Sérhæfð heimilisþjónusta

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar        
Fyrir nokkru sagði frá því í fjölmiðlum að ömmur í Suður-Kóreu hefðu það svo skítt að þær yrðu að selja sig til þess að eiga fyrir næstu máltíð. Þetta sorglega ástand er sagt komið til vegna þess að ekki hefur verið hugsað fyrir lífeyrisréttindum fyrir eldri konur. Og svo hitt að börnin, sem áður sáu fyrir öldruðum foreldrum eru nú hætt því, vegna þess að fjárhagsleg staða þeirra sjálfra leyfir það ekki. Svo slæmt er það nú ekki orðið hér á landi. Hins vegar er því ekki að leyna að ýmislegt mætti betur fara.

Nefna má 85 ára gamlan mann sem er það heilsulítill að hann getur ómögulega unnið nein húsverk. Dögum saman er hann svo lasinn að hann kemst varla fram úr rúmi. Hann hefur verið með langvarandi niðurgang vegna lyfja við krabbameini, hann er sykursjúkur og með kransæðastíflu. Áður hafði hann húshjálp í hverri viku. En eftir hrunið var ákveðið af borgaryfirvöldum að minnka þá hjálp niður í eitt skipti hálfsmánaðarlega. Á sama tíma versnaði heilsa mannsins til muna. Hann fékk innlögn á endurhæfingardeild fyrir aldrað fólk. Notað var tækifærið til þess að biðja félagsráðgjafa að hlutast til um að hann fengi aftur húshjálp vikulega. Þeirri beiðni var hafnað af borgaryfirvöldum.

Nú voru góð ráð dýr. Á endanum tók skylduliðið til sinna ráða. Bróðir mannsins hjálpar honum að greiða reikninga því tölvukunnátta hans er engin og hann getur því ekki nýtt sér heimabanka. Tvær konur tóku að sér að gera heimilisverk, skipta á rúmi, þvo og hreinsa í eldhúsi og baðherbergi, setja í þvottavél og hengja upp þvottinn. Sem og að hafa umsjón með fötum mannsins. Fyrir þetta borgaði maðurinn þeim báðum 5000 krónur. Þetta fyrirkomulag getur þó ekki gengið til lengdar. Önnur konan er að fara í fulla vinnu og er með stórt heimili, hin er slæm af gigt og á nóg með sitt heimili. Spurningin er hvort borgaryfirvöld sjái sér fært að útvega manninum meiri heimilishjálp?

Er hugsanlega hægt að skipuleggja samfélagslega starfsemi þar sem eldra fólk, sem er þokkalegt til heilsu, gæti tekið að sér að vinna umrædd heimilisstörf fyrir fólk sem alls ekki getur sinnt þeim – og fengið eðlilega og helst skattfrjálsa greiðslu fyrir. Margrir gætu komið að einu heimili. Einn gæti þá t.d. séð um að skipta á rúmum, annar að þvo gólf og sá þriðji sérhæfði sig í eldhúsverkum eða þvottastörfum. Þannig mætti leysa úr vanda þeirra sem ekki geta séð um heimilisverk sín sjálfir, komast ekki inn á öldrunarheimili en vilja lifa í sæmilega hreinu umhverfi. Og eldra fólk með vinnugetu á einhverju sviði gæti fengið aukapeninga.

 

Guðrún Guðlaugsdóttir júlí 11, 2014 18:30