„Við erum góð í því að sníða líkamsræktina að þörfum hvers og eins og höfum gert það, segir Bára Magnúsdóttir sem á og rekur Líkamsrækt JSB. Bára er einn af brautryðjendunum í leikfimi kvenna hér á landi og hefur verið með konur í leikfimi í 50 ár. Hún býður í vetur uppá nýjan hóp fyrir konur sem eru sjötíu og fimm plús. Sextíu plús er hópur sem var í fyrra þrisvar sinnum í viku í leikfimi í JSB og þar voru konur á öllum aldri. „Við vorum með tíma í fyrra fyrir þær sem eru hættar að vinna klukkan hálf tíu á morgnana“, segir Bára. Hún hefur einnig sérsniðið leikfimitíma fyrir konur á aldrinum 16-25 ára. „Aldur er ekki feimnismál og það er ekkert skrítið við það að mæta þörfum fólks á öllum aldri fyrir hreyfingu. Menn eru ekki að fara í leikfimi til að fara í tíma sem eru vinsælir í New York, heldur í tíma sem henta þeim“.
Elsta konan í leikfimitímunum 92ja ára
„Það verður ekki í minni tíð“, segir hún þegar blaðamaður spyr hvort hún hafi aldrei látið sér detta í hug að opna ræktina fyrir körlum. „Við megum alveg hafa okkar sérstöðu. Konur hafa annan smekk og þurfa öðruvísi æfingar“, segir hún. „Þetta gildir líka um tækin, það eru önnur tæki í tækjasalnum þegar einungis konur nota þau. Kynin eru ekki eins og við göngumst við því“, segir hún. Bára byrjaði með kvennaleikfimina í Suðurveri fyrir um hálfri öld. „Við erum hér með kynslóð sem hefur ekkert hætt í ræktinni, sem byrjaði þegar hún var á aldrinum milli þrítugs og fertugs. Þessar konur eru að fara núna í 75 plús og 85 plús. Sú elsta er 92ja ára. „Hún kom í ræktina í allan fyrravetur og er búin að vera í 40 ár“, segir Bára og segir að það sé aldrei of seint að byrja.
85 ára kona getur kannski meira en sjötug
„Kona sem er sjötug getur kannski minna en kona sem er 85 ára og hefur verið í ræktinni á hverjum vetri í áratugi“, segir Bára og bætir við að allir séu velkomnir í 1-2 prufutíma, til að athuga hvort þetta henti þeim. Hún segir að það sé engin ástæða til að hætta í líkamsrækt þó konur séu orðnar sjötugar. „Ég er orðin sjötug og ekki er ég hætt!!“ segir hún. „Öll hreyfing er holl og ræktin er ekkert tískufyrirbæri. Konur fara í ræktina af því að það gerir þeim gott. Ræktin er til þess að þú getir gert allt hitt sem þér þykir gaman og vilt geta gert í lífinu“.