Fegurðin í aðhaldinu

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar

Í Óskarsverðlaunamyndinni Spotlight sést vel hvað aðhaldshlutverk fjölmiðla er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið. Næsta víst er að þær ljótu athafnir sem gerð eru skil í myndinni hefðu ekki verið dregnar fram í dagsljósið ef bandaríska dagblaðið Boston Globe hefði ekki haft teymi einstaklega hæfra rannsóknarblaðamanna, sem fengu alvöru tíma til að sinna sínum verkefnum. Þeir fengu ekki bara nokkrar klukkustundur eða örfáa daga, eins og algengt er á íslenskum fjölmiðlum, heldur vikur og jafnvel mánuði. Langur tími til úrvinnslu frétta og fréttaskýringa þarf þó auðvitað ekki að vera úrslitaatriði í öllum tilvikum, eins og þrátt fyrir allt ýmis dæmi úr íslenskri blaðamennsku eru til vitnis um. Það er nefnilega ýmislegt hægt að gera ef vilji, hæfileikar og þrjóska eru til staðar sem og ákveðin grundvallar skilyrði önnur. Já, og harður skrápur til að standast ágang þeirra sem hugsanlega eiga hagsmuna að gæta. Næsta víst er einmitt, að hagsmunagæsla eigi sinn þátt í því sem dunið hefur á íslenskum fjölmiðlum á umliðnum árum og brotist hefur fram í formi breytinga á eignarhaldi sumra þeirra og nánast stöðugum „árásum“ af ýmsu tagi á aðra, svo ekki sé meira sagt.

Það er margt í Spotlight sem gerir myndina að því sem hún er. Þannig er til dæmis athyglisvert, að þrátt fyrir hina hæfu rannsóknarblaðamenn þá þurfti nýtt blóð í ritstjórastólinn hjá Boston Globe til að koma því máli sem fjallað er um í myndinni á hreyfingu. Í því sambandi er gaman að sjá að nýja blóðið var ekki reynslulítill, nýútskrifaður blaðamaður, heldur þvert á móti maður með mikla reynslu, kominn á miðjan aldur, það er að segja, kominn á algengan uppsagnaraldur á týpískum íslenskum fjölmiðli. Það er nefnilega svo merkilegt, að þar sem blaðamennskan er hvað best í heiminum, þar virðist gjarnan vera passað upp á að blaðamannahópurinn á fjölmiðlunum sé hæfileg blanda af reynslu og ferskleika, ekki bara annað af þessu, eins og sums staðar.

Aðhaldshlutverk fjölmiðla er eitt af þremur megin hlutverkum þeirra. Það tengist þeirri hugsun að almenningur eigi rétt á að vita og að blaðamenn skuli leita sannleikans, til að draga úr líkum á misbeitingu valds en auka aftur á móti líkur á upplýstum ákvörðunum. Hin tvö hlutverkin, upplýsingahlutverkið og umræðuhlutverkið, eru engu síður mikilvæg. Saman geta þessi þrjú hlutverk nefnilega stuðlað að því að fjölmiðlarnir geti styrkt lýðræðið í landinu. Það eru ekki allir sammála því að aðhaldshlutverkið sé nauðsynlegt en án þess skipta fjölmiðlar í raun ákaflega litlu máli, sérstaklega nú.

Því miður eru aðstæður á íslenskum fjölmiðlamarkaði þannig, að aðhaldshlutverkið hefur átt erfitt uppdráttar. Þó einstaka blaðamönnum og fjölmiðlum hafi stundum tekist vel upp virðist af nógu að taka, eins og fréttir undanfarinna vikna og missera sýna. Við bara gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því hver þörfin er, þar sem það liggur í hlutarins eðli, að það sem ætti að vera betur gert í samfélaginu er gjarnan verið að pukrast með fyrir luktum dyrum. Kröfur almennings um aukið upplýsingaflæði, og að allt sé uppi á borðum í sambandi við hin ýmsu mál sem skipta raunverulegu máli, eru hins vegar greinilega að aukast. Helsta vonin í þeim efnum er auðvitað aukið aðhald fjölmiðla. Þess vegna er þörf fyrir fjölmiðla sem sinna öllum þremur megin hlutverkum sínum en ekki bara sumum þeirra. Almenningur getur því í alvörunni haft áhrif með því að styðja við slíka fjölmiðla. Það er fegurðin í þessu öllum saman.

 

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson mars 14, 2016 11:40