Tengdar greinar

Fátækrahverfið er ekki heimurinn

Trevor Noah uppistandari og stjórnmálaskýrandi

Bókin Glæpur við fæðingu eftir Trevor Noah er ákaflega áhugaverð og skemmtileg bók aflestrar, þó efnið sé sannarlega dapurlegt, en það lýsir æskuárum hans í Suður-Afríku. Trevor fæddist þar og ólst upp við harða aðskilnaðarstefnu og fátækt. Hann var barn svartrar móður, Patriciu Nombuyiselo Noahog hvíts föður, Roberts sem var svissneskur. Þau gátu ekki búið saman, þar sem slíkt var ólöglegt í landi aðskilnaðarstefnunnar. Hann hefði verið sektaður og hún sett í fangelsi, og barnið þeirra sem var glæpur við fæðingu, hefði verið sent á munaðarleysingjaheimili. Trevor ólst upp hjá móður sinni og bókinni hefur verið lýst sem óði hans til hennar, enda er móðirin afskaplega litríkur og skemmtilegur persónuleiki.  Hann segir í bókinni á heillandi hátt frá æsku sinni og samfélagi sem er enn í sárum, fyrstu skrefunum í skemmtanabransanum og trúrækinni móður sem opnaði fyrir honum heiminn.

Móðir mín fór með mig á staði sem svart fólk fór aldrei á. Hún neitaði að fara eftir fáránlegum hugmyndum um hvað svart fólk mætti ekki eða ætti ekki að gera. Hún fór með mig á skautasvellið. Jóhannesarborg var einu sinni með frábært bílabío, Top-Star Drive-In, ofn á gríðarlegum jarðvegshaug úr námu fyrir utan borgina. Hún fór með mig í bíó þangað, við náðum okkur í snarl, hengdum hátalarann á bílgluggann. Top Star var með 360 gráðu útsýni yfir borgina, úthverfin og Soweto. Þarna uppi sá ég endalaust í allar áttir. Mér leið eins og ég væri á toppi tilverunnar.

Mamma ól mig upp við að það væru engin takmörk fyrir því hvert ég gæti farið eða hvað ég gæti gert. Þegar ég lít til baka átta ég mig á því að hún ól mig upp eins og hvítan krakka- ekki hvítan menningarlega séð, heldur á þann hátt að ég fékk grú á því að ég gæti lagt heiminn að fótum mér, að ég ætti að svarfa fyrir mig, að hugmyndir mínar og hugsanir skiptu máli“.

Menn héldu að mamma hans væri galin að sýna barninu heim hvíta fólksins. Nágrannar og ættingjar sögðu.

Til hvers að standa í þessu? Til hvers að sýna honum heiminn þegar hann á aldrei eftir að komast úr fátækrahverfinu?“

„Vegna þess“, sagði hún þá, „jafnvel þó hann komist aldrei úr fátækrahverfinu þá fær hann að vita að fátækrahverfið er ekki heimurinn. Þótt það væri ekki annað en að sýna honum það þá hef ég gert nóg“.

Móðir Trevors var heittrúuð kona og þegar hann var barn fóru þau í þrjár messur á hverjum sunnudegi.  Eitt sinn þegar það átti að fara í kirkju var Trevor lasinn og leið ekki vel, enda hafði hann á einum degi borðað búðing sem mamma hans bjó til og átti að endast fjölskyldunni í viku. „Þess vegna þurfum við að fara í kirkju, Jesú læknar þig þar“, sagði móðir hans.

Við mamma höfðum ólíkar skoðanir á því hvernig Jesús starfaði. Hún trúði því að maður þyrfti bara að biðja til Jesú og þá mætti hann á svæðið og reddaði málunum. Mínar skoðanir á Jesú áttu aðeins meiri stoð í raunveruleikanum.

„Hvað með að ég taki lyf“ sagði ég, „og biðji síðan til Jesú og þakki honum fyrir læknana sem fundu upp lyfin, því að það eru lyfin sem lækna mann, ekki Jesús.“

„Þú þarft ekki lyf ef þú ert með Jesú. Jesú læknar þig. Þú átt að biðja til Jesú“.

„En eru lyf ekki blessun frá Jesú? Og ef Jesús færir okkur lyf sem við svo tökum ekki, erum við þá ekki að afneita þeirri blessun sem hann hefur fært okkur?“

Eins og allar aðrar rökræður okkar um Jesú, skiluðu þessar engu.

„Trevor“, sagði hún, „ef þú ferð ekki í kirkju á þér eftir að versna. Þú ert heppinn að hafa orðið veikur á sunnudegi, því að nú förum við í kirkju og þú getur beðið Jesú um að lækna þig sem Jesús á eftir að gera..“

„Hljómar vel, en hvað um að ég verði bara heima í staðinn?“

„Nei. Klæddu þig. Við erum að fara í kirkju.“

Patricia móðir Trevors

Það má segja að bókin Glæpur við fæðingu sé fróðleg og á köflum bráðfyndin bók, sem er útaf fyrir sig afrek, þegar sagt er frá jafn ömurlegum aðstæðum og ríktu meðal blökkumanna og litaðs fólks í Suður-Afríku á dögum aðskilnaðarstefnunnar. Heimilisofbeldi var algengt og þau Trevor og Patricia fengu að  kenna á því.  Helga Soffía Einarsdóttir þýddi bókina sem bókaútgáfan Angústúra gaf út.

 

 

Ritstjórn september 5, 2019 07:20