Logi Geirsson sonur Geirs Hallsteinssonar handboltakappa skrifar afmælisgrein um föður sinn sjötugan á Facebook í gær. Þar segir hann föður sinn vera einstakan mann og fyrirmynd. Það hafi verið forréttindi að fá að læra af slíkum manni, sem setji fjölskylduna ævinlega í fyrsta sæti.
Það sést kannski ekki á þessari mynd sem var tekin fyrir 2 árum en þarna heldur móðir mín í hann eins og klett um það leiti sem heilasjúkdómurinn var að ná yfirhöndinni á henni. Þarna var hún hætt að rata og fleira furðulegt dundi yfir hana. Í dag er hún bundin 24/7 í hjólastól og komin á Hrafnistu. Pabbi er mættur þangað alla daga, sækir hana og fer með hana á rúntinn og oft á tíðum margar klukkustundir. Hann gengur með hana heim á heimilið þeirra á Sævang og lætur hana sitja í garðinum að fylgjast með öllum barnabörnunum vaxa úr grasi. Að eignast stóra fjölskyldu var draumurinn hennar. Pabbi málar mömmu, setur á hana naglalakk, fæðir hana og klæðir og ver með henni öllum stundum sem hann getur þrátt fyrir að hún geti ekkert tjáð sig. Þetta er sönn ÁST. En ástin er svona eins og vindurinn, þú sérð hann ekki en þú veist að hann er þarna.
Færslan er nokkuð löng og þar segir meðal annars
Fyrir ykkur vini mína hérna sem þekkið hann ekki persónulega. Hann fæddist 7. ágúst 1946 og fékk nafnið Geir Hallsteinsson. Faðir hans Hallsteinn Hinriksson stofnaði Fimleikafélag Hafnarfjarðar FH 1929 og fékk viðurnefnið Faðir Handknattleiksins á Íslandi. Móðir hans Ingibjörg tók ekki síður þátt og um tíma var heimili þeirra hjóna á Tjarnargötu félagsheimili FH. En Amma teiknaði einmitt FH merkið. En faðir minn er þvílíkur gæðamaður, alltaf til staðar fyrir okkur og setur fjölskylduna í fyrsta sæti. Það eru forréttindi að fá að læra af slíkum manni, gildi sem fylgja manni út lífið. Hann átti eftir að verða fyrsti atvinnumaðurinn í Handknattleik og var það árið 1973 sem hann samdi við þýska stórliðið Göppingen sem staðsett er í vestur Þýsklandi. Hann hefur unnið 19 Íslandsmeistaratitla sem leikmaður og þjálfari og á ótrúlegan feril að baki. Hann hefur verið valinn Íþróttamaður Íslands, verið Fánaberi á Ólympíuleikum svo eitthvað sé nefnt. Það er eitt að vera magnaður íþróttamaður og var gerð heimildarmynd um hann sem heitir “ Að láta boltann tala “ en það var sagt að hann væri svo fær með boltann að eina sem hann átti eftir að gera væri að láta hann tala.
Logi segir að einhverjum finnist afmælisgreinin ef til vill skrifuð í skrýtnum stíl, en það sé ástæða fyrir því.
Undanfarið hafa verið margar fréttir af sviplegum andlátum í samfélaginu okkar. Svo les maður minningargreinar á facebook eða blöðunum og hugsar væri ekki gaman að leyfa fólki að lesa minningargreinina sína lifandi? Það sem ég á við er að hrósa fólki og segja við það hversu vænt ykkur þykir um það þegar það er lifandi og jafnvel deila og minnast góðra minninga og hlægja saman áður en það verður of seint! Það er enginn eilífur. Það er alltof oft sem við gleymum okkur í amstri dagsins í dag og gleymum líðandi stundar. Bestu hlutirnir í lífinu eru ekki hlutir. Ég var í brúðkaupi í gær, sem rennur mér seint úr minni enda var það einstakt af svo mörgu leiti. Það var einn maður í brúðkaupinu sem oft er mikið talað um í fjölskyldunni og alltaf jákvætt. Hvað hann sé frábær manneskja og góður maður, gefur mikið af sér og fólk getur leitað til hans. Ég gekk upp að honum og sagði honum það. Hvernig á hann annars að vita það? Ég get lofað þér því að það er fátt í þessum heimi sem gleður fólk meira en að gefa þeim hrós eða segja hreinlega hversu vel einstaklingurinn þér reynist
Grein Loga í heild má sjá hér.