Meiri gæði, aukið öryggi og betra líf á efri árum

Umönnun og þjónusta við eldra fólk getur falið í sér ýmsar áskoranir. Mat á þörfum, öryggi, framkvæmd og útfærsla daglegrar umönnunar þeirra, þar sem líkamlegt og andlegt ástand, lyfjagjöf, virkni og áhættumat eru allt atriði sem taka þarf tillit til. Það er ekki óvarlegt að áætla að hækkandi lífaldur fólks kalli í auknum mæli á kröfu um samhæfð og þverfagleg viðbrögð af hálfu þeirra sem taka slíka þjónustu að sér. Hvort sem um er að ræða þjónustu sem rekin er af opinberum aðilum eða einkaaðilum og hvort sem hún er veitt í heimahúsum eða á hjúkrunarheimilum.

Staðlar sem auðvelda gæðastjórnun

Svíar standa framarlega í ýmsum velferðarmálum, þ.m.t. málum sem tengjast eldra fólki. Hjá sænsku staðlasamtökunum SIS hefur verið skrifaður staðall um gæðastjórnun sem tekur á umönnun eldra fólks. Tilgangurinn er að auka lífsgæði þess og bæta þjónustu. Þeim staðli var svo vel tekið að evrópska staðlasamfélagið tók hann upp á arma sína og gerði að sínum. Staðallinn hefur verið staðfestur á Íslandi, svo nú eigum við líka verkfæri sem nota má til að auka gæði, bæta líðan og tryggja öryggi.
En hvað er staðall? Staðall er formlegt skjal, verkfæri, sem skrifað er af bestu sérfræðingum allra hagaðila, sem sammælast um niðurstöður. Inntak staðals er svarið við spurningunni „Hvernig er best að gera þetta?“ Staðall getur falið í sér leiðbeiningar um gæðastjórnun, tæknilegar útfærslur, prófunaraðferðir, aðferðir við mat á áhættu og í raun allt sem okkur dettur í hug að búa til sammæli um. Staðlar eru alla jafna valkvæðir þannig að hagaðilar ákveða sjálfir að nota þá, sér og sínum viðskiptavinum til hagsbóta. Stjórnvöld um allan heim vísa hins vegar líka til staðla í regluverkinu og stundum með þeim hætti að þeir verða skyldubundinn hluti löggjafar. Þannig er t.a.m. vísað til 7-800 staðla í Byggingarreglugerðinni einni en mannvirkjagerð er mjög staðlaður iðnaður.

Sænskir hagaðilar varða leið að góðri þjónustu

En aftur að því hvernig Svíar vörðuðu leiðina að gæðum í þjónustu við eldra fólk. Staðallinn ber heitið CEN TC/17500 Gæði í umönnun og stuðningi við eldra fólk. Hann hefst á formlegum skilgreiningum á hugtökum og orðum þannig að ekki fari á milli mála hvað er hvað. Skilgreind eru hugtök eins og aðgengi, persónumiðuð þjónusta og heimaþjónusta. Þar eru settar fram leiðbeiningar um skráningu á framkvæmd ýmissa þjónustuþátta og hvernig rekstraraðili smíðar sitt eigið gæðastjórnunarkerfi eftir kröfum staðalsins. Hluti af því er t.d. að ákvarða hvaða hæfni starfsmenn þurfa að búa yfir. Þar er leiðbeint um mat á þjónustuþörf, upplýsingagjöf og samvinnu við þjónustuþegann, um gerð og viðhald þjónustuáætlana og um mat á öryggi fólks og aðbúnað.

Staðallinn gerir ráð fyrir að þjónustuveitandi komi sér upp, innleiði og viðhaldi gæðastjórnunarkerfi. Hann skrifar ferla utan um alla helstu þjónustu s.s. næringu, hreyfingu, hreinlæti, munnheilsu, verkjastillingu, umönnun húðar, lyfjagjafir og líknandi meðferðir.

Dæmi um sértækar leiðbeiningar sem staðallinn gefur eru um munnheilsu og tannlækningar. Þar segir að þjónustuveitandi skuli koma á, innleiða og viðhalda stefnu og verklagsreglum varðandi greiningu, mat, meðferð og aðstoð við að viðhalda góðri munnheilsu. Aðstoða þarf þjónustuþegann við að viðhalda tann– og munnhirðu, þekkja og greina munn- og tannheilsuvandamál hans og tryggja að hann hafi aðgang að viðeigandi tannlæknaþjónustu og fái aðstoð eftir þörfum við að sækja slíka þjónustu og fá þannig viðeigandi meðferðir. Með því að innleiða verklagsreglu af þessu tagi er tryggt að ekki gleymist að aðstoða íbúa á hjúkrunarheimili við að hreinsa gervitennur eða góma og komast þannig hjá því að matarleifar og óhreinindi fari að mynda sár eða sýkingar.

En þar með er ekki öll sagan sögð því ekki er nóg að setja stefnuna og skrifa ferlana einu sinni. Þjónustunni þarf að viðhalda með reglulegum innri og ytri úttektum, mati á árangri, frávikaskráningu og stöðugum umbótaverkefnum þannig að markmiðið er að viðhalda eins góðum gæðum á þjónustu eins og hægt er.

Við þurfum ekki að finna hjólið upp

Mörg helstu sveitarfélög í Svíþjóð hafa í sinni þjónustu innleitt kröfur staðalsins og láta vel af. Mörg þeirra gera það raunar að skilyrði að einkaaðilar sem sinna þjónustu við eldra fólk noti staðalinn líka til að samræma og samhæfa bestu mögulegu þjónustu, óháð því hvar hún er veitt. Rekstur gæðastjórnunarkerfis er þannig gert að skilyrði í samningum um rekstur hjúkrunarheimila. Eftirlit þjónustukaupa með þjónustunni verður einnig mun auðveldara. Sænskir notendur staðalsins segja auðveldara að veita þjónustu af meiri gæðum en áður og að gagnsæi þjónustunnar sé meira. Þjónustuþegar eru ánægðari, vinna stjórnenda verður einfaldari af því það þarf ekki að finna hjólið upp á hverjum stað fyrir sig og meira samræmi er í þjónustu hjúkrunarheimila almennt.

Samfélagssáttmáli um meiri gæði og betri þjónustu

Sveitarfélög og aðrir opinberir aðilar, ásamt einkaaðilum geta aukið gæði umönnunar og annarar þjónustu með því að innleiða staðalinn og komið þannig á samræmdu gæðastjórnunarkerfi. Honum má beita við stjórnun heimaþjónustu, þjónustu í þjónustumiðstöðvum, heimahjúkrun, dagvistun, við endurhæfingar- og hvíldarinnlagnir, búsetu í dvalarrými og hjúkrunarrýmum á stofnunum.

Staðlar eru bræðingur viðurkenndra viðmiða í samfélögum, bæði veraldlegra og siðferðilegra. Nokkurs konar samfélagssáttmáli sem um leið er frábært verkfæri til að tryggja öryggi og gæði og létta okkur lífið. Þeir sem njóta góðs af eru samfélagið allt. Í þessu tilviki eldri borgarar og aðstandendur þeirra en ekki síður stjórnendur og starfsfólk sem sinnir þjónustu við þann hóp.

Helga Sigrún Harðardóttir skrifar.

Ritstjórn febrúar 23, 2024 10:00