Skotthúfan sem grét

 

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

gudrunsg@gmail.com

Heimþrá er merkilegt fyrirbæri. Fólk fer í burtu en langar svo heim – og skilur svo kannski ekkert í hvers það var að sakna. Þetta er „heitt mál“ núna – æði margir sem komnir eru á eftirlaun setjast að erlendis, tímabundið eða til langframa, einkum þar sem sól skín glatt og hlýtt er á veturna.

Þjóðernisvakning er vaxandi viðfangsefni stjórnmálamanna nú um stundir og það kemur greinilega ekki til af engu. Svo undarlega vill þó til að á sama tíma á ýmislegt það sem flokkast undir ættjarðarást og þjóðernistilfinningu heldur undir högg að sæka, að minnsta kosti hér á landi.

Til dæmis velti ég stundum fyrir mér örlögum íslenska þjóðbúningsins. Mér finnst hann orðinn æði fjarlægur fólki, ekki síst þeim sem yngri eru. Móðuramma mín saumaði þjóðbúninga, lærði það sem ung stúlka hjá fínni saumakonu fyrir vestan. Ég á upphlut sem amma saumaði á mig þegar ég var kornung stúlka. Fyrstu árin notaði ég upphlutinn á aðfangadagskvöldi og einstaka sinnum endranær. Nú nota ég hann aldrei. Mér þykir samt vænt um upphlutinn minn. Ég erfði og ýmislegt fleira tengt íslenskum búningum og bý meðal annars svo vel að eiga nokkrar skotthúfur.

Vinkona mín góð, sem býr að mestu erlendis, fór fyrir nokkrum árum til Vesturheims í kurteisisheimsókn og fékk lánaðan upphlutinn minn til að skarta þar. Eftir kynni hennar af honum ákvað hún að koma sér upp slíkum búningi sjálf. Hún lét sauma á sig upphlutinn, skyrtu, svuntu og heljarmikið pils. Hins vegar vantaði hana skotthúfuna.

Hún spurði mig hvort ég væri tilleiðanleg til að selja henni skotthúfu frá ömmu, hennar húfur væru fylltar upp að framan og ekki kollhúfulegar eins og ýmsar aðrar skotthúfur. Ég hugsaði málið og lét svo eina af skotthúfum ömmu fala. Kaupin voru gerð og fór umrædd kona með húfuna til sinna útlendu heimkynna.

Segir svo ekki af skotthúfunni fyrr en morgunn einn að vinkona mín hringir og segir mér þau tíðindi að skotthúfan gráti svo mikið inni í skáp hjá sér að henni sé ómögulegt að hafa hana lengur. Vilji hún því koma skotthúfunni sem fyrst til mín aftur. Ég varð steinhissa og vildi endurgreiða skotthúfuna. Vinkonan vildi hins vegar að ég saumaði á hana skotthúfu, líka hinni en nýja, svo hún myndi þola við erlendis ógrátandi.

Ég var svo heppin að fá keyptan silfurhólk, steyptan með fínlegu munstri og fyrir ekki minni tilviljun datt ég ofan á fullgerða skotthúfu, nýja sem ekki þurfti að breyta. Þannig leystist „skotthúfumálið mikla“.

Af þessu tilefni tók ég að hugsa um hið íslenska þjóðerni. Úr því ein gömul skotthúfa getur grátið svo mjög í fjarlægu landi að henni er skilað heim til Íslands – hve erfitt hlýtur þá ekki að vera að búa langtímum saman, fjarri heimahögum sínum og æskuslóðum. Erlend kona sem flutt hafði hingað með íslenskum eiginmanni sínum sagði við mig: „Heimþrá batnar ekki með tímanum – hún versnar“.

Samkvæmt þessu má ætla að íslenska ættjörðin og það sem henni tengist sé ýmsum dýrmæt – þrátt fyrir rigningu, kjaradeilur og dýrtíð. Því ætti kannski eldra fólk sem ákveður að flytja til útlanda að hafa vaðið fyrir neðan sig og tryggja sér athvarf á Íslandi – það er aldrei að vita nema það hljóti örlög hinnar „grátandi skotthúfu“.

Guðrún Guðlaugsdóttir júlí 30, 2018 11:06