Vinna kauplaust allan sólarhringinn

Er þetta í lagi? er fyrirsögn greinar í Morgunblaðinu í dag, eftir Vilborgu Gunnarsdóttur framkvæmdastjóra Alzheimersamtakanna á Íslandi. Þar segir að  umönnun maka eða náins ættingja með langt gengna heilabilunarsjúkdóma sé álag sem enginn geti gert sér grein fyrir, fyrr en hann reyni það sjálfur. Viðkomandi standi yfirleitt vaktina 24 klukkustundir á dag, alla daga vikunnar, að undanskildum þeim sem séu svo heppnir að fá nokkra tíma fyrir sjúklinginn í dagþjálfun, eða fá fyrir hann hvíldarinnlögn.  Síðan segir orðrétt.

Fæstir telja það eftir sér að annast ástvin sinn og vilja ekki að það spyrjist út hversu mjög það tekur á. En við sem störfum hjá Alzheimersamtökunum sjáum svo glöggt hversu ómanneskjulegan toll þetta getur tekið af viðkomandi. Auðvitað vilja allir gera sitt besta fyrir þann veika og það verður til þess að umönnunaraðili setur sjálfan sig í aftursætið, oft með mjög alvarlegum afleiðingum.

Vilborg segir umönnunina bæði líkamlega og andlega streituvaldandi og hún geti því leitt til þunglyndis. Þeir sem annist sjúklingana verði oft veikir án „eðlilegra“ skýringa og þá sé ómæmiskerfinu oft kennt um. Heilabilunarsjúkdómurinn valdi því þá, að það sé ekki einungis einn sem veikist heldur tveir með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið. Annað sem komi sér illa sé að tekjur heimilisins rýrni verulega. Sjúklingnum sé kippt út úr atvinnulífinu sé hann á vinnualdri og allur kostnaðurinn leggist á þann sem sér um umönnunina, sem svo síðar neyðist oft sjálfur til að hætta að vinna til að geta annast þann veika, kauplaust allan sólarhringinn.

En bíðum við. Það er hægt að sækja um umönnunabætur til Sjúkratrygginga og eru þær heilar 85 þúsund krónur. Ef umönnunaraðilinn hefur neyðst til að hætta að vinna, er orðinn 67 ára og þarf að þiggja lífeyri frá Tryggingastofnun er litið svo á að um bætur sé að ræða og falla þá umönnunarbætur viðkomandi niður. Þarna nýtur hið opinbera svo góðs af því að þarna er um mjög veikan þrýstihóp að ræða sem hefur einfaldlega ekki orku til að mótmæla.  Þessu þarf að breyta. Nógu erfitt er að þurfa að hætta góðri vinnu og missa samskipti við góða vinnufélaga, sem skiptir verulegu máli þegar ástandið heima er orðið svona snúið, þó að ekki bætist ofan á greiðsluerfiðleikar. Hið opinbera hefur því ekki, enn sem komið er, létt lífið fyrir aðstandendur og sannast því það sem sagt hefur verið að umönnunaraðilar eru einu opinberu starfsmennirnir sem vinna allan sólarhringinn, en kauplaust.

Vilborg bendir á að margt væri hægt að gera til að styðja aðstandendur. Sálfræðitímar séu nauðsynlegir, en það dýrir að margir sjái sér ekki fært að sækja slíka aðstoð. Þarna eigi hið opinbera að koma að málum. Nú séu í vinnslu drög stjórnvalda að stefnu í málefnum fólks með heilbabilunarsjúkdóma og segir Vilborg  miklar vonir bundnar við að í kjölfar samþykktar verði til tímasett og fjármögnuð áætlun um aðgerðir til handa þessum hópi.

Sjá einnig grein hér á Lifðu núna um fólk sem er að örmagnast við að sinna veikum maka. Í Upplýsingabanka Lifðu núna má fá upplýsingar um margvísleg atriði sem tengjast þjónustu við eldr fólk. Sjá hér.

Ritstjórn september 9, 2019 12:51