Enduruppgötva fegurð landsins

Ég heillaðist fyrst af íslenskri náttúru þegar ég starfaði sem leiðsögumaður á Jökulsárlóni sumarið 1999. Þau 14 ár sem ég hef starfað sem faglærður leiðsögumaður á þýsku, ítölsku og ensku hefur hið stórkostlega og fjölbreytta landslag aldrei hætt að koma mér á óvart. Ferðaþjónustan hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og ber hæst mikil fjölgun ferðamanna sem sækja nú Ísland heim allan ársins hring. Þessar breytingar hafa hinsvegar haft áhrif á upplifun ferðamanna.

Fyrsti hópurinn sem ég tók að mér sumarið 2005 var frá Þýskalandi. Þar var meðal annars maður frá Frankfurt sem fannst víðáttan hvað eftirminnilegust. Að sjá varla annað fólk, hvað þá hús eða bíla. Níu árum síðar, eða í febrúar 2014, var ég aftur á ferð um landið með þýskum ferðamönnum sem þá sögðu allt aðra sögu. Þjóðverjarnir höfðu ákveðið að ferðast hingað til lands utan háannatíma til þess að upplifa landið án þess að mæta of mörgum ferðamönnum. Þeir urðu því hissa þegar þeir sáu allan þann fjölda sem einnig var á ferð um landið.

Í lokaritgerð minni í þýsku frá Háskóla Íslands fjallaði ég um Ísland sem ferðamannaland þýskumælandi þjóða og hvað það er sem hefur haft mest áhrif á þá ákvörðun ferðamanna frá þessum löndum að sækja Ísland heim. Niðurstöðurnar komu ekki á óvart en þær leiddu í ljós að náttúra Íslands skorar þar hæst fyrir sína ólýsanlegu fegurð og fjölbreytni.

Atburðir eins og Hrunið árið 2008, gosið í Eyjafjallajökli 2010 , Bókamessan í Frankfurt árið 2011 og síðast en ekki síst velgengni íslenska fótboltalandliðsins á Evrópumótinu í knattspyrnu 2016 og síðan á Heimsmeistarmótinu árið 2018, hafa eflaust líka haft sitt að segja og vakið frekari áhuga á landi og þjóð.

Samkvæmt tölum Ferðamálastofu fór fjöldi ferðamanna hér á landi úr hálfri milljón árið 2007 í tvær milljónir árið 2017. Þetta varð til þess að ferðaþjónustan fór fram úr sjávarútveginum sem mikilvægasta útflutningsgrein landsins. Hér blómstraði ferðamennska allan ársins hring, en ekki einungis yfir sumar, jól og áramót. Þýskum ferðamönnum fjölgaði úr 45 þúsund árið 2008 í 155 þúsund árið 2017 en Þjóðverjar hafa lengi vel sýnt Íslandi mikinn áhuga og mun lengur en flestar aðrar þjóðir.

Í dag er staða ferðaþjónustunnar vegna heimsfaraldursins gjörbreytt og á hún undir högg að sækja út um allan heim. Fólk hefur þurft að breyta ferðaáætlunum sínum og skipuleggja sig upp á nýtt. Verulega hefur dregið úr komu erlendra ferðamanna hingað til lands og að sama skapi hafa Íslendingar kosið að fresta sínum utanlandsferðum. Það sem kemur hinsvegar skemmtilega á óvart er hve duglegir Íslendingar hafa verið að ferðast innanlands í sumar. Náttúrutengd afþreying skiptir greinilega miklu máli og landsmenn eru augljóslega byrjaðir að enduruppgötva fegurð landsins. Það eru líka forréttindi að fá að njóta íslenskrar náttúru og það um ókomin ár því hún er einfaldlega einstök.

Aldís Brynja Schram skrifar.

 

 

Ritstjórn ágúst 11, 2020 09:51