Rosalegt álag að annast aldraða aðstandendur

Ásdís Jónsdóttir sjúkraliði fer daglega til háaldraðrar móður sinnar og aldraðrar systur sinnar til að líta til með þeim. Hún segir að þetta þýði mikið álag enda sé hún sjálf orðin fullorðin. Hún lýsir eftir því að aðstoðin sé aukin enda erfitt fyrir aldraða að sinna öldruðum.

Móðir Ásdísar er háöldruð, 94 ára gömul, og í mikilli þörf fyrir umönnun. Hún hefur fengið heilaæxli og er komin með heilabilun sem hefur ágerst verulega síðustu tvö til þrjú árin. Hún heldur heimili með dóttur sinni, systur Ásdísar. Dóttirin er 77 ára lungnasjúklingur og líka orðin öldruð og lasin. Hún fær klukkutíma aðstoð á dag en það er samt ekki nóg til þess að hún geti hreyft sig nógu mikið. Ásdís fer daglega til mæðgnanna til að veita þeim aðstoð. „Þetta er orðið dálítið erfitt hjá þeim. Ég fer á hverjum degi og stundum oftar en einu sinni á dag. Það fer mikill tími í þetta. Ég er sjálf í vinnu og starfa við heimahjúkrun á heilsugæslu en allur minn frítími fer í að sinna þeim. Þannig hefur það verið sérstaklega síðustu árin. Róðurinn er alltaf að þyngjast,“ segir Ásdís Jónsdóttir sem sjálf er 65 ára.

 Þarf aðstoð

Móðir Ásdísar fær heimahjúkrun tvisvar á dag, starfsmaður heimahjúkrunar lítur við til að hjálpa henni á morgnana. Móðirin getur klætt sig að nokkru leyti en þarf aðstoð og sömuleiðis við að hátta á kvöldin. Þá þarf hún einhvern til að líta til með lyfjunum. Fjölskyldan byrjaði að taka eftir heilabiluninni fyrir tíu árum. „Heilabilunin hefur ágerst, og smám saman þróast á verri veg. Við héldum fyrst að hún hefði fengið smá blóðtappa því hún fór að vera gleymnari og hætti að muna það sem maður hafði sagt henni. En svo hefur það skeð sem skeður líka hjá alsheimersjúklingum að maður heldur að hún muni ekki það sem maður hefur sagt en svo man hún sumt og annað ekki. Stundum kemur hún á óvart með það. Hún þekkir mig en er farin að ruglast á barnabörnunum og langömmubörnunum,“ segir Ásdís.

Róðurinn að þyngjast

Ásdís er í 60 prósent vinnu og hefur velt fyrir sér hvort hún ætti að hætta að vinna eða að minnka við sig vinnuna enn frekar en langar til að halda áfram að vinna og finnst tilbreyting í því að fara í vinnu. Henni finnst að margt mætti laga til að gera lífið bærilegra fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra. Auka þyrfti aðstoðina verulega, ekki síst í þeim tilfellum þar sem aldraðir eru að sinna öldruðum. „Þetta er orðið mjög erfitt hjá mörgum. Róðurinn er að þyngjast hjá mörgum aðstandendum því það vantar fleiri hjúkrunarheimili og fleiri úrlausnir,“ segir hún.

 Vantar meiri peninga

Ásdís leggur til að dagvistum verði fjölgað og að fólki gefist kotsur á að vera hálfan daginn í dagvistun. Hún bendir á að heill dagur sé dálítið langur tími fyrir fólk sem er að missa heilsuna, það brjóti upp daginn að geta farið eitthvað án þess að þurfa að vera allan daginn í burtu. Þá vill hún fá aukið fé í þennan geira og talar fyrir því að starfsfólki verði fjölgað. „Fólkið sem vinnur við þetta gerir eins og það getur en það þyrfti fleira starfsfólk til að geta sinnt starfinu enn betur. Í heimahjúkrunina vantar meira fjármagn eins og inn á spítalana. Alls staðar vantar meira fjármagn fyrir aldraða. Mér fyndist líka að það mætti taka upp nýjar reglur um til dæmis umönnunarbætur. Ekki er hægt að fá þær í dag nema aðstandandi búi inni á heimili hins sjúka. Ég væri ekki tilbúin að flytja lögheimili mitt til hennar,“ segir Ásdís og bætir við: „Þegar maður er sjálfur orðinn fullorðinn þá er þetta rosalegt álag.“

 

Ritstjórn nóvember 12, 2014 14:05