Er sjálfsagt að sjá um aldraða foreldra sína?

Barry J. Jacobs

Barry J. Jacobs

„Hann bróðir þinn hringir í mig á hverjum degi,“ tautar 85 ára gömul móðir mín. Bróðir minn býr í 500 km fjarlægð frá okkur svo hann á ekki gott með að heimsækja hana. Símtölin frá honum eru henni mikils virði en ég verð samt alltaf svolítið undrandi á þessum athugasemdum hennar. Ég heimsæki hana oft í viku og hringi alltaf þegar ég kem ekki. En þrátt fyrir það lýsir hún engri ánægju yfir því sem ég geri. Hvorki heimsóknum, símtölum, hjálp við lyfjagjöf eða þegar ég hjálpa henni með fjármálin. Oft finnst mér að hún líti á mig og mín verk sem eitthvað sjálfgefið,“ segir greinahöfundurinn Barry J. Jacobs í grein sem hann ritar á vefinn aarp.com. Lifðu núna þýddi og endursagði greinina.

Gott að fá hrós

Jacobs heldur áfram og segir: Þrátt fyrir þetta ætti sú vitneskja að við séum að breyta rétt við ástvini okkar að vera næg umbun. En samt er gott að fá hrós og viðurkenningu frá þeim sem við önnumst um. Klapp á bakið getur vissulega bætt lund þess sem vinnur verkin. Að öðrum kosti er erfitt að leiða hjá sér vanþakklætið. Ég verð stundum leiður vegna þess að bróðir minn fær miklu meira þakklæti og hrós þó að hann geri miklu minna. Það hvetur mig alls ekki til að standa mig vel gagnvart mömmu og oft veldur hann mér pirringi sem hann á þó enga sök á sjálfur. Fjölmargar ástæður geta valdið því sá sem vinnur verkin er vanmetinn. Óánægja yfir því að þurfa ummönnun yfir höfuð getur vakið upp upp neikvæðar tilfinningar, stundum er hugsunarleysi um að kenna, það er litið á þann sem annast hinn aldraða sem sjálfsagðan hlut.

Hvernig er hægt að öðlast virðingu

Hvernig er hægt að ná fram verðskuldaðri virðingu án þess að líta út eins og maður sé athyglissjúkur og síkvartandi. Jacobs bendir á að þeir sem annast sína nánustu geti upplýst aðra í fjölskyldunni um það sem þeir gera með reglubundnum fréttum. Til dæmis gætirðu sent þeim tölvupóst eða sett inn færslur á Facebook þar sem lýst er ferð til læknis með hinn aldraða, hvað hann hefur fyrir stafni og hvernig þú aðstoðar hann við daglegt líf. Þegar fjölskyldan fær þannig fréttir á reglubundinn hátt má búast við að hún átti sig betur á umfangi málsins og læri að meta verk þín og fari jafnvel að hjálpa til.

Notaðu skopskynið

Jacobs segir að þegar börnin hans voru ung og stundum kröfuhörð hafi hann oft svarað á þann veg að orðin „vinsamlegast“ og „takk“ væru vænleg til árangurs. Ef maður ætlar að pína svolitla kurteisi og þakklæti út úr fullorðinni manneskju mætti kannski spyrja: „Er ég einhver gólftuska“ eða álíka. Oft verður fólk svo upptekið af eigin þjáningum að það gáir ekki að neinu öðru. Jacobs segir að það sé hægt að beita skopskyni og kaldhæðni. Þú gætir beitt skopinu til að minna á þig með setningum eins og: „Þú þarft ekkert að þakka mér, ég geri þetta allt fyrir peningana.“

Þakkaðu sjálfum þér

Hann bendir líka á aðrar leiðir og segir að stundum sé best að ná fram þakklæti með því að sýna það sjálfur fyrst. Byggðu upp gagnkvæma virðingu með því að minnast á og þakka fyrir það sem þú áður naust. Reyndu að líta hinn aldraða sömu augum og hann eða hún litu þig á meðan þú varst á barnsaldri og þakkaðu honum eða henni fyrir alla aðstoð sem veitt var, þannig hveturðu jafnframt manneskjuna til að reyna að taka þátt í verkum þínum og þannig aukast líkurnar á að hún eða hann læri að meta verk þín og sýni þér þakklæti fyrir vikið. Ef fjölskylda þín er fullkomlega ófær um að meta verk þín og ef það er orðið deginum ljósara að frá þeim fáir þú engar þakkir, þá verðurðu einfaldlega að sætta þig við að þau eru takmörkuð að þessu leyti. Ef þú getur ekki kreist blóð úr hörðum steini geturðu ekki heldur kreist þakklæti úr hörðu hjarta, og þegar upp er staðið gætirðu þurft að láta það nægja að þakka sjálfum þér vitandi að verk þín eru góð. Það er líka ómögulegt að gera öllum til hæfis alltaf, stundum verðurðu að láta það nægja að gera sjálfum þér til hæfis.

Smelltu á Upplýsingabanka Lifðu núna til að sjá þjónustu sem eldra fólki stendur til boða hér á landi.

Ritstjórn janúar 21, 2016 10:19