Voru alls ekki dauð úr öllum æðum

Bókin Lífið að leysa eftir Nóbelsverðlaunahafann Alice Munro er nýkomin út hér á landi í þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur, en bókin hefur fengið frábærta dóma víða um heim. Lifðu núna fékk Silju til að senda örstuttan kafla úr bókinni til birtingar í vefritinu og hérna koma tvö  brot úr upphafskafla sögu sem heitir Dolly.

Um haustið höfðum við rætt dálítið um dauðann. Okkar eigin dauða. Franklin var þá áttatíu og þriggja og ég sjötíu og eins og við höfðum að sjálfsögðu gert ráðstafanir í sambandi við jarðarfarir (engar) og greftrun (undireins) í grafreit sem við höfðum þegar keypt. Við höfðum ákveðið að láta ekki brenna okkur þótt það væri vinsælt meðal vina okkar. Það var bara dauðinn sjálfur sem við höfðum skilið eftir handa tilviljuninni“.

Hjónin taka til við að skipuleggja eigin dauðdaga, en það reynist erfitt að finna hentugan stað, rétta daginn og rétta veðrið.

Okkur kom ekki saman um orðsendinguna. Það er að segja hvort við ættum að skilja eftir bréf eða ekki. Mér fannst við skulda fólki skýringu. Það átti að fá að vita að við værum ekki með banvænan sjúkdóm, værum ekki svo illa haldin af kvölum að við gætum ekki lengur lifað sæmilegu lífi. Það átti að fá að vita að ákvörðunin hefði verið tekin með réttu ráði, næstum því léttúð.

Hætta leiknum þegar hæst hann stendur.

Nei. Ég tók þetta til baka. Ósvífni. Dónaskapur.

Franklin fannst hvaða skýring sem væri dónaskapur. Ekki gagnvart öðrum heldur okkur sjálfum. Okkur sjálfum. Við tilheyrðum okkur sjálfum og hvort öðru og hvaða skýring sem var fannst honum tóm tilfinningasemi.

Ég skildi hvað hann átti við en var samt eiginlega ósammála.

Og það var einmitt það – þessi ágreiningur – sem virtist gera hann afhuga hugmyndinni.

Hann sagði að þetta væri tóm vitleysa. Allt í lagi fyrir hann en ég væri allt of ung. Við skyldum ræða þetta aftur þegar ég yrði sjötíu og fimm.

Ég sagði að það eina sem truflaði mig, pínulítið, væri að með þessu værum við að gefa í skyn að ekkert myndi framar gerast í lífi okkar. Ekkert merkilegt, ekkert sem við gætum gert framar.

Hann sagði að við hefðum einmitt verið að rífast rétt í þessu, hvað vildi ég meira?

Við vorum of kurteis, sagði ég“

Silja sagðist hafa valið þennan kafla vegna þess að í framhaldinu komi í ljós að gömlu hjónin voru sannarlega ekki dauð úr öllum æðum. Til sögunnar komi gömul kærasta eiginmannsins og eiginkonan bregðist við eins og afbrýðissöm unglingsstúlka. Þetta sé bæði fyndið og hjartnæmt í dásamlegri blöndu. Það komi svo á daginn í sögunni að ráðagerð hjónanna um eigin endalok hafi verið alveg ótímabær.

 

 

Ritstjórn ágúst 29, 2014 11:58