Eyrún Lóa Eiríksdóttir bókmenntafræðingur er ung kona, sem hefur áhuga á málefnum eldri kvenna og hefur lagt sig eftir að skoða stöðu þeirra í bandarískum sjónvarpsseríum. Hún flutti fyrirlestur um efnið í Þjóðminjasafninu.
Eyrún Lóa segir að það skipti hugsanlega einhverju máli fyrir áhuga hennar á eldri konum að hún eigi móður sem sé að verða áttræð. Hún tók stúdentspróf eftir að Eyrún Lóa fæddist og fór í háskólanám. Hún er enn að kenna og Eyrún Lóa segir að þær séu miklar vinkonur og geri ýmislegt saman. Hún átti líka sterkar ömmur, önnur þeirra gaf henni alltaf bækur í jólagjöf og kannski vakti það bókmenntaáhugann sem olli því að hún tók bæði BA próf og masterspróf í bókmenntun og bætti við sig master í hagnýtri ritstjórn.
Fertug en þykist vera 28 ára
Meistararitgerð hennar í hagnýtri ritstjórn, fjallaði um sjónvarpsþættina Younger. Þættirnir fjalla um fertuga konu sem skilur eftir að hafa eignast barn en fær hvergi vinnu af því að hún þykir of gömul til að vera í útgáfubransanum. „Hún fær þá hugmynd að segja að hún sé 28 ára og af því hún hefur útlitið með sér getur hún það“, segir Eyrún Lóa. „Það var Darren Star sem gerði þættina en hann gerði líka þættina Sex in the city. Ég setti efnið í samhengi við hugmyndina um tímakrísuna, sem Diane Negra setti fram. Hún byggir á því að konur séu alltaf að renna út á tíma. Það er haldið að þeim snyrtivörum sem þær kaupa til að halda sér ungum lengur, til að geta halda sér lengur á vinnumarkaði“.
Skiptir máli að konur gera þættina
Þegar Eyrún fór að huga að doktorsverkefni, ákvað hún að taka fyrir eldri konur eins og þær birtast í nútímanum í þáttum á Netflix. „Mér finnst hafa komið inn nýjar hugmyndir með þáttum eins og Grace&Frankie. Netflix er streymisveita sem er ekki háð auglýsingum og þeir hafa tekið séns á að gera efni sem við fyrstu sýn er ekki talið geta slegið í gegn, en svo hefur komið í ljós að það er stór markaður fyrir svona efni“, segir hún. Það er Marta Kaufmann sem gerir þættina en bæði Jane Fonda og Lily Thomlin sem fara með aðalhlutverkin eru framleiðendur þáttanna. Eyrún Lóa segir mikilvægt að það séu konur sem gera þættina. „Það skiptir máli að leikstjórinn sé kvenkyns og handritshöfundarnir líka, en þetta hefur verið mikið karlaveldi í kvikmyndaiðnaðinum“. Hún segir það hafa komið fram í heimildaþætti að um leið og konum væri ýtt út vegna aldurs, færu þær að framleiða efni sjálfar. Steymisveita eins og Netflix þar sem ferskir vindar blésu hjálpuðu svo til, með því að gefa þeim tækifæri.
Konur sextugar og eldri 3% þeirra sem komu fram
Á níunda áratugnum voru í gangi þættir um eldri konur í Bandaríkjunum, sem hétu Golden girls, sem að sögn Eyrúnar Lóu eru fræðilega tengdir þáttum eins og Grace&Frankie, að því leyti að þeir fjölluðu um fjórar konur á eftirlaunaaldri í Miami. Betty White fór með eitt af aðalhlutverkunum en hún var mjög fræg leikkona vestra. Kastljósinu í þáttunum var beint að líkama eldri kvenna og kynlífi eldra fólks. Þeir voru í gangi frá árinu 1985 til ársins 1992. Á þessum árum voru sextugar konur og eldri um 3% þeirra sem sáust í bandarískum sjónvarpsþáttum. Eldri konur í öðrum þáttum en Golden girls, voru sýndar í frekar neikvæðu ljósi. Þær virtust eldri en karlar jafnaldra þeim, voru ekki eins virkar, ekki jafn gáfaðar eða ríkar og þeir.
Var látin deyja áður en hún varð 65 ára
Á tíma Golden girls, var leikkona sem var orðin 65 ára úrelt og búin að vera. Eyrún Lóa bendir á að sama gildi jafnvel enn þann dag í dag. „Ellen Barkin sem fór með stórt hlutverk í Animal Kingdom þáttunum, hélt þáttunum uppi. Hún var flott og sexý kona, sterkur karakter sem stjórnaði öllu í kringum sig. Þegar hún var að verða 65 ára vildu framleiðendurnir losna við hana og hún var drepin í þáttunum um það bil sem hún náði þessum aldri“, segir Eyrún og bætir við að það skipti hugsanlega máli að Animal Kingdom voru karlaþættir. Henni virðist samt eins og það séu að opnast dyr „Helen Mirren sem er 74ra ára fer með aðalhlutverkið í þáttum sem er verið að framleiða um Katrínu miklu. Hún er sterkur stjórnandi sem situr hesta eins og ekkert sé og er eftirsótt af körlum. Í auglýsingu fyrir þættina er karl sem segir að hún sé fegursta kona sem hann hafi augum litið. Hún svarar að hann megi koma og deila með sér rúmi, en krúnunni fái hann aldrei að deila með sér. Ég er ekki viss um að þetta hefði verið mögulegt fyrir nokkrum árum!“, segir Eyrún.
Ímynd eldri kvenna að breytast
Eyrún Lóa telur að ímynd eldri kvenna í sjónvarpsþáttum sé að breytast. Þar komi ýmislegt til. Svokallaðir Baby boomers, eða 68-kynslóðin eins og hún er gjarnan kölluð á Íslandi, eldist ekki á sama hátt og fyrri kynslóðir. Þar sé á ferðinni fólk sem hafi breytt samfélaginu á sínum tíma, beitt sér í jafnréttismálum og fleiru. „Þetta fólk heldur baráttunni áfram og er ekkert að draga sig í hlé þó að það eldist. Mörgum finnist að nú hafi eldri konur verið skildar eftir. Femínisminn hefur í fræðunum verið gagnrýndur fyrir að einblína á ungar hvítar konur. Mér finnst vera vitundarvakning , það eru núna að koma út bæði bækur og greinar um femínisma og aldur“, segir hún.
Fyrirlestur Eyrúnar Lóu heitir „Ég vil bara vera virkur þáttakandi í samtalinu“ Eldri konur í sjónvarpsefni nútímans. Hann er hluti af hádegisfyrirlestraröð RIKK í Þjóðminjasafni Íslands á haustmisserinu, en allir fyrirlestrarnir á þessu hausti eru tileinkaðir öldrun. Þeir eru eins og áður í samvinnu við Þjóðminjasafnið.