Brosað gegnum tárin

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

 

„Ef ég get átt notaðan mann þá get ég líka átt notað hús,“ sagði kona einu sinni við mig. Hún hafði gifst ekkjumanni sem átti nokkur börn á unglingsaldri og flutt inn í húsið þar sem fjölskyldan bjó.

„En hefur þú þá ekki breytt miklu?“ spurði ég og horfði í kringum mig. Sumt var gamalt annað nýtt.

„Nei. Ég ákvað að láta bara breyta þegar endurnýjunar er þörf. Það er nóg fyrir börnin að hafa misst mömmu sína og fá heim til sín aðra konu þótt ekki verði farið að snúa öllu á hvolf á heimilinu,“ svaraði konan.

Ég hef alla tíð síðan dáðst að skynsemi þessarar konu og góðviljuðu hugarfari. Það er heldur ekki að orðlengja það að þessari fjölskyldu farnaðist vel undir stjórn hinnar nýju húsmóður. Börnin þrifust og maðurinn varð hamingjusamur í sambúðinni – það sýndi reynslan eftir því sem árin liðu.

Ég lærði talsvert af þessu samtali. Mér varð ljóst að fólk má ekki hugsa of mikið um sjálft sig þegar það tekur við börnum sem hafa orðið fyrir sorg eða hörmungum. Barnið þarf að hafa forgang.

En hitt er svo annað mál að það er heldur ekki rétt að láta allt eftir börnum sem hafa misst – þau þurfa sinn ramma eins og önnur börn. En sá rammi má ekki vera smámunasamur eða fjandsamlegur heldur myndaður af góðvild og hlýju.

Um hátíðar rifna oft upp hjartasárin sem fólk hefur orðið fyrir vegna ástvinamissis. Tilfinningarnar verða því gjarnan blandnar angurværð sem fylgir gleðinni eins og skugginn. Þetta er erfitt viðgerðar. Kannski er best að játa bara vanmátt sinn, vera ekki að streða við að vera glaður eins og áður fyrr heldur gefa angurværðinni sitt rúm. Hún tekur þá yfir öðru hvoru en smám saman þokar hún fyrir nýrri tilfinningu, dýpri gleði heldur en viðkomandi einstaklingur hefur áður fundið í hjarta sínu. Gleðinni yfir að hafa átt gott líf og eiga það í raun enn – aðeins blandið angurværð erfiðrar reynslu.

Börn og barnabörn sem hafa orðið fyrir missi eiga að fá að tala um það sem inni fyrir býr. Það er heppilegt að leyfa þeim að ræða um það sem var og það sem er. Jafnvel bera það saman – þótt það sé nútíðinni í óhag um tíma. Með því að tala, fá erfiðar tilfinningar útrás. Sá sem er svo lánsamur að eiga trúnað þeirra sem hýsa sorg á að hlusta vel. Ekki segja: „Nú er þetta allt að baki og ekkert vera að hugsa um það. Nú skaltu bara gleyma og njóta gleði.“ Því svona einfalt er sálarlífið ekki. Það þarf að hreinsa út það sem kvelur eða særir. Öðruvísi fær viðkomandi einstaklingur ekki hugarró. Og þetta tekur tíma.

Önnur kona sagði mér í jólaveislu frá reynslu sinni, hörmulegri sorg sem hún sjálf varð fyrir sem barn.

„Við systurnar misstum á barnsaldri báða foreldra okkar í slysi. Móðursystir mín tók okkur að sér. Hún var barnlaus sjálf. Hún syrgði systur sína sárt, þær höfðu verið nánar. Ég var orðin fullorðin þegar mér varð ljóst hve mikinn sálarstyrk hún hafði. Slysið varð skömmu fyrir jól. Þrátt fyrir eigin djúpa sorg þá gladdi hún okkur litlu systurnar með því að leyfa okkur að undirbúa jólin af miklum dugnaði. Við bökuðum, skreyttum og hjálpuðum til að þrífa. Þetta gerði hún með þeirri rósemd sem gaf okkur gleði – þótt við grétum líka. Þeim jólum gleymi ég aldrei. Þá skiptust sannarlega á gleði og sorg á jólahátíðinni,“ sagði konan.

Samheldni og virðing fyrir tilfinningum annarra – ekki síður en sjálfs sín – skapar þeim sem syrgja saman það sem við köllum svo fallega að „brosa gegnum tárin“. Smám saman þokar svo sorgin og mýkist þar til hún loks verður aðeins undirtónn hátíðargleðinnar en nýtt og kröftugt líf tekur völdin.

 

Guðrún Guðlaugsdóttir desember 23, 2017 19:58