Dauða stríðið

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar      

Kæru vinir. Í dag komum við saman og minnumst okkar framliðna bróður, Sveins Hanssonar. Víst er að með Sveini er genginn mætur hæfileikamaður sem að mörgu leyti var samferðafólki til gleði og gagns á lífsgöngunni. En því miður var hann hrjáður af hinum illvíga sjúkdómi alkahólisma. Sú byrði var þung, ekki síst fyrir fyrir aðstandendur hans. Sjúkdómurinn var þeim þungur kross að bera, því er kveðjustundin þeim blendin. Fjölskyldan á skiljanlega erfitt með að gleyma þeim hremmingum sem fórnarlamb sjúkdómsins, olli þeim. Það var ekki fyrr en Sveinn heitinn hafði, með aðstoð fagfólks, sett tappann í flöskuna að hinn raunverulegi Sveinn Hansson kom í ljós. Sumir aðstandendur hans höfðu raunar aldrei kynnst honum áður sem slíkum, aðrir áttu aðeins óljósa minningu um hann. Þess ber þó að geta að þeir eru ólýsanlega þakklátir fyrir að hafa átt ánægjustundir með hinum látna eftir að hann lét af drykkju sinni.“

Ég hef nokkrum sinnum setið með undrunarsvip undir útfararræðum af þessu tagi og hef síðan velt þessum „uppgjörsræðum“ við jarðarfarir fyrir mér. Skil ekki hvaða tilgangi þær þjóna og hverjum skíni gott af að verri hliðar hins látna séu, undir formerkjum sjúkdóms, tíundaðar svo rækilega við útför hans.

Ég minnist þess ekki að hafa heyrt geðveikt fólk, alsheimersjúklinga, heilaskaðaða eða aðra sem hafa breytta hegðun vegna sjúkdóms kvadda á þennan hátt. Af hverju þá alkahólistar?

Ef aðstandendur vilja endilega lýsa verri hliðum hins látna ættu þeir kannski að láta jarða hann í kyrrþey. Opinber útför virðist varla heppilegur vettvangur fyrir aðstandendur til að gera upp sakir við hinn látna, hvað svo sem ástvinirnir hafa haft upp á hann að klaga í lifanda lífi. Óviðkunnanlegt er að breyta kirkjum á þennan hátt í dómsali.

Ég sé heldur ekki hverju slíkt skilar. Hinn látni er annað hvort farinn á fund feðra sinna og er þá væntanlega upptekinn með þeim í öðrum víddum. Nú – eða þá að hann fer alls ekki neitt, heldur er líkamshylkið búið að þjóna sínu hlutverki og ekkert framundan annað en moldin, mjúk og brún.

Prestar undirbúa oftast minningarorð um látið fólk með spjalli við aðstandendur sem lýsa þá hinum látna að vild. Ef illa er um hann talað er hann varnarlaus. Við slíkar aðstæður ættu prestar að muna að mál hafa margar hliðar. Tilfinningarót skapast oft við andlát og getur jafnvel valdið dómgreinarbresti hjá eftirlifendum. Illt umtal aðstandenda um látinn ástvin gefur tilefni til að ræða líka við aðra sem fjær standa.

Það fólk sem leggur áherslu á láta prest segja frá verri hliðum látins ástvinar við útför hans á kannski mest erindi við sálfræðing. Þar er vettvangur til að gera upp sársaukafullar minningar. Sviðsetning fjölskylduharmleikja við útför er vægast sagt óþægileg fyrir kirkjugesti. Þeir koma yfirleitt til að sýna hinum látna virðingu og ástvinum samúð en ekki til að verða vitni að einhvers konar „dauða stríði.“

 

Guðrún Guðlaugsdóttir febrúar 22, 2016 11:29