Halldór Þórður Haraldsson er bara á miðjum aldri en hefur starfað hjá sama fyrirtækinu, Smith & Norland, undanfarin 36 ár. Hann tók ákvörðun um að hætta í sínu gamla starfi án þess að vita hvað tæki við. Hann segist ekki hafa kunnað annað en verja þeim tíma sem þurfti til að sinna vinnunni eins vel og hann gat og það hafi oft verið langir vinnudagar sem þýddi að hann var ekki alltaf til staðar heima við. Halldór er kvæntur Ingibjörgu Barðadóttur.
Halldór byrjaði sem tæknimaður hjá Smith & Norland en hann er upphaflega menntaður rafeindavirki. Hann hóf störf hjá fyrirtækinu við að setja upp símstöðvar en fram til 1984 var einokun á sölu á fjarskiptabúnaði og einungis Síminn mátti selja slíkan búnað. Fyrsti vinnustaður Halldórs var Landssími Íslands þar sem hann var að vinna þangað til einokuninni var aflétt. Þá var hann ráðinn yfir til Smith & Norland með þá þekkingu sem þar vantaði þegar fyrirtækið gat farið að selja slíkan búnað. Um tíu árum seinna var Halldór ráðinn í deildastjórastöðu og eftir álíka mörg ár var hann gerður að framkvæmdastjóra og því starfi gegndi hann í 14 ár eða þar til hann ákvað að nú væri kominn tími breytinga. ,,Þá taldi ég mig vera búinn að skila öllu sem ég gat enda árin orðin hartnær 36,“ segir Halldór ánægður með afdrifaríka ákvörðun sem hann tók eftir langan tíma á afskaplega góðum vinnustað innan um fjölda góðra vinnufélaga.
Ungur maður af gamla skólanum
Segja má að Halldór sé ungur maður af gamla skólanum því viðhorf hans til lífsins og tilverunnar markast
af staðfestu og öryggi og yfir honum hvílir ró sem ekki er öllum gefin. Það kemur m.a. fram í því að hann hefur ekki haft þörf fyrir að breyta til í starfi þar til nýverið. ,,Ég hafði svo sem ekkert sérstakt sem beið mín heldur lét ég slag standa í þeirri von og vissu að úr rættist,“ segir Halldór og brosir. ,,Ég var í raun tilbúinn að gera hvað sem á fjörur mínar ræki eins og að vinna á bensínstöð, sótti t.d. um sem lagerstjóri hjá stóru fyrirtæki en þótti sennilega of gamall 64 ára,“ segir hann og brosir.
Er ekki með áhugamál að ráði önnur en fjölskylduna og félagsstörf
Halldór er búinn að vera félagi í Oddfellow reglunni í 22 ár og á þeim tíma sem hann var að kíkja eftir lausum störfum var auglýst staða skrifstofustjóra Reglunnar og Halldór sótti um og fékk. ,,Hingað er ég kominn og líkar óskaplega vel,“ segir hann og bætir við að auðvitað sé hressandi að fást við allt annað en hann gerði á gamla vinnustaðnum. ,,Reyndar er Smith & Norland sérlega flott fyrirtæki og margt nýtt þar að gerast. Tækifærin eru mýmörg og gott að vita af framtíð fyrirtækisins í höndunum á nýju fólki í bland við eldra og snúa mér að öðru. Eina hættan var að ég myndi gera konunni grikk með því að hanga heima sem ég hef blessunarlega ekki þurft að gera. Hún hefur reyndar reynt af alefli að koma mér í golfíþróttina en ekki tekist enn,“ segir hann brosandi en bætir við að framtíðin verðir að leiða í ljós hvort henni takist ætlunarverk sitt. Halldór hefur verið formaður Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík undanfarin fjögur ár, og nýkjörinn til næstu tveggja ára en það félag var stofnað árið 1867 og er þriðja elsta félagið í landinu.
Oddfellow varð fyrir valinu
,,Ég var alltaf ákveðinni í að ég ætlaði ekki að hætta að vinna þegar ég hætti hjá Smith & Norland. Ég vildi umfram allt vera innan um gott fólk. Svo var skrifstofustjórastarfið hjá Oddfellow auglýst um síðustu áramót og þetta gekk upp. Hér þekki ég innviði vel eftir að hafa verið Reglubróðir í 22 ár. Starfslýsingin var ítarleg og ég gat merkt við flest boxin með góðri samvisku, sem dugði til að ég var ráðinn til næstu ára. Ég er vanur að vinna mikið og held því áfram því starfsemi Oddfellowreglunnar er gífurlega umfangsmikil sérstaklega á ákveðnum árstímum. Líknar- og hjálparstarf Reglunnar fer ekki hátt þótt það hafi vissulega breyst. Oddfellowreglan státar nú af um 4000 meðlimum. Fólk veit almennt ekki um að félagsskapurinn leggur til mikið fé á hverju ári til ýmissa góðgerðarverkefna. Sem dæmi um verkefni sem Oddfellowreglan hefur styrkt er viðbygging og endurgerð Ljóssins, uppbygging líknardeildarinnar í Kópavogi, stuðning við Alzheimer- og Parkinson samtökin, sem eru nú stödd í húsnæði St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, og gert var upp að mestu með sjálfboðaliðastarfi Oddfellowsystkina, uppbyggingu Hlaðgerðarkots auk fjölmargra verkefna sem rekja má allt aftur til byggingar holdsveikraspítalans í Laugarnesi 1898, sem síðar brann. Ég er afskaplega stoltur af því að vera þátttakandi í slíku mannúðar-, líknar- og félagsstarfi sem snertir líf gífurlega margra Íslendingar á einhvern hátt.“
Stoltur af sínu fólki
Halldór segir stoltur frá börnum sínum þremur sem hafa öll gengið menntaveginn en sá elsti er lögmaður, í
miðið stúlka sem er grafískur hönnuður og sú yngsta er með BSC í sálfræði. ,,Ég get ekki kvartað og tel mig mjög lánsaman í fjölskyldumálum. Barnabörnin fimm eru í ofanálag hvert öðru dásamlegra. Vissulega hefði hann hafa viljað verja meiri tíma með börnunum á uppvaxtarárum þeirra en sér nú tækifæri til að breyta um áherslur.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.