Fyllist öryggi og trausti á að kerfið okkar sé að virka

Wilhelm WG Wessman

Wilhelm WG Wessman skrifar um árin 1918 og 2020

Þegar ég hlusta á daglegan fréttatíma RÚV klukkan 14:00  um stöðu  COVID-19-veiruna fyllist ég öryggi og trausti á því að kerfið okkar sé að virka.

Á sama tíma verður mér oft hugsaði til móður minnar, sem upplifði sem barn Spænskuveikina 1918 og  minningar  hennar frá þessum tíma.

Móðir okkar Guðríður Dagný Guðmundsdóttir (Wessman eftir að hún giftist pabba) fæddist í Brunnhúsum við Suðurgötu í Reykjavík sem var á sömu lóð og Tjarnarbíó er í dag. Hún var fædd 19 febrúar 1913 og lést 30.mars 1995. Mamma var dóttir Jónínu Sigríðar Jónsdóttur sem fæddist í Keflavík 28. apríl 1878, en andaðist í Reykjavík, úr Spænsku veikinni, 16. nóvember 1918.

Faðir hennar Guðmundur Jónsson fæddist á Þrándarstöðum í Brynjudal í Kjósarhreppi 22. mars 1879. Hann lést í Reykjavík 29. júní 1964. Afi og amma áttu fimm börn, en aðeins móðir mín og ein systir hennar náðu fullorðinsárum.

Þegar móðir hennar deyr úr Spænsku veikinni 1918 er mamma  fimm ára. Þar sem hún átti  enga ættingja sem gátu annast hana var henni komið fyrir á barnaheimili  sem komið hafði verið á fót í Miðbæjarbarnaskólanum við Tjörnina til að annast munaðarlaus börn. Minningin um dvöl hennar á barnaheimilinu sat alltaf í henni og sagði hún að lyktin af pissublautum barna prjónanærbuxum vektu alltaf hjá sér hroll og minntu sig á dvölina á barnaheimilinu, en þannig var að þau voru höfð tvö í rúmi. Með henni í rúmi var yngri strákur sem sennilega hefur alltaf verið pissublautur og börn á þeim árum alltaf í prjónanærbrókum.

Guðmundur afi var sjómaður og starfaði hjá DFDS skipafélaginu í Kaupmannahöfn. Samkvæmt sjóferðarbók afa afskráði hann sig af skipinu sem hann var á í New York til að komast heim eftir lát ömmu. Heimferðin tók hann sex mánuði.

Garðar Gíslason stórkaupmaður fékk heimild til að taka mömmu inn á sitt heimili meðan beðið var eftir heimkomu afa. Garðar óskaði eftir því við afa heimkominn, að hann fengi að ættleiða mömmu. Afi hafnaði því og kom henni í fóstur til Ragnheiðar og Guðmundar á Brekkustíg 1 í Reykjavík þar sem hún ólst upp fram á unglingsár, en þá flutti hún til Kaupmannahafnar.

Í öldinni okkar segir svo frá 1918

Bærinn að verða matarlaus.

Um það leyti, sem draga tók úr veikinni, var bærinn að verða matarlaus, því engin hafði farið til aðdráttar eða  veiða.

Fékk bæjarstjórnin þá útgerðarfélagið Kveldúlf til að senda togara á veiðar og var fiski úr honum síðan ekið um bæinn svo fólk gæti fengið nýjan soðning. Ýmsar matvælaverzlanir gáfu einnig mat af birgðum sínum meðan til entist.

 

Við getum þakka okkar færa fagfólki fyrir hvernig það stendur að málum og eigum að hlíta þeim reglum sem það setur okkur meðan veikin er að ganga yfir.

Wilhelm Wessman apríl 20, 2020 08:09