Glataður trúverðugleiki

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar                

Einn af mínum æðstu draumum rættist fyrir tæpum tólf árum síðan. Þá komst ég á hljómleika með Paul McCartney í Parken í Kaupmannahöfn. Þarna voru saman komnir á milli fjórtíu og fimmtíu þúsund aðdáendur goðsins á öllum aldri, allt frá litlum krökkum upp í gamalmenni. Gleðin sem skein úr andlitum þeirra sem þarna voru þessa kvöldstund í byrjun maí árið 2003 gleymist ekki.

Fljótlega eftir að ég kom heim eftir þessa upplifun hitti ég einn þáverandi vinnufélaga minn, mikinn mússikunnanda og sérfræðing í þeim málum. Ég sagði honum eðlilega hvar ég hafði verið. Viðbrögð hans munu seint líða mér úr minni, en þau voru allt önnur en ég hafði gert ráð fyrir: „Ég hlusta ekki á gamla mússik,“ var það eina sem hann sagði.

Áhugaleysi vinnufélagans kom mér gjörsamlega í opna skjöldu. Ég hafði búist við löngum samræðum og var tilbúinn með í huganum lagalista Pauls og hljómsveitar hans á hljómleikunum, sem spannaði allt frá fyrstu Bítlalögunum til þeirra síðustu, Wings árin og sólóferilinn. Ég fékk ekkert að nota af þessu í hinu snubbótta samtali okkar.

Þessi viðbrögð höfðu sem betur fer ekki áhrif á þá gleðivímu sem ég var enn í eftir heimkomuna. Hins vegar komu þau aftur upp í hugann nokkrum árum síðar, þegar ég, einu sinni sem oftar, hlustaði á Rokkland Óla Palla á Rás tvö. Vinnufélagi minn var þar gestur ásamt fleirum í þætti sem var tileinkaður Bítlunum. Kallað hafði verið í nokkra „sérfræðinga“ í Bítlafræðum til að ræða um áhrif fjórmenninganna frá Liverpool á viðmælendurna sjálfa og á tónlistarlífið í heiminum almennt.

Minnugur fyrri samskipta við vinnufélagann, sérstaklega þess að hann sagðist ekki hlusta á gamla mússik, þá koma það mér á óvart að heyra hann tala um það hve mikil áhrif Bítlarnir hefðu haft á hann, ekki bara fyrr á árum heldur einnig enn. Það mátti nefnilega helst á honum skilja, að hann vaknaði upp við að hlusta á Bítlalög og færi að sofa á kvöldin með óm af þeim í eyrunum. Hann minntist ekkert á að hann hlustaði ekki á gamla mússik. Það hentaði líklega ekki þarna. Fyrir mig þá hins vegar hvarf trúverðugleiki þessa félaga míns. Hann var einfaldlega ekki sjálfum sér samkvæmur.

Í mínum huga er þessi litla saga að vissu leyti lýsandi fyrir samfélagið, því mér sýnist ýmsir hafa litlar áhyggjur að því hvort þeir eru trúverðugir eða ekki. Við erum sífellt að verða vitni að slíku á opinberum vettvangi. Sjáið til að mynda stjórnmálamennina sem segja eitt í stjórnarandstöðu en allt annað í stjórn, og öfugt. Eða þá sem fara sínu fram, sama hvað, hlusta ekki á rök og taka ekki þátt í rökræðum, svara ekki eðlilegum spurningum, tala um „loftárásir“ ef þeir eru gagnrýndir, bera við „ákveðnum ómöguleika“ ef þeir eru krafðir um að standa við loforð sín, eða þá bregðast með þjósti við og saka ímyndaða andstæðinga um „pólitískt ljótan leik“ ef þeir verða uppvísir að því að hafa ekki staðið rétt að málum, svo eitthvað sé nefnt. Svo eru það allir áhangendur þeirra ótrúverðugu, fólkið sem alltaf er hægt að ganga út frá sem vísu að muni rjúka upp til handa og fóta og bölsótast úr í allt og alla af minnsta tilefni, oftast á samfélagsmiðlum, þeir sem láta rök sem vind um eyru þjóta. Það fólk er auðvitað gjörsamlega án nokkurs trúverðugleika, eins og því miður á við um hann fyrrverandi vinnufélaga minn, sem hlustar ekki á gamla mússik.

Það er önnur hlið á afstöðunni, að hlusta ekki á gamla mússik. Til hvers að hlusta á mússik yfir höfuð ef gengið er út frá því að það verði ekki hægt að hlusta á hana þegar hún er orðin gömul? Er hún þá einhvers virði? Í rauninni er þessi afstaða bara bull. Enda trúi ég því ekki í raun að vinnufélagi minn hafi í alvörunni verið að meina þetta. Hann hlýtur að hafa verið svona illa fyrir kallaður maðurinn þegar ég sagði honum frá hljómleikunum hans Paul. Og ætli svipað geti ekki einnig átt við um suma aðra, til dæmis þá sem telja sig verða fyrir loftárásum, ómöguleikum eða ljótum pólitískum leikjum. Þetta fólk hafi kannski verið illa fyrir kallað. En samt, hver sem ástæðan er, þá duga svona viðbrögð til að rústa trúverðugleika.

Vel á minnst, Paul verður víst á Hróarskeldu í sumar. Ég ætla að benda fyrrverandi vinnufélaga mínum á það ef ég hitti hann.

 

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson mars 17, 2015 11:16