Það getur verið ótrúlega flókið og erfitt verkefni að ganga frá eigum látinna ættingja eða að fara í gegnum eigin búslóð þegar fólk er að minnka við sig húsnæði. Hver hlutur á sér sína sögu og minningar. Jafnvel að handfjatla gamlan varalit getur vakið upp minningar um fallegt bros móður sem nú er gengin. Gamlir barnaskór geta að sama skapi vakið upp minningar um löngu liðna gleðidaga. Að því sögðu hvað á að gera við búslóðina þegar fólk flytur eða búslóð ættingja sem eru látnir?
Shari Robards er sérfræðingur í Michigan í Bandaríkjunum. Hún sérhæfir sig í að hjálpa fólki að losa sig við hluti þegar það er að minnka við sig húsnæði eða ganga frá eigum látinna ættingja. Hún segir að fólk eigi að horfa á hlutinn en ekki þann sem átti hann. Reynið að aftengja á milli hlutarins og þess sem átti hann, ráðleggur hún. Shari segir líka að fólk eigi að taka sér tíma til að ganga frá hlutunum og ekki láta þá frá sér fyrr en fólk sé orðið sátt við að kveðja þá. „Takið þetta í smáskrefum,“ segir hún. Annað sem Shari segist ráðleggja fólki að gera ef það er ekki visst um að geta látið eitthvað frá sér,er að taka myndir af viðkomandi hlut. Shari segir líka að þegar einhver eignist til að mynda 50 hluti frá foreldrum sínum eigi fólk að velta því fyrir sér hvort að þeir færi þeim virkilega allir gleði og hamingju. Hvort að þeir endi ofan í kassa og engin líti á þá aftur fyrr en að ykkur gengnum. Ef allir hlutirnir gleðja ykkur og þið hafið not fyrir þá skuluð þið eiga þá alla, en ef einungis tíu falla í þann flokk skuluð þið eiga þá en losa ykkur við hina.
Hún segir að það sama gildi líka þegar fólk er að minnka við sig húsnæði, en bætir við að fólk eigi að reyna að átta sig á því áður en það flytur hve mikið af gömlu búslóðinni rúmist á nýja heimilinu. „Það er erfitt og vont að búa á heimili sem er yfirfullt af hlutum og þið eigið jafnvel í erfiðleikum með að komast um nýju íbúðina. Takið með ykkur það sem gleður ykkur eða þið hafið not fyrir. Takið myndir af hinu. Það er ótrúlega frelsandi að losa sig við hluti sem við höfum ekki not fyrir, segir Shari.
En hvað á að gera við dótið, það er hægt að selja það á sölusíðum á netinu, halda bílskúrssölu eða gefa þeim sem vilja eiga dótið. Það eru ýmsar leiðir til svo er hægt að henda hlutunum. Það er þó það síðasta sem þið ættuð að gera það gæti verið að einhver hefði raunveruleg not fyrir þá.