Tengdar greinar

Hafa fráskildir afar og ömmur minni tíma fyrir barnabörnin?

„Afar og ömmur nútímans hafa oft minni tíma fyrir fjölskylduna en áður var. Það á sérstaklega við um fráskilda afa og ömmur. Þegar leiðir þeirra skilur, getur það haft neikvæð áhrif fyrir  barnabörnin“. Þetta kemur meðal annars fram í grein á norska vefnum Vi over 60, sem fylgir hér stytt og endursögð.

Fjölskylduráðgjafi, sem rætt er við í greininni, segir nútíma afa og ömmur uppteknari af  eigin lífi en fyrri kynslóðir. Þau hafi minni tíma fyrir fjölskylduna og séu oft í fullu starfi. „Þau er upptekin við að lifa lífinu og gera ýmislegt sem þau langar til, sem getur orðið til þess að barnabörnin fá minni tíma“, segir í greininni. Og þetta gildir ekki síst um afa og ömmur sem eru að skilja. Ef þau gera það getur það haft neikvæðar afleiðingar fyrir  barnabörnin.

Barnabörnin skipta ekki jafn miklu máli

Vitnað er í bandaríska rannsókn í greininni  þar sem fram kom að fráskildir afar og ömmur leggja minna upp úr sambandinu við barnabörnin, en þau pör sem halda saman. Rannsóknin sýndi að  fráskildir afar og ömmur höfðu minna samband við barnabörnin og gerðu minna með þeim. Þeir sem voru fráskildir fannst þeir heldur ekki jafn tengdir barnabörnunum, voru ólíklegri til að vera félagar þeirra og lentu jafnvel frekar í árekstrum við þau, en giftir afar og ömmur.

Það skiptir meðal annars máli í þessu sambandi að afarnir eða ömmurnar sem fara í ný sambönd, þurfa nú að sinna tveimur fjölskyldum og deila tíma sínum milli þeirra. Annar fjölskylduráðgjafi sem rætt var við segir að þó afar og ömmur eigi sannarlega rétt á að lilfa eigin lífi eins og þeim sýnist séu fleiri hliðar á málinu „Þau hafa eftir sem áður tækifæri til að skipta máli í lífi barnabarnanna. Þau bæði eiga og geta  haldið áfram að gera það þótt aðstæður breytist“.

Skapar óöryggi ef afi og amma skilja

Það getur skapað rugling og óöryggi og grafið undan stöðugleikanum í fjölskyldunni þegar leiðir skilur hjá ömmu og afa. Norsk rannsókn sýnir að neikvæðar afleiðingar skilnaðar fyrir börn geti að ýmsu leyti verið meiri þegar afar og ömmur skilja en þegar foreldrarnir gera það.  En það skiptir máli fyrir samband barnabarnanna við afa og ömmu hvernig skilnaðinn ber að.  Ef skilnaðurinn varð áður en barnabörnin fæddust, þekkja þau ekkert annað. Þá er það sambandið milli foreldra þeirra og ömmu og afa sem hefur áhrif á það hvort afleiðingar skilnaðarins verða neikvæðar.

Minna samband við afa

Það skiptir sem sagt máli hvernig samband foreldra barnabarnanna og ömmu og afa er hvort skilnaðurinn var erfiður og deilurnar illvígar. Og líka hvernig foreldrar barnabarnanna hafa tekist á skilnað sinna foreldra.

Nýir kærastar eða kærustur geta gert málin flóknari og það skiptir máli hvort afi eða amma voru búin að hitta núverandi félaga áður en til skilnaðarins kom.

Samband afa og ömmu við uppkomnu börnin sín, foreldra barnabarnanna, er lykillinn að sambandinu við barnabörnin og grundvöllur að góðum tengslum við þau. Og þá kemur að muninum á milli hlutverka afa og ömmu. Norsk rannsókn sýnir nefnilega að tengsl afa barnabörnin minnka þegar hann er ekki lengur kvæntur ömmu þeirra.

Ekki einungis neikvætt

En skilnaður afa og ömmu getur líka haft jákvæðar hliðar. Ef samband þeirra fráskildu við foreldra barnabarnanna er gott, getur skilnaður haft ýmislegt jákvætt í för með sér. Það gildir til dæmis ef amma eða afi hafa eignast nýja sambýlinga, sem vilja gjarnan verða stjúpafar eða ömmur.

Í lok greinarinnar eru gefin nokkur góð ráð um það hvernig fráskildar ömmur og afar geta haldið góðu sambandi við barnabörnin.

  • Ræðið skilnaðinn við barnabörnin og útskýrið fyrir þeim af hverju þið skilduð. Sannfærið þau um að þau muni áfram gegna mikilvægu hlutverki í lífi ykkar og að ykkur þyki ótrúlega vænt um þau.
  • Ömmur og afar bera aðalábyrgðina á sambandi sínu við barnabörnin. Komið fram við þau eins og áður. Bjóðið þeim að gera eitthvað skemmtilegt með ykkur og heimsækið þau.
  • Afar og ömmur þurfa að ganga svolítið í augun á barnabörnunum. Kannski geta þau mætt barnabörnunum á heimavelli. Tekið þátt í áhugamálum þeirra, skutlað þeim í íþróttir og heim aftur. Það er mikilvægt að mæta þeim þar sem þau eru stödd og eiga með þeim ánægjulegar stundir.
  • Leggið eigin tilfinningar til hliðar og látið ekki andstöðu við fyrrverandi makann bitna á barnabörnunum, afmælum þeirra, fermingum, útskriftum og öðru slíku.
  • Talið ekki illa um afann eða ömmuna sem þið skilduð við, í áheyrn barnabarnanna.
  • Leggið áherslu á að hafa eins gott samband og auðið er við foreldra barnabarnanna.
Ritstjórn nóvember 10, 2022 07:00