Er bernskan ekki nóg – af hverju til æviloka?

Viðar Eggertsson

Viðar Eggertsson, verðandi eldriborgari í þjálfun skrifar

Þátturinn Kveikur á RÚV á dögunum fjallaði um fátækt á Íslandi og sýndi okkur inn í heim sem því miður er enn raunveruleiki.

Ég var alinn upp af einstæðri móður sem barðist í bökkum í láglaunastarfi með okkur tvíburana. Við bjuggum í einu herbergi á Laugaveginum með aðgangi að eldhúsi og baðherbergi. Ég man eftir móður minni skríðandi á gólfinu í dauðaleit að aurum sem hugsanlega hefðu fallið þangað, til að geta keypt kannski mjólk. Þetta var nokkrum dögum fyrir mánaðamót – reglulega.

Ein mynd af bernsku minni er greypt fastar í minni en flestar aðrar.

Daginn eftir páska er hún að fara með okkur tvíburana í leikskólann okkar Laufásborg v. Laufásveg. Við gengum saman Bergstaðastrætið. Á horninu Bergstaðastræti/Bragagata var lítill söluturn. Mamma kom þar við á leiðinni að kaupa eitthvað. Afgreiðslukonan vék sér að okkur tvíburunum og spurði okkur glaðlega um páskaeggin okkar.

Við horfðum í forundran á stúlkuna, skilningssljó, og síðan á mömmu með alveg sömu spurnaraugun, full af skilningsleysi. Það var löng þögn. Mamma varð vandræðaleg. Stúlkan varð líka vandræðaleg.

Síðan áttaði hún sig og fór hjá sér. Hún áttaði sig á að börnin vissu ekki hvað hún var að tala um. Við höfðum nefnilega ekki fengið nein páskaegg og mamma reyndi að fela fyrir okkur að alvanalegt væri að börn fengju a.m.k. eitt slíkt. Hún hafði ekki efni á slíkum lúxus.

En nú var leyndarmálið afhjúpað. Afgreiðslukonan titraði örlítið og teygði sig í tvö afgangs páskaegg og gaf okkur sitt hvort eggið, eldrauð af blygðun en reyndi að láta eins og ekkert væri. – En ég skyldi strax hvað var á seyði. Börn eru næm.

Ég gleymi þessu aldrei. – Var það þess vegna sem ég stofnsetti eins manns leikhúsið EGG-leikhúsið?

Ísland er alveg eins og það var fyrir 60 árum hvað varðar börn. En af hverju vill íslenska samfélagið að þessi sömu börn séu enn föst í fátæktargildru þegar þau eru orðin eldri borgarar?

 

Viðar Eggertsson mars 9, 2020 08:20