Morgunblaðið greinir frá því í dag að íslenskt fyrirtæki ætli að bjóða niðurgreiddar liðskiptaaðgerðir í Riga í Lettlandi. Þær eru sagðar mun ódýrari en sambærilegar aðgerðir í Svíþjóð. Fyrirtækið heitir Hei Medical Travel en framkvæmdastjóri þess er Guðjón Ólafur Sigurbjartsson. Fyrirtækið hefur boðið Íslendingum uppá megrunaraðgerðir í Riga, en ætlar sum sé að færa út kvíarnar og bjóða einnig liðskiptaaðgerðir. Haft er eftir Guðjóni í Morgunblaðinu að honum finnist fáránlegt að horfa uppá biðlistana á Íslandi og það sé sjálfsagt að bjóða uppá þennan valkost. Hann segir sjúkrahúsið í Riga frábært og að læknar þar séu menntaðir í London og víðar á Vesturlöndum. Verðið sem nefnt er fyrir liðskiptaaðgerð er um ein milljón íslenskra króna, þ.e. fyrir aðgerðina sjálfa.
Samkvæmt upplýsingum Landlæknisembættisins frá því í júní síðast liðinn eru enn töluverðir biðlistar eftir liðaskiptaaðgerðum, þótt saxast hafi á þá eftir að heilbrigðisyfirvöld veittu umtalsverðum fjármunum í að stytta þá. 214 biðu samt sem áður eftir mjaðmaliðaskiptum í júni og 60% þeirra voru búnir að bíða lengur en í þrjá mánuði, en þriggja mánaða bið er ásættanlegur biðtími að mati embættisins. Þeir voru hins vegar fleiri sem biðu eftir hnjáliðaskiptum, eða 653.
Á síðasta ári samþykktu Sjúkratryggingar Íslands að níu liðaskiptaaðgerðir á mjöðm yrðu gerðar erlendis, vegna langrar biðar hér á landi. Þær aðgerðir voru gerðar í Svíþjóð en þar kostar aðgerðin um 3 milljónir króna. Sjúkratryggingar greiða hins vegar ekki fyrir liðaskiptaaðgerðir hjá Klíníkinni í Ármúla, sem kosta um 1.2 milljónir króna.