opna umræður um þær. Mér fannst vera mikil eyða í karlamenningunni á þessu sviði þótt það séu farnir að koma fram karlmenn sem tala fyrir breyttum gildum og endurskoðun á karlmennskunni.

Ég hafði skrifað skáldverk sem snerust fyrst og fremst um samskipti kynjanna og fannst því eðlilegt að ég reyndi að uppfæra mig á þessu sviði. Ég þorði nú varla að lesa þau eftir að vera búinn að kynna mér öll þessi fræði betur. Ég komst þó að því að ég hafði skrifað nokkrar metoo-sögur, m.a. smásögu um kynferðislega misnotkun út frá sjónarhorni konunnar og heila skáldsögu, Ástfóstur, þar sem eldri maður nýtir sér valdastöðu sína í samskiptum við yngri konu. Þess vegna hefði kannski mátt halda að ekki margt kæmi mér á óvart en ég fann þó ýmsa kima sem ég vissi ekki einu sinni af þegar ég lagði upp.“

Drápu menn sem lágu vel við höggi

Auk þess að fjalla náið og af einlægni um samskipti kynjanna má einnig lesa milli línanna ákveðna gagnrýni á umræðuhefðina í íslensku samfélagi. Íslendingar hafa gaman af að tala en hafa sjaldnast fyrir því að hlusta. Það er gjarnan stokkið á eitt orð eða einhver setning tekin úr samhengi og svolítið ríkjandi að bíða eftir að geta ráðist á mælandann fremur en að bíða eftir að hann hafi lokið máli sínu og leggja þá mat á rökin. Ertu kannski að kenna mönnum og hvetja þá til að taka upp betri siði þegar kemur að samtölum hvort sem það er um þjóðmál eða í einkalífinu, afla sér upplýsinga, hlusta og tala svo?

„Ég veit það ekki,“ segir Rúnar Helgi og hlær. „Ég vil helst ekki nota sögnina að kenna í tengslum við þessa bók en ef fólk telur sig geta lært eitthvað af henni þá gleðst ég yfir því. Það er rétt hjá þér, ég er frekar gagnrýninn á orðræðuna sem hefur oft verið mjög óvægin þegar kemur að þessum málum og versnaði heldur eftir að samfélagsmiðlarnir komu til sögunnar. Þar myndaðist fljótt ákveðin skautun svo lítið rými varð fyrir gráu svæðin og yfirvegaða umræðu, hvað þá gleðina sem mér finnst að ætti að einkenna jafnréttisbaráttuna. Kannski er þetta einkennandi fyrir okkur Íslendinga. Í gamla daga áttum við til að drepa þá sem okkur líkaði ekki við, hjuggum hausinn af húskarli sem varð á vegi okkar bara vegna þess að hann lá vel við höggi. Meining mín var að reyna að sýna nokkrar hliðar á þessum málum. Þau sem lásu yfir fyrir mig nefndu mörg að ég skoðaði málefnin gjarnan frá ákveðnum sjónarhóli fyrst, kannski mínum persónulega, en kæmi svo aftur að þeim seinna frá öðru sjónarhorni. Þannig fer ég í nokkra hringi stundum. Þetta er náttúrulega ekki svarthvítt og ég lít svo á að við séum í þessu saman, öll.“

Rúnar Helgi Vignisson

Rúnar Helgi er mun varkárari en Guðrún þegar kemur að ævintýrum á ferðalögum þeirra.

Lítið vitað um líðan karla

Í tengslum við jafnréttisbaráttu kvenna, sem nú hefur staðið í vel á aðra öld, hefur safnast upp mikið efni. Rannsóknir hafa verið gerðar, persónulegar sögur kvenna skoðaðar og unnið mikið með upplifun þeirra af samfélaginu, stöðu þeirra innan þess og viðhorf til hefðbundinna kynhlutverka. Lítið af sambærilegu efni frá sjónarhorni karlmanna er til. Allir hafa líklega sína hugmynd um hvað feðraveldið er en sjaldgæft að finna efni sem lýsir upplifun karla af því fyrirbæri. Bókin er því verðmætt innlegg því þarna er meðal annars komið inn á hvernig drengur upplifir að alast upp innan þessa ramma.

„Já, einn þráðurinn í bókinni er að sýna hvernig karlmanni líður innan þessa kerfis. Það er stundum gert ráð fyrir því að ef maður er karl njóti maður þessa kerfis út í hörgul en það er ekki sjálfgefið. Við höfum enn viss forréttindi en það er mjög misjafnt hvort karlmenn njóta þeirra og þá á hvaða hátt og ef þeir njóta þeirra ekki eru þeir gjarnan stimplaðir minnipokamenn af sjálfum sér og öðrum. Á mínum uppvaxtarárum var allt þorpið háð því að sjómennirnir skiluðu afla á land. Allt þorpið reiddi sig á að karlarnir stæðu sig við háskalegar aðstæður og það mótaði okkur öll eins og gefur að skilja.“

Lítið tilfinningalegt svigrúm fyrir karla

Sjálfur var Rúnar Helgi viðkvæmur og feiminn sem drengur. Það var ekki mikið rými fyrir slíkt og það var ekki hluti af forritinu.

„Framarlega í bókinni er kafli þar sem ég fer svolítið í einmitt þetta. Þar er vitnað í Bubba Morthens þegar hann segir að maður eigi ekki að sýna of mikið inn í sína sál. Ungir menn sem lásu yfir handritið fyrir mig vildu nú meina að þetta væri breytt. Kannski er þetta eitthvað breytt en ekki mjög mikið frá mínum bæjardyrum séð. Ég á syni, unga menn, og við ræðum gjarnan þessi mál. Mér heyrist á þeim að þegar þeir verði fullvaxta karlmenn aukist þrýstingurinn á þá að vera sterkir og sýna ekki veikleika. Ef þessi bók gerir eitthvað til að auka tilfinningalegt svigrúm karlmannsins, væri ég mjög ánægður. Þótt það væri ekki nema örlítið því ég upplifi mikil þrengsli og í raun háir þetta okkur talsvert í því að komast að kviku lífsins, því sem snýr að okkur sem oft og tíðum viðkvæmum tilfinningaverum, ástríkum eiginmönnum og feðrum. Ég held reyndar að ungir menn séu farnir að sjá að þar er að finna raunveruleg lífsgæði ekki síður en í einhverjum frama úti í samfélaginu.“

Rúnar Helgi og Guðrún á skíðum í Austurríki.

Breytt viðmót

Það er ekki langt síðan karlmenn fengu rétt til að taka feðraorlof og eftir að þau lög voru samþykkt voru jafnvel brögð að því að vinnuveitendur gerðu mönnum erfitt fyrir að nýta þann rétt. Þeir voru stundum reknir. Rúnar Helgi var heimavinnandi mörg ár meðan drengirnir hans voru litlir. Hann sinnti þá ritstörfum en Guðrún konan hans var aðalfyrirvinnan. Honum mætti stundum skrýtið augnaráð og hálfgerður vandræðagangur því fólk vissi ekki alveg hvernig ætti að taka þessum skrýtnu og óvenjulegu aðstæðum.

„Kerfið gerði ekki alltaf ráð fyrir að karlmaður sinnti hlutum sem þessum en það hefur talsvert breyst. Boð um leikskólapláss var t.d. eingöngu sent á Guðrúnu. Nú gera allir leikskólar ráð fyrir að feðurnir komi með börnin og afarnir sæki. Ég finn það þegar ég kem og sæki litla afastrákinn minn að viðmótið er annað.“

Ein af ástæðum þess að Rúnar Helgi fór að skrifa bókina var að hann sótti ráðstefnu um Klaustursmálið og hlustaði á femínista lýsa upplifun sinni af þeirri orðræðu sem þar var viðhöfð og hvernig viðhorf endurspegluðust í tali manna í valdastöðum í samfélaginu. Rúnar Helgi lýsir tilfinningaviðbrögðum sínum, vanmætti, sektarkennd og samviskubiti. Í raun er um að ræða ekkert ósvipuð viðbrögð og margir Vesturlandabúar hafa upplifað þegar þeim verður ljóst hvernig rekja má ástandið í þróunarlöndunum til aðgerða þróaðra ríkja. Að velmegun okkar sé borguð af þeim og byggð á arðráni okkar á auðlindum þeirra og lífsbjörg. Flestir upplifa löngun til að varpa þessu frá sér en í stað þess að gera það kýs Rúnar Helgi að skrifa um það.

„Já, ég fer inn í þjáninguna,“ segir hann. „Sumir hafa talið að dónatalið á barnum hafi hrint bókarskrifunum af stað en sú er ekki raunin. Bókin snýst miklu frekar um þá orðræðu sem kom fram til að svara þeim. Þetta mál var svo groddalegt að það kallaði á mjög sterk viðbrögð og ég held að maður hafi fengið þau ómenguð á umræddri ráðstefnu. Ég tók þau til mín og kom út af henni eins og syndahafur, tók þetta inn á mig, eins og höfundar gera gjarnan þegar bjátar á enda eru þeir tilfinning heimsins eins og Laxness orðaði það.

Sumir karlmenn sem hafa lesið bókina afneita sektinni sem ég lýsi í þessum kafla og víðar. Mér finnst ég ekki geta afneitað henni því þótt ég sé að einhverju leyti óvenjulegur karlmaður þá er ég hluti af karlamenningunni, hef mótast af henni og notið hennar með einhverjum hætti alla ævi. Við erum allir hluti af henni. Þess vegna finnst mér við ekki geta afneitað henni algjörlega þó að við höfum ýmislegt við hana að athuga. Þótt við séum hver og einn bara pínulítil peð erum við engu að síður hluti af stórri heild. Ég ber ekki ábyrgð á afglöpum einhvers einstaklings úti í bæ sem slíkum en ber samt örlitla ábyrgð á karlamenningunni sem kann að hafa áhrif á gjörðir einstakra karlmanna. Það skiptir líka máli í þessu samhengi að ég hef vettvang til að tjá mig.“

Djúpstæð þörf

Lesandi bókarinnar skynjar líka þessa djúpstæðu þörf þína fyrir að skrifa og greina líf þitt með orðunum. Er þetta eitthvað sem hefur fylgt þér frá því þú varst barn?

„Hið ritaða orð hentaði mér vel vegna þess hvað ég var feiminn lengi vel. Ég var byrjaður að skrifa mjög ungur og farinn að birta í skólablöðum í gagnfræðaskóla, hélt því áfram í menntaskóla og háskóla. Ég hef því verið að skrifa meira og minna frá fermingu og hef alltaf haft mikla þörf fyrir að skapa og tjá mig með því móti. Í mér er oft mikil togstreita því ég vil helst geta skrifað eitthvað á hverjum degi en er í fullu starfi svo það getur verið snúið. Ég kenni að vísu ritlist, bý til rithöfunda svo þeir eru svolítið að skrifa í gegnum mig eða ég í gegnum þá.

Það má segja að ég hafi farið öfuga leið í lífinu. Ég fór seint út á vinnumarkaðinn, byrjaði á því að leika mér eins og sum gera þegar farið er á eftirlaun, fara til dæmis að leika sér í golfi, en ég var að leika mér að því að skrifa sem gaf ekki mikið í aðra hönd. Þess vegna verð ég eiginlega að vinna vel fram á áttræðisaldur eigi ég að ná þokkalegum eftirlaunum. Ég er í stöðu kvenna fyrr á tíð sem voru heimavinnandi framan af en fóru út á vinnumarkaðinn þegar börnin urðu stálpuð og það hefur haft áhrif á lífeyrissjóðsréttindi mín,“ segir Rúnar Helgi að lokum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 11, 2025 07:00