„Ný lög um lífeyrisréttindi voru samþykkt á Alþingi fyrir nokkrum vikum. Mig grunar að margir sem þar réttu upp hönd eða réttara sagt ýttu á græna takkann hafi ekki vitað hvað þeir voru að samþykkja,“ segir Arnór G. Ragnarsson í grein í Morgunblaðinu. Hann tekur dæmi af sjálfum sér.
„Málið er mér skylt því ég fæ í dag 48.500 krónur í lífeyri en hann mun hækka í 77.631 krónur um áramót. Þakka skal fyrir það en einhverjum mun þó þykja nóg um hve vel er í lagt. Það gerist einnig við lagabreytinguna að frítekjumark gamlingjanna var lækkað úr 100 þúsund kr. á mánuði í 25 þúsund kr. og skerðing sett á ellilífeyrinn sem gerir það að verkum að nú munu eldri borgarar hugsa sig vel um áður en þeir bjóða sig fram til vinnu.
Ég set hér upp einfalt dæmi: Lífeyrisþeginn ræður sig í hlutastarf upp á 100 þúsund kr. á mánuði. Þar af eru 75 þúsund kr. yfir frítekjumarki. Það þýðir að ellilífeyririnn lækkar um 33.750 krónur og svo þarf að borga skatt af 100 þúsund kallinum sem er 37.000 kr. Þá eru eftir 29.750 krónur fyrir vinnuna en ríkið „fær“ 70.250 krónur.
Á ársgrundvelli eru það 756 þúsund kr. Eftir áramót koma aðseins 357.000 kr. í vasa lífeyrisþegans. Ég velti því fyrir mér hvernig svona ákvarðanir eru teknar. Af hverju mega ellilífeyrisþegar ekki drýgja tekjur sínar? Arnór bendir á að eldra fólk þurfi að kaupa mat og aðrar nauðsynjar. „Við þurfum að borga í Íbúðalánasjóð, greiða fasteignagjöld, hita og rafmagn og við þurfum að eiga bíl og reka hann. Síðast en ekki síst þurfa margir eldri borgarar á lyfjum sínum að halda.
Mig grunar að eldri borgarar láti ekki bjóða sér svona niðurlægingu og hverfi af atvinnumarkaðnum um áramótin,“ segir Arnór enn fremur í grein sinni í Morgunblaðinu.