Ætar jólagjafir og óætar

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

gudrunsg@gmail.com

 

„Þessi jólin er ég að hugsa um að gefa sem flestum í jólagjöf eitthvað sem hægt er að borða,“ sagði ein ágæt kona þegar við drukkum saman kaffi um daginn.

„Já – það er sniðug hugmynd. Þá safnast ekki upp dót hjá fólki sem það vill kannski ekki eiga,“ sagði ég.

„Einmitt,“ svaraði hún og kinkaði kolli ánægð með sína ákvörðun.

En þegar konan var farin fór ég að hugsa um ætar jólagjafir. Hvað þýddi slíkt? Því lengur sem ég velti þessu fyrir mér því efasemdarfyllri varð ég. Það var nefnilega ekki hægt að gefa öllum sama matinn. Fólk hefur misjafnan og jafnvel breytilegan matarsmekk.

Sumir vilja ekki kjöt, aðrir vilja ekki kökur, enn aðrir vilja ekki sælgæti eða hnetur og til eru þeir sem þola ekki ýmsan mat vegna ofnæmis – þannig mætti telja.

Í raun sýnast því vera þarna ýmis ljón á veginum. Og jafnvel þótt maður vildi nú vera ofboðslega myndarlegur og baka eitthvað fyrir alla eftir bestu vitund þá er alls ekki gefið að það sem einu sinni var í uppáhaldi sé það núna. Tímarnir breytast og mennirnir með.

Almennt virðist mér val á gjöfum að ýmsu leyti orðið vandasamra en það var. Margir aðhyllast minimalisma og vilja ekki neitt nema það sem þeir sjálfir kjósa og passar að þeirra mati við það sem fyrir er á heimilinu. Sumir vilja ekki bækur, einkum þeir sem yngri eru. Eigi þeir bækur, t.d. frá skólaárum, þá eru þær gjarnan til hliðar í hornum og afkimum, það er af sú tíð að það þyki bera vott um reisn heimilis að eiga í stofunni ritsöfn þekktra höfunda – hvað þá kiljur.

Hin íhugula og æ fyrirferðameiri nýtingarstefna einfaldar ekki málið. Það þykir bera vott um samfélagslega ábyrgð að nýta til fulls allt sem til er og kaupa jafnvel fremur gamalt en nýtt. Slíkt er vandasamt. Það gefur líka auga leið að ekki er vel séð að kaupa fyrir svo rétthugsandi fólk eitthvert dót sem framleitt er kannski í „burtistan“ af illa launuði fólki sem vinnur alltof langan vinnudag.

Þá má nefna til sögunnar fólk sem býr sjálft til jólagjafir. Það er að mínu mati mjög virðingarvert en fyrir utan heimaprjónaða sokka, vettlinga og trefla þá er ekki á vísan að róa hvað hentar hverjum og einum. Sumir vilja ekki ull, aðrir ekki gerviefni og þannig mætti telja.

Nú – þá er eftir að nefna „menningarlegar gjafir“ – svo sem gjafakort í ákveðin leikhús, miða á tónleika eða í bíóhús – jafnvel málverk eða myndir. En aftur kemur upp sama hugsunin; vill viðkomandi eiga þetta málverk, sjá leikrit, hlusta á tónsmíðar eða fara í bíó?

Þrautaráðið er þá oft plastkort frá banka, stórum verslunarkjörnum eða frá sérverslunum. Fyrir mína parta þá finnast mér slíkar gjafir dálítið ópersónulegar á jólum. En þær nýtast gjarnan vel og eru oft heppilegar þegar safnað er saman í myndarlega gjöf svo sem á stórafmælum.

Eftir að hafa velt kaffibollanum nokkrum sinnum milli handanna og látið allar þessar hugsanir renna í gegnum heilabúið þá stóð ég upp með velþekkta tilfinningu í sálinni – löngun til að gefa gjöf sem ég sjálf myndi vilja fá. Það er sú „gjafastefna“ sem ég hef oftast fylgt – hvort sem gjöfin er æt eða óæt. Ætli ég feti ekki áfram þá braut. – En ég verð þó að viðurkenna að hillur í verslunum á borð við Góða hirðinn, Samhjálp og fleiri „second hand“ búðir bera þess ljósan vott að margir losa sig við ýmislegt (oftast óætt) sem ekki er talið passa eða ekki kemst fyrir. Mín stefna er því ekki endilega hin rétta gjafastefna – enda slík stefna sennilega alls ekki til.

 

Guðrún Guðlaugsdóttir desember 5, 2022 10:26