Sagan um gamla leðursófann

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

gudrunsg@gmail.com

Um daginn kom stór rifa á gamlan og heittelskaðan leðursófa. Ég man enn hve fagur hann var þegar hann var kominn inn í stofu, skínandi nýr og angandi af frumstæðri leðurlykt. Mynd var tekin af mér í sparifötum í sófanum og allt var svo skemmtilegt. Vegna gamalla og góðra minninga horfði ég því döprum augum á þessa eyðileggingu sem tímans tönn hafði framkallað.

Margt hafði þessi sófi upplifað á nærri tuttugu og fimm ára líftíma sínum. Í honum höfðu setið virðulegir gestir, á honum hafði verið legið og horft á sjónvarpið, barnabörnin höfðu hoppað í honum og hellt ofan á hann mjólk, djús og kókómalti. Ég hafði samviskusamlega þrifið þetta en allur þessi ágangur hafði óneitanlega sett mark sitt á gripinn. Ég hafði heldur ekki borið nægilega á hann feiti sem er víst af hinu góða fyrir leður – rétt eins og fólk ber krem á húðina.

Jæja, þegar ég sá rifuna og minntist ég þess þegar ég með ærinni fyrirhöfn, kostnaði og allskonar veseni lét klæða þrjár setupullur úr honum og kom honum þannig í endurnýjun lífdaga. Það var ekki tekið út með sitjandi sældinni. Sófi þessi er sérkennilegur ljósbrúnn á litinn. Mér fannst ég því ótrúlega heppin þegar ég fyrir mörgum árum rakst á stóran stól í Góða hirðinum sem var í sama lit. Ég keypti stólinn og bað um skæri og klippti svo utan af honum leðrið. Þetta athæfi mitt vakti athygli og fyrr en varði stóð hópur fólks í kring og fylgdist með. Ein konan spurði: „Má þetta?“ Ég svaraði þurrlega að ég hefði keypt stólinn og fengið lánuð skærin, hún skyldi því ekki hafa áhyggjur.

Loks sá afgreiðslukonan aumur á mér og leyfði mér að draga stólinn inn á lager. Leðrið sem þarna fékkst var svo mikið að umfangi að ég gat látið klæða með því pullurnar þrjár sem orðnar voru æði lúnar.

Nú var sam sagt komin stór rifa í þetta leður úr stól Góða hirðisins og auk þess sem ýmislegt annað, svo sem armar, var farið að láta verulega á sjá.

„Maður á ekki að vera í tilfinningasambandi við húsgögn,“ sagði dóttir mín þegar ég sýndi henni rifuna í leðrinu. „Þú ert að rugla saman góðum stundum og húsgagni. Farðu bara og keyptu þér nýjan sófa.“

Ég lét mér þessi orð að kenningu verða og við hjónin lögðum af stað til þess að kaupa okkur nýjan leðursófa. Ég hafði séð auglýstan í húsgangaverslun fjarska fallegan Chesterfield-sófa sem mér fannst minna á minn heittelskaða, gamla sófa. Við lögðum því leið okkar til Chesterfield-sófans – því miður reyndist hann eins harður og hann var fallegur. Við snerum vonsvikin á braut en gáfumst þó ekki upp heldur fórum í aðrar verslanir.

Loks, þegar við vorum orðin bæði þreytt og mædd, ákváðum við í stundarbrjálsemi, liggur mér við að segja, að kaupa stóran, brúnan sófa sem hægt er að skjóta fram úr setunum leguplássi fyrir fæturna. Gengum líka frá heimsendingu tveimur dögum seinna.

Eftir sófakaupin kom dóttir mín í heimsókn og ég sýndi henni hróðug mynd í tölvunni af hinum nýkeypta sófa. Hún skoðaði myndina og benti mér á að þessi nýi sófi væri miklu stærri en sá gamli og myndi taka svo mikið pláss að vart yrði hægt að ganga inn í innri stofu á heimili mínu. Auk þess sá hún af uppgefinni hæð sófans í tölvunni að hann myndi ná upp að málverki sem prýðir stofuna. – Ég tók að efast.

Morguninn eftir vaknaði ég sáriðrandi og áttaði mig á að ég hefði gert heimskuleg kaup. Svona er að láta angurværð vegna hins liðna og verslunarþreytu ná tökum á sér og rugla dómgreindina. Ég sá ekki annað ráð vænna en láta kaupin ganga til baka samdægurs. Það gekk fyrir liðlegheit verslunarinnar. Þetta litla dæmi sýnir að maður skyldi varast tilfinningasambönd við húsgögn, taka vel ígrundaðar ákvarðanir, nota málband og höndla af meiri forsjá og minna kappi.

Satt að segja hefur mér aldrei fundist gamli leðursófinn fallegri og elskulegri en einmitt núna. Ég er búin að snúa pullunum við – kannski læt ég bólstrara klæða hann – djók. Það myndi kosta miklu meira en nýr sófi. Markmiðið er því að kaupa sófa – en að vel athuguðu máli.

 

Þessi pistill birtist áður á Lifðu núna  í apríl 2018.

Guðrún Guðlaugsdóttir október 24, 2022 07:00