Tengdar greinar

Hver var Bobby McGee?

Hefur þú einhvern tíma velt fyrir þér hvort raunverulegar manneskjur kunni að vera fyrirmyndir ýmissa persóna í vinsælum dægurlagatextum? Ábyggilega, við gerum það öll. Er til dæmis einhver tiltekin Nína innblástur að Draumnum um Nínu eða einhver Álfheiður Björk þarna úti sem lét glepjast af fyllirafti og róna? Því miður getum við ekki svarað því en vitum hins vegar að Bobbie Mckee er konan sem varð til þess að Kris Kristofferson samdi lagið Me and Bobby McGee.

Í janúar í ár hefði Janis Joplin orðið áttatíu og eins árs hefði hún lifað.  Eitt hennar þekktasta lag sem spilað er oft og mikið enn í dag er einmitt lagið um mig og Bobby McGee, enda auðvelt að láta sér líða vel meðan Janis syngur blús. En hvert var upphafið að þessu frábæra lagi um vináttu, ást, fátækt og flæking um bandaríska þjóðvegi á puttanum?

Vegna þess hve stórkostlega Janis túlkaði lagið halda margir að Kris hafi samið það fyrir hana en þannig er það alls ekki. Hún söng lagið inn á plötu árið 1970 og það kom út 1971 rétt eftir að hún dó. Kris Kristofferson samdi það hins vegar ári fyrr og tveir söngvarar flutt það áður. Innblásturinn kom frá plötuframleiðanda Kris, Fred Foster. Fyrir það mun hann rata inn í Frægðarhöll sveitatónlistar í Bandaríkjunum eða Country Music Hall of Fame með ungum ritara að nafni, Barbara McKee.

Var tíðförult á skrifstofu Boudleaux

Fred Foster var í hópi þeirra sem hrintu af stað ferli listamanna á borð við Kris Kristofferson, Roy Orbison, Willie Nelson og Dolly Parton. Á sjöunda áratug síðustu aldar flutti hann plötufyrirtæki sitt Monument Records frá Washington D.C. til Tennessee. Hann fékk þar inni í byggingu í eigu vinar síns, lagahöfundarins Boudleaux Bryant. Barbara McKee var ritari hans og var alltaf kölluð Bobbie.

Dag nokkurn hljóp Fred í fimmta sinn niður stigann og inn á skrifstofu Boudleaux. Hann leit á vin sinn og sagði: „Ég held að þú sért alls ekki að koma til að hitta mig heldur til að fá að sjá Bobbie.“ Þessi striðni hélt áfram og einhverju sinni bætti Boudleaux við að einhvern tíma ætlaði hann að semja laga um sig og Bobbie McKee. Foster fannst þetta smellinn titill og hans nýjasti skjólstæðingur Kris Kristofferson kom strax upp í hugann. Kris fæddist og ólst upp í Texas. Hann var mikill íþróttamaður og hafði gengt herskyldu. Þegar þarna var komið sögu hafði hann verið að reyna að koma eigin söngvum á framfæri fremur en að syngja annarra. Um tíma vann hann sem húsvörður í Music Row upptökuverinu í þeirri von að honum byðist tækifæri til að taka upp eigin lög. Foster heyrði einhvern sérstakan tón þegar hann hlustaði fyrst á þennan unga mann og réði hann á staðnum.

Þennan dag tók Foster því upp símann og hringdi Kris með titilinn Me and Bobbie McKee og bað hann að semja lagið og textann. Í huga Fosters var skemmtileg tvíræðni fólgin í því að Bobbie væri kona því þetta gælunafn á oftar við um karlmenn. En Kris gerði hugmyndina fljótt að sinni og breytti Bobbie í Bobby og McKee í McGee. Úr varð saga af tveimur flækingum á ferð um þjóðveginn í Bandaríkjunum, hver dagur er barátta fyrir brauðinu en blússöngurinn huggunin. Og tvíræðnin var töluverð því hugsanlega var hér um að ræða ástarsamband og hugsanlega vináttu og í fyrstu útgáfu lagsins voru ekki notuð fornöfn, heldur eingöngu nafnið Bobby.

Margir skildu textann þess vegna sem svo að um tvo karlmenn væri að ræða. En auðvitað var auðvelt að skipta út nafninu fyrir fornöfn og því auðvelt að gera Bobby að hvoru sem er karli eða konu. Hvernig sem því er háttað vitum við að parið er ekki lengur saman. Minningarnar eru samt dýrmætar og augljóst að hamingjan getur falist í allsleysi augnabliksins. Kris talar ævinlega um Bobby en í útgáfu Janis Joplin er enginn vafi á að Bobby er karl og hún konan sem syngur til hans saknaðarljóð.

Ekkert lát á vinsældunum

Barbara McKee, sem fékk síðar eftirnafnið Eden við giftingu, man vel eftir því augnabliki að Foster og Kris komu inn á skrifstofuna til hennar og sungu lagið fyrir hana. Hún hafði þá aldrei hitt Kris fyrr. „Fred kom inn og sagði við Kris: „Mig langar til að þú hittir hina raunverulegu Bobbie McKee og hér er Kris Kristofferson og hann ætlar að syngja fyrir þig lag. Ég elskaði það strax. Kris sagðist raunar ekki geta sungið neitt reglulega vel en hann myndi reyna en mér fannst þetta frábærasta lag sem ég hafði nokkurn tíma heyrt.“

Og lagið varð umsvifalaust vinsælt. Kris spilaði það fyrir Roger Miller og hann gaf það út á plötu árið 1969. Kris kom svo með eigin útgáfu árið eftir og nokkrum mánuðum síðar kom plata Janis út. Í öllum tilfellum rataði lagið inn á vinsældalista. Var í tíunda sæti með Roger, á svipuðum stað með Kris en rauk upp í fyrsta sæti þegar Janis kom með sína túlkun. Enn eru listamenn að taka þetta lag og túlka upp á nýtt, eins og þær Salka Sól og Lay Low gerðu þegar haldnir voru minningartónleikar um Janis árið 2018. Það er eitthvað svo einstaklega áleitið við lagið og textann að alltaf nær það að tala inn í hjörtu mannanna. Þessi tregi eftir vináttu og ást sem einu sinni var er svo skiljanlegur en þarna glittir einnig í von, þakklæti fyrir að hafa lifað þessa einföldu tíma þegar allt varð auðvelt meðan Bobby söng sinn blús.

 „Það er eitthvað svo einstaklega áleitið við lagið og textann að alltaf nær það að tala inn í hjörtu mannanna. Þessi tregi eftir vináttu og ást sem einu sinni var er svo skiljanlegur en þarna glittir einnig í von, þakklæti fyrir að hafa lifað þessa einföldu tíma þegar allt varð auðvelt meðan Bobby söng sinn blús.“

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 26, 2024 07:04