Þversum í verinu

Jónas Haraldsson.

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar:

Batnandi mönnum er best að lifa, segir máltækið. Vonandi er það svo. Ég finn nefnilega fyrir þessum bata eftir því sem árunum fjölgar. Vera kann að karlkynið sé seinþroska en það þarf þó ekki að vera, kannski er það bara ég.

Við hjónin vorum ung þegar við eignuðumst okkar fyrsta barn. Ég held að ég megi fullyrða að mín unga kona (við vorum að vísu ekki gift þá) hafi setið uppi með ungbarnið og heldur óþroskaðan föður þess barns sem þá kom í heiminn. Samt gat þessi vanþroskaða föðurnefna verið með stæla og minnt betri helminginn á að sjóða kartöflur, á milli þess sem hún skipti um bleiur og sinnti ungbarninu. Ég hef það að vísu mér til afsökunar að hafa vart litið ungbarn augum fyrr en ég sá mitt eigið – og tíðarandinn var að sönnu annar og ekki búið að finna upp það sem síðar kallaðist karlremba.

Það eru sextán ár á milli elsta og yngsta barns okkar. Ég var betur í stakk búinn að takast á við föðurhlutverkið þá, hafði þroskast aðeins. Örlitlar framfarir hafa vonandi sýnt sig í umönnun miðbarnanna tveggja. Þessi vanþroski minn hefur þó, að ég held, ekki komið niður á börnunum. Þau eru öll löngu komin á fullorðinsár, ákaflega mannvænleg sem betur fer – og eiga öll sína maka og börn. Það mega þau þakka góðu uppeldi móður sinnar – og kannski því að ég þvældist ekki mikið fyrir, vann langan vinnudag en reyndi að vera ekki mjög leiðinlegur þegar við vorum saman.

Uppeldið og heimilisstörfin lentu því mjög á konu minni – sem líka vann langan vinnudag. Þetta var vitaskuld ósanngjarnt en mér til gleði sýna synir mínir tveir – og raunar tengdasynirnir báðir – allt aðra og betri hegðun þegar kemur að barnauppeldi, heimilisstörfum og ekki síst matseld. Þeir hafa meira eða minna tekið þann þátt yfir á sínum heimilum.

Því hef ég, eftir því sem þroski minn hefur aukist, og ekki síst eftir að við hjónakornin urðum tvö ein í heimili, reynt að bæta mig. Ég hef tekið stórfelldum framförum í því að skúra gólf, set gullaldartónlist á fóninn og djöflast á tuskunni um parket og flísar. Þá leikur uppþvottavélin í höndum mér þótt ég eigi enn nokkuð í land með þvottavélina. Varðandi það mikilvæga tæki hræðist ég einkum að smækka fínni og viðkvæmari peysur frúarinnar með röngu hitastigi – eða lita það sem á ekki að lita.

Þá hef ég nánast alfarið tekið að mér að búa um rúmið okkar – og set meira að segja puntpúða ofan á rúmteppið að því loknu. Hvað síkur gjörningur segir um þroska minn skal ósagt látið. Þessum umbúnaði fylgir jafnframt að ég er möglunarlaust farinn að skipta á rúminu okkar, koma lakinu smekklega fyrir svo hvergi sjáist krumpa – og setja kodda og sængur á sinn stað í verin.

Enn á ég þó eitthvað ólært í þeim efnum, þótt mín góða kona hafi kennt mér handbrögðin, að skella verinu á rönguna, reka handleggina inn í það, grípa í horn vers og sængur svo sængin togist inn í verið um leið og það snýst á réttuna. Má vera að þetta virki flókið fyrir óvana en ég taldi mig hafa náð tökum á verkinu – þar til ég skipti síðast á rúminu.

Snemma nætur varð ég var við það að konan mín elskuleg var eitthvað að bjástra við sængina sína en lét það afskiptalaust, enda milli svefns og vöku. Það var hins vegar ekki langt liðið á nóttina er ég vaknaði vegna minnar eigin sængur. Sængin mín, sem verið hafði svo hlý og góð, var orðin hálfgerð dula, náð hvorki yfir fætur né belg. Ég reyndi að toga bleðilinn yfir mig en náði honum aðeins upp undir geirvörtur og fæturnir sköguðu langt undan sænginni.

Ég dormaði því í fósturstellingu til morguns – en kvartaði við konuna undan þessu þegar við fórum á fætur, taldi það með ólíkindum hvernig svo góð sæng gæti breyst á einni nóttu við það eitt að fá utan um sig hreint ver.

Hún sá mína sæng upp reidda, svo vitnað sé bókstaflega til annars máltækis. Þú ert nú meiri bjáninn, sagði hún við eiginmann sinn til áratuga. Þér hefur, með óskiljanlegum hætti, tekist að koma báðum sængunum okkar fyrir í verinu – þversum!

Ritstjórn október 23, 2017 10:29