Völvur á Íslandi er ein af þeim bókum sem Hólar gefa út fyrir þessi jól. Hún er eftir Sigurð Ægisson, guðfræðing og þjóðfræðing, og er rúmlega 400 blaðsíður að stærð. Þar er m.a. fjallað um á sjöunda tug völvuleiða, sem finna má heimildir um víða um land. Hólmaháls er þar á meðal. Hér er brot úr þeim kafla:
Á Hólmahálsi, milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar, er þekktasta völvuleiði landsins nú um stundir og hefur reyndar verið það nokkuð lengi, ekki síst vegna tiltölulegra gamalla og nákvæmra frásagna sem tengjast því. Fyrstan er þar að nefna Jón Árnason (1819–1888) þjóðsagnasafnara, en í 4. bindi Íslenzkra þjóðsagna og ævintýra segir hann meðal annars og byggir þar á handriti Sigmundar M. Long (1841–1924), bóksala og fræðimanns: „Einu sinni var valva; hún var margkunnandi og fróð mjög. Ekki er getið um hvar hún hafi búið, en áður en hún dó bað hún að grafa sig þar í Reyðarfirði, sem bezt sæist til hafs og kvað Reyðarfjörður mundi ei af ræningjum unninn meðan sæist til leiðis síns. Var hún svo grafin á tanga þeim er verður út af Hólmatindi og Hólmanes er kallað og skiptir aðalfirðinum í Reyðar- og Eskjufirði; það er hálent og horfir sem bezt við hafi að orðið getur. Alfaravegur er yfir hálsinn og er leiðið rétt við hann; lítur það út sem græn hundaþúfa. Einu sinni komu ræningjar hér við land og ætluðu þá inn á Reyðarfjörð; en er þeir kómu í fjarðarkjaftinn sýndist þeim allt til lands að sjá sem eldur brennandi og urðu frá að hverfa (það hefur máské verið 1627 er rænt var á Djúpavog og Vestmannaeyjum); og það eignuðu menn ummælum völvunnar.
Ásmundur Helgason (1872–1948), útvegsbóndi, fræðimaður og rithöfundur frá Bjargi í Reyðarfirði, segir meðal annars þetta í grein frá 1945: „Á fjallseggjunum er Snæfuglinn. Af kolli hans er víðsýni mikið, og allgott að klífa upp á hæstu brún hans. Gamlir bændur sögðu, að það yrði að vera 5 stiga hiti á R. í byggð til þess, að ekki snjóaði á Snæfugl. Niður af Snæfuglinum í Krossaneslandi, sem snýr að Reyðarfirðinum, er alllangur hjalli, en ekki mjög breiður, í daglegu tali nú nefndur Valahjalli. Pabbi minn, sem var fæddur og alinn upp á Krossanesi, sagði mér, að sér hefði verið sagt, að hann héti Völvuhjalli. Hann sagði mér eftirfarandi sögu um tilefni nafnsins. Á hjallanum er rennisléttur grasflötur allstór. Þar er tóttarbrot nefnt Völvutótt. Þarna átti valva ein að hafa átt heima endur fyrir löngu. Skammt þaðan er tær uppsprettulind. Annars virðist nú
ekki vera þar mjög búsældarlegt. Þegar valvan fann burtfarartíma sinn úr heimi hér nálgast, bað hún þess, að hinar jarðnesku leifar sínar yrðu jarðsettar á einhverjum þeim stað, þar sem bezt væri útsýni yfir Reyðarfjörð. Ef það væri gert, sagðist hún skyldi sjá svo fyrir, að svo lengi sem nokkur flís af beinum sínum væri óbrotin, gæti engum útlendum reyfurum tekizt að ræna fólki, fénaði, eða fjármunum manna innan þess fjallahrings, sem umlykur Reyðarfjörð. Þetta var gert og líkama hennar valinn legstaður við veginn á Hólmahálsi, milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. Það eitt er víst, að hvergi í byggð sést betur yfir Reyðarfjörð en þar. Leiðið sést þar enn, grasi gróið við veginn og nefnist Völvuleiði. Þetta loforð völvunnar hefur þótt endast vel, sérstaklega þegar Tyrkir komu hingað til lands og rændu fjármunum og fólki og drápu marga menn á Austfjörðum nema á Reyðarfirði. Út af honum var svo sterkur norðvestan stormur, að skip þeirra og bátar, sem reyndu að ná þar landi, urðu frá að hverfa og hrakti til hafs. Þannig fóru þeir bónleiðir til búðar eftir margendurteknar tilraunir, sem þeir að sögn gerðu til að ná landgöngu við þennan stærsta fjörð á Austurlandi. Þá skal þess getið hér, sem satt er, að það var ofan við þennan hjalla, sem þýzka herflugvélin rakst á klettabelti um vornótt í maí 1941, og fimm menn fórust og vélin mölbrotnaði. Hvort valva sáluga hefur villt sendimönnum Hitlers sýn í sendiför þeirra til Austfjarða, verður ekki dæmt um af mér.
Sú þjóðsaga fylgdi jörðinni Krossanesi, að þar mætti ekki halda brúðkaupsveizlu, ef persónurnar hétu Guðrún og Jón. Ef það væri gert, hrapaði Múlinn (fjallið upp af bænum) ofan yfir bæinn. Árið 1878 voru hjónaefni á Krossanesi með þessum nöfnum, en vegna spádómsins þorðu þau ekki að gifta sig þar, heldur fengu að halda veizluna á öðrum bæ. Mér er saga þessi minnisstæð vegna þess, að ég var búinn að hlakka svo mikið til að fá að fara í veizluna, sem var mjög stutt frá, þar sem ég ólzt upp. En þegar veizlustaðurinn var færður um tveggja klukkutíma ferð um vondar skriður, dofnaði veizluvonin, og ég fór að spyrja mömmu mína, hvers vegna veizlan væri ekki haldin á Krossanesi. Þá sagði hún mér spásöguna um völvuna.“
Sigurbjörn Snjólfsson (1895–1980) frá Svínafelli í Hjaltastaðaþinghá, Norður-Múlasýslu, kvaðst í viðtali 25. janúar 1979 muna vel eftir því, að „gamla sagan“ hefði rifjast
upp fyrir mörgum eystra í og eftir fyrri heimsstyrjöldina, 1914–1918, og margir trúað því, að áhrínsorð völvunnar hefðu komið í veg fyrir árás Miðveldanna á Austurland, enda „var eiginlega ekkert sem gerðist …. í þessum landshluta ….“
Guðrún Sigurðardóttir (1883–1971), fædd á Birnufelli í Norður-Múlasýslu en alin upp á Eskifirði, sagði frá því í viðtali 13. júlí 1965, að þegar hún og önnur börn á hennar reki voru að ganga til spurninga inni á Hólmum, til fermingar, hafi þau alltaf stansað hjá völvuleiðinu og látið í þakklætisskyni fyrir vernd hennar í aldanna rás einhvern smápening í holu sem var í því. Á þeim árum lá vegurinn frá Eskifirði til Reyðarfjarðar skammt austan við leiðið. Guðni Jónsson (1891–1974), af Fossárdal í Berufirði, trésmíðameistari á Eskifirði, kvaðst í viðtali 9. júní 1969 einu sinni hafa komið að völvuleiðinu og „lét eins og margir góðir menn“ smápening í holuna. „Og ég hugsa nú,“ bætti hann við, „að [gjafirnar] hafi fengið að vera í friði, að það hafi verið það sterk trú á þessu, að það hafi ekki verið nokkur sem hafi látið sér detta í hug að fara að róta í leiðinu“ til að næla sér í þessa fjármuni.
Fram undir aldamótin 1900 áttu bæði Eskfirðingar og Reyðfirðingar sókn að Hólmum. Síðasta kirkja þar, byggð árið 1850, var þá orðin lúin, og árið 1899 var Hólmasókn skipt í tvennt og í framhaldi af því var Eskifjarðarkirkja byggð, árið 1900. Árið 1909 var jafnframt ákveðið að leggja niður kirkju á Hólmum og byggja nýja í hinu þá ört stækkandi þorpi á Búðareyri við Reyðarfjörð. Talið er að síðasta messa hafi verið sungin á hinum forna kirkjustað 4. sunnudag í föstu 1911. Siðurinn, að láta einhverja aura af hendi rakna til konunnar fornu lagðist þó ekki af, ekki heldur þótt akvegurinn væri síðar
færður í tvígang neðar í Hólmahálsinn og þar með í átt frá leiðinu. Eftir að menn hlóðu vörðu hjá eða yfir staðnum á árunum 1960–1970, voru peningarnir lagðir við rætur hennar, suðvestan megin. Hún var síðan endursköpuð í maí 1998, þegar hin eldri var farin að láta á sjá. Að því stóðu tveir kennarar á Eskifirði, Friðrik og Þórhallur Þorvaldssynir, og nemendur þeirra í 9. bekk grunnskólans þar.
Að auki hefur tíðkast, allt fram á 21. öld, þótt ekki fari það hátt, að fólk eigi gjarnan stund við leiðið og biðji þá völvuna um huggun og styrk í ýmiskonar raunum, bæði fyrir sig og ástvini.