Duttu í sumarbústaða lukkupottinn

Bústaðurinn er á tveimur hæðum

Valdimar Örnólfsson og Kristín Jónasdóttir njóta efri áranna í góðu skjóli og dásamlegu umhverfi. “Við þurftum ekki á sumarbústað að halda lengi vel þar sem við búum svo vel hér í Bláskógum með stóran garð,” segir Kristín. “Garðurinn hér hefur alveg fullnægt þörfum mínum fyrir að hamast í gróðrinum og þegar kom að því að finna stað fyrir sumarbústað völdum við stað þar sem við þurftum ekki að standa í garðrækt þar sem á sumarbústaðalóðinni er mikill skógur,” segir Valdimar. Þau hjónin eiga þrjá syni og þau segja að þeir hafi rekið upp stór augu þegar þau tóku til við sumarbústaðabyggingu um sjötugt. Kristín hætti að vinna 68 ára gömul en fram að því hafði hún verið að vinna í Félags- og þjónustumiðstöðinni í Hvassaleiti. Valdimar hætti ekki fyrr en í fyrra að þjálfa hóp karla sem hann hefur fylgt eftir lengi vel. Hann segir að skíðaiðkunin hafi tekið sinn toll því hnén hafi gefið sig svo hann þurfi að fara varlega hér eftir.

Höfðu verið í snjó allt árið

Valdimar kennir einu barnabarna þeirra Kristínar, Þráni Örnólfssyni, á gítarinn.

Eins og mörgum er kunnugt varði Valdimar flestum sumrum í snjónum í Kerlingarfjöllum á árum áður. Kristín var þá gjarnan með honum svo þau segjast hafa verið allt árið meira og minna í snjó í mörg ár. Helgina eftir að viðtalið var tekið var Valdimar á leiðinni upp í Kerlingarfjöll þar sem átti að heiðra hann fyrir störf hans í fjöllunum á fjallaskíðamóti sem stóð fyrir dyrum.

Kristín heldur glæsiveislu í bústaðnum.

“Okkur var því farið að langa í græna litinn og ég hét því að þegar Kristín yrði sjötug ætlaði ég að gefa henni lóð undir sumarbústað,” segir Valdimar en þau eru núna 85 og 86 ára. “Við skoðuðum sumarbústaðalóðir vítt og breitt og duttum að endingu niður á þetta dásamlega land í Húsafelli. Þar var mikill skógur en ekki hávaxinn og við þurftum ekkert að gera til að gera landið hlýlegt,” segir Kristín, “og svo var þar heitt vatn sem okkur þykir ómetanlegt.” Þau fengu frábæran smið í Borgarnesi, Eirík Ingólfsson, til að reisa húsið fyrir þau á einu sumri og Valdimar segir brosandi frá því að þá hann hafi búið svo vel að hafa innanhússhönnuð sér við hlið sem sé Kristín. Hún hafi hannað og valið allt innanhúss svo vel að fagmaður hefði ekki gert það betur. “Ég var hætt að vinna og hafði óskaplega gaman af að velja og kaupa inn allt sem við þurftum á þetta nýja heimili okkar,” segir Kristín. Hún ákvað að nýta allt heita vatnið og leiða það undir gólfin. “Það er ómetanlegt að stíga fram úr á heit gólfin á köldum vetrardögum. Við notum bústaðinn allt árið og höfum t.d. verið þar um jól og páska. Eitt árið héldum við jólin þarna bara tvö ein. Það var líka rosalega notalegt,” segja þau brosandi.

Jöklar skipa stóran sess í lífi hjónanna

Útsýnið úr sumarbústaðnum er engu líkt en þaðan sjá þau upp í Eiríksjökul, Langjökul og Ok. Þau Valdimar og Kristín segjast eiginlega

Valdimar nýtur lífsins á pallinum.

alltaf hafa verið umkringd jöklum, fyrst í Kerlingarfjöllum og nú í sumarbústaðnum. Bústaðurinn hefur verið kallaður Gullmolinn sem Valdimar er hæstánægður með en Kristín ekki alveg eins sátt við. Hún segir að nafnið gefi til kynna að þetta sé einhver höll sem bústaðurinn er ekki þótt hann sé mjög fallegur og notalegur. Kristín segir brosandi að hún hafi áttað sig á að nafnið Gullmolinn væri óðum að festast þegar yngsta barnabarnið þeirra, Valdimar Kári, hafi spurt þau um daginn hvort þau væru að fara í Gullmolann.

Glæsilegur hópur þeirra Valmdimars og Kristínar er orðinn mannmargur.

Samveran og notalegheitin

Lífsstíll Valdimars og Kristínar hefur alla tíð verið á hreyfingu. Skíðin áttu hug þeirra lengi vel og nú gæta þau þess vel að halda sér á hreyfningu þótt í minna mæli sé. “Það er svo ómetanlegt að eiga svona athvarf sem sumarbústaður er á meðan maður heldur heilsu,” segir Valdimar en þau hafa notið sveitaverunnar til hins ítrasta. “Við vorum mjög dugleg við að fara í gönguferðir í Húsafelli fyrstu árin og mér hefur alltaf fundist ég vera að fara í ævintýraferð í hvert sinn sem við förum í sveitina,” segir Kristín. “Eins var það þegar við vorum að fara í Kerlingarfjöllin. Hver ferð var ævintýraferð.” Þeim ber saman um að tilhlökkunin sé einn af göldrunum við að eiga ánægjuleg efri ár. “Það er svo mikilvægt að hafa eitthvað til að hlakka til,” segja þau. “Sumarbústaðurinn er 110 fermetrar, nógu stór til að allir rúmast þótt þröngt geti verið þegar allir eru,” bæta þau við og segjast njóta þess að hafa allt sitt fólk hjá sér í sveitinni.

Heita vatnið ómetanlegt

Þeim Valdimari og Kristínu ber saman um að heita vatnið sé mikll bónus við annars fábæra staðsetningu sumarbústaðar þeirra. “Við

Potturinn er vel nýttur bæði af þeim eldri og yngri.

komum okkur upp potti og ég nota hann mikið en Kristín minna,” segir Valdimar. Hann fer í pottinn  kaldan á morgnana en vel heitan um eftirmiðdaginn.

Fyrir utan að hafa dásamlegan bústað á sumarbústaðalandinu er þar mikið berjaland og stutt að fara í góðan berjamó. Það er deginum ljósara að Valdimar og Kristín duttu í sumarbústaðalukkupottinn og njóta nú efri áranna í góðu skjóli frá náttúrulegum gróðri í dásamlegu umhverfi.

Ritstjórn júní 8, 2018 08:16