Inga Sæland, formaður Flokks fólksins lagði fram frumvarp í vor um að fella úr gildi lagabreytingu um persónuafslátt lífeyrisþega sem búa erlendis. Breytingin sneri að því að afnema persónuafslátt þeirra. Stjórnarandstöðunni undir forystu Ingu tókst að fá gildistöku laganna frestað til komandi áramóta um síðustu jól. Nú nálgast sá tími hins vegar óðfluga og Inga segir þetta valda óvissu á meðal eldra fólks er býr erlendis.
Inga hefur áður bent á margir séu búsettir utanlands af efnahagslegum og heilsufarslegum ástæðum og ætla megi að þessi breyting muni verulega rýra tekjur og lífsgæði þessa hóps. Að hennar sögn er þessi lagabreyting hluti af aðför stjórnvalda að fólki sem þiggur framfærslu frá Tryggingastofnun. Hún telur óvissuna um framtíðina valda kvíða meðal fólks í þessari stöðu. Hún vill að fjármálaráðherra athugi hvaða afleiðingar þetta hafi fyrir þetta fólk.
Frumvarp Ingu fékkst ekki samþykkti og munu lögin að óbreyttu taka gildi 1. janúar 2025. Inga efast um að þessi breyting standist jafnræðisákvæði stjórnarskrár. Benda má að ef fólk sem býr erlendis sækir 75% eða meira af tekjum sínum til Íslands geti það fengið fullan persónuafslátt en það verður að sækja um hann sjálft. Inga telur hins vegar að fólk eigi að fá persónuafsláttinn sjálfkrafa og ekki þurfa að sækja um hann, enda hafi ekki allir tölvuþekkingu eða aðgang að aðstoð við að gera það í gegnum netið. Hafa verði í huga að enn sé til fólk sem ekki hafi náð tökum á tækninni þótt það sé fyllilega sjálfbjarga að öðru leyti.