Eldra fólk sem orðið er hrumt eða er veikt þarf fjórar til sex næringarríkar máltíðir á dag. Þetta kemur meðal annars fram í drögum að ráðleggingum um mataræði fyrir þennan hóp sem Landlæknisembættið hefur sent frá sér.
Fyrir nokkru spunnust miklar umræður mat sem eldra fólki stendur til boða á hjúkrunarheimilum og heimilum sem það leigir á vegum borgarinnar. Fólk sem kaupir mat á þessum stöðum fær gjarnan heitan mat í hádeginu en súpur og grauta á kvöldin.
Í áðurnefndum drögum kemur frama að fæði sem eldra fólki standi til boða á hjúkrunarheimilum, rétt eins og í heimahúsum, hafi áhrif á heilsu þeirra og líðan. Matarlyst minnki oft með hækkandi aldri en þörf fyrir vítamín og steinefni sé nánast óbreytt og próteinþörfin aukin. Því þurfi öll næringarefni að vera til staðar í minni matarskömmtum. Það gilda því aðrar ráðleggingar um mataræði fyrir hrumt eða veikt eldra fólk heldur en þá sem frískari eru.
Til að tryggja að næringarþörf þessa hóps sé fullnægt þarf að bjóða upp á fjórar til sex næringarríkar máltíðir daglega, þar af tvær heitar máltíðir. Landlæknisembættið segir að næringarútreikningar á matseðlum hafi sýnt að súpur og brauðmáltíðir dugi ekki sem aðalmáltíð til að uppfylla prótein- og orkuþörf yfir daginn. Allt hrumt eða veikt eldra fólk ætti að fá orku- og próteinríkt fæði. Hætta á vannæringu aukist með aldrinum, því sé mikilvægt að fylgjast með næringarástandi og bregðast við ef út af ber. Þá segir Landlæknisembættið að mikilvægt sé að hafa í huga að það dugi ekki að maturinn sé næringarríkur til að hann komi að gangi heldur þurfi að borða hann, því matur sem fari í ruslið gagnist engum. Það sé því ekki síður mikilvægt að maturinn sé góður á bragðið, lystugur og fallega borinn fram í rólegu og notalegu umhverfi. Þeir sem vilja kynna sér nánar hvað Landlæknisembættið hefur um þetta að segja geta skoðað drögin hér.