Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar:
Við trúðum því mörg að margt myndi breytast í kjölfar hrunsins fyrir áratug. Að sanngjarnara eða kannski réttlátara samfélag myndi taka við eftir að leyst hefði verið úr helstu flækjunum vegna þess sem fór úrskeiðis. Tækifærið var til staðar. Helstu mistökin og afleiðingar þeirra lágu fyrir í rannsóknarskýrslu Alþingis. Það virtist vera almennur vilji til að taka til hendinni, læra af mistökunum og fyrirbyggja að annað eins gæti gerst aftur. Þetta náði þó ekki til allra, eins og kom á daginn. Ýmsir heltust fljótt úr lestinni og beittu sumir þeirra sér nánast gegn öllum breytingum eða lagfæringum. Sumir í þessu liði eru reyndar enn að, hrópandi úti í móum, stundum að því er virðist helst til að reyna að rétta eigin hlut. Það kemur því kannski ekki svo mjög á óvart að það hefur ekki allt gengið eftir sem vonir stóðu til.
Fyrir liggur, þegar á heildina er litið, að hagur almennings hefur vænkast á umliðnum árum. Þetta sýna hagvísar og mælingar og um þetta er ekkert deilt. Skoðanir eru hins vegar skiptar á því hvernig til hefur tekist. Sumir láta meðaltöl og prósentur ráða afstöðu sinni við mat á því sem gert hefur verið á meðan aðrir horfa víðar yfir sviðið og leggja mat á úkomuna í víðari skilningi, sem er auðvitað mun eðlilegra. Það er nefnilega vont hvernig ýmsir hafa orðið útundan. Staða þeirra sem lökust hafa kjörin hefur ekki batnað eins og annarra, sama hvað einhverjar prósentubreytingar segja til um. Lægstu laun duga ekki fyrir nauðsynjum, húsnæðismarkaðurinn er jafnvel í enn meira rugli nú en fyrir hrun, svo ekki sé nú minnst hina ýmsu anga heilbrigðiskerfisins. Ofan á þetta er svo nánast fáránlegt að horfa upp á hvernig stjórnvöld hafa ruðst fram gegn fjölmiðlum eftir að hafa séð hve mikilvægu hlutverki þeir gegna í að svipta hulunni af ýmiss konar spillingu sem þrifist hefur í samfélaginu á umliðnum árum, með fínum árangri í sumum tilvikum.
Auðvitað hefur ýmislegt breyst til batnaðar eftir hrunið þó svo að margt sé ógert. Næsta víst er til dæmis að nýlegar niðurstöður starfshóps um bætt siðferði í stjórnmálum geti leitt til jákvæðra breytinga í stjórnkerfinu. Gallinn er bara sá að trúverðugleiki þeirra sem taka við tillögum starfshópsins til að vinna úr þeim er ekki mikill. Afrekaskrá þeirra í þessum efnum er ekkert til að klappa fyrir, en þeir verða þó að fá séns. Helsta vonin í öllu þessu eru breyttar áherslur á vettvangi verkalýðsfélaganna og hjá hagsmunasamtökum fólks sem lökust hafa kjörin.
Formaður Örykjabandalagsins skrifaði um daginn að bilið milli sárafátæktar og ofurríkra fari breikkandi og að það gerist í skjóli stjórnvalda og síbylju um prósentujöfnuð og kaupmáttaraukningu sem enginn örorkulífeyrisþegi sjái í sínu veski. Þettta einskorðast ekki við veski öryrkja. Um svipað leyti skrifaði fyrrverandi stjórnmálaleiðtogi, einn þeirra sem lengi hefur barist gegn raunverulegum breytingum á íslensku samfélagi eftir hrunið, að umræða um kjaramál sé algjörlega „úti á túni.“ Það er semsagt að hans mati „úti á túni“ að berjast fyrir því að þeir lægstlaunuðu, hvort sem það er launafólk eða bótaþegar, eigi fyrir nauðsynjum. Er hægt að vera skilningslausari en þetta? Afstaða ráðherra ríkisstjórnarinnar virðist því miður vera á svipuðum slóðum og hjá þessum fyrrverandi stjórnmálaleiðtoga. Þetta er í hnotskurn það sem er að, og það sem hefur verið að mest allan tímann frá hruni. Það hefur vantað jarðsamband. Án jarðsambands er skilningsleysið algjört.