JÖKULL JÖKULL – Steinunn Marteinsdóttir

Steinunn Marteinsdóttir er einn af okkar merkari listamönnum og í tilefni af 85 ára afmæli sínu þann 18. febrúar næstkomandi ætlar hún að halda sýningu í Listasal Mosfellsbæjar. Sýningin opnar 12. febrúar og stendur til 12. mars og nefnist JÖKULL JÖKULL.

Steinunn er þekkt fyrir leirlist sína en hefur í seinni tíð lagt stund á málun í vaxandi mæli. Hún segir sjálf að sýningin sé yfirlitssýning af jöklamyndum sem hún málaði á árunum 1986 – 2019.

Þessi sýning er einskorðuð við myndir þar sem jökull ber fyrir augu, ekki síst Snæfellsjökul sem sést vel úr vinnustofu Steinunnar. “Myndirnar á þessari sýningu eru ákall til jökulsins eða leit að einhverjum fullkomleika,” segir Steinunn. “Snæfellsjökull er ímynd þessa fullkomleika en ég byrjaði að móta hann í leir. Á seinni hluta ævinnar hef ég gert meira af því að mála myndir en vinna í leir og enn er jökullinn mér hugleikinn.”

Steinunn segir að þessi skipti frá leirnum í málun hafi átt sér stað þegar hún var staðsett á vinnustofu í París í tvo mánuði. “Þá komu þessar fyrstu jöklamyndir til mín. Síðan hefur þessi sama hugmynd komið aftur og aftur fyrir í myndunum mínum.”

Steinunn er búsett í Mosfellsbæ en hún og fyrri maður hennar keyptu jörðina Hulduhóla í Mosfellsbæ 1969 og hún hefur búið þar síðan. Þá var jörðin í ábúð en þau breyttu útihúsunum í íbúðarhús og vinnustofur. Þaðan er útsýni yfir Snæfellsjökul sem hefur verið Steinunni mikill innblástur æ síðan.

Steinunn hefur oft haldið sýningar heima á Hulduhólum þar sem er ágætt pláss en þar býr hún nú ásamt núverandi manni sínum, Árna Bergmann. Sýningin Jökull Jökull er stærri en hún gæti haft heima en hugmyndin að sýningunni segir Steinunn að hafi orðið til af því hún hafi ætlað að losna við að hafa afmælispartí heima hjá sér. “Því miður verður nú ekkert partí en ég má hafa þessa sýningu í Listasalnum sem er mjög fallegur og ég losna við að hafa afmælispartí,” segir Steinunn og brosir.

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn febrúar 11, 2021 07:53